Blaðamannafundur RIFF 2019

RIFF 2019

RIFF hátíðin – Miðasala á riff.is – Sýningar í Bíó Paradís

 

Velkomin í bíó. Velkomin á RIFF 2019.

Alþjóðleg kvikmyndahátíð í Reykjavík, RIFF, hefst í næstu viku, fimmtudaginn 26. september nk. með frumsýningu á End of Sentence eftir Elvar Aðalsteins, og lýkur þann 06. Október með frumsýningu á Parasite, eftir Bong Joon-ho, en sú mynd vann aðalverðlaunin í Cannes í vor.

Hér er hægt að komast í dagskrána eftir dögum: https://riff.is/dagskra/

Hér er hægt að komast í allan bæklinginn: https://issuu.com/rifffilmfestival/docs/riff_program_2019

Hér er hægt að kaupa miða: https://riff.is/midaverd-og-midasala/

Sýningar fara að mestu fram í Bíó Paradís en einnig verða nokkrar sérsýningar í Norræna húsinu, Sundhöll Reykjavíkur og Loft hostel til dæmis. Auk þess verður kvikmyndadagskrá RIFF út um alla borg, meðal annars á bókasöfnum, í félagsheimilum, fangelsum og á hjúkrunarheimilum – undir nafninu RIFF Around Town. Mínútumyndir og stuttmyndirnar „Shorts Matter!“ frá evrópsku kvikmyndaverðlaununum verða sýndar í félagsheimilum og á bókasöfnum borgarinnar. Heimildarmyndin Advocate (Lögmaður) verður sýnd í fangelsunum Litla Hrauni og Hólmsheiði. Síðasta Haustið eftir Yrsu Roca Fannberg verður sýnd dvalargestum á hjúkrunarheimilum Grund og Mörkinni.

 

RIFF hátíðin er nú haldin í sextánda sinn og er dagskráin óvenju glæsileg af þeim sökum. RIFF er alþjóðleg, óháð kvikmyndahátíð. Myndirnar eiga það flestar sammerkt að vera splunkunýjar, margar hverjar heimsfrumsýndar nýlega í Cannes, Feneyjum og Toronto, og endurspegla það besta sem alþjóðleg kvikmyndagerð hefur upp á að bjóða. Um er að ræða gæðamyndir af ýmsu tagi eftir virta leikstjóra og með heimsfrægum leikurum á borð við John Hawkes, Willem DaFoe, Tilda Swinton, Robert Pattison og Bill Murray.

 

Myndirnar fjalla um allt milli himins og jarðar, allt frá framhjáhaldi, fantaskap og földum gröfum til póetískrar myndar um bóndahjón að bregða búi á Krossnesi á Ströndum. RIFF er fjölbreytt, sólrík en jafnframt skuggaleg, og þar verður hægt að finna allt litróf mannlegra tilfinninga.

 

Meðal mynda sem sýndar verða eru The Lighthouse sem sló í gegn á Cannes hátíðinni í vor, en þær þrjár myndir sem vöktu mesta athygli á þeirri hátíð verða allar sýndar á RIFF, hinar tvær voru Parasite og The Dead don´t die eftir Jim Jarmusch.

 

Sérstök athygli verður veitt myndum frá Austurríki í ár. Myndir eins og Earth, sem fjallar ekki um loftlagsbreytingar heldur landslagsbreytingar af mannavöldum. Chaos eftir Söruh Fattahl sem er sýrlenskur flóttamaður í Vín og er orðin ein af efnilegustu leikstjórum Austurríkis. Nobadi eftir Karl Markovics sem var heimsfrumsýnd í Toronto í síðustu viku, Movements of a nearby mountain eftir Nahen Bergs, The Children of the Dead eftir Kelly Copper og Pavol Liska, Space Dogs eftir Elsu Kremser og Levin Peter að ógleymdri Little Joe eftir Jessicu Hausner, en hún vakti mikla athygli á Cannes hátíðinni í vor og vann aðalleikona myndarinnar, Emily Beecham, aðal leikaraverðlaunin á hátíðinni í vor.

 

 

Á RIFF hátíðinni verða 147 myndir sýndar. Þar af 42 bíómyndir, 24 heimildarmyndir og 81 stuttmynd. Heiðursgestirnir í ár eru þrír, tveir af þeim eru kvenmenn. Annarsvegar hlýtur Claire Denis heiðursverðlaun hátíðarinnar fyrir framúrskarandi listræna sýn og hinsvegar hlýtur Katja Adomeit heiðursnafnbótina Upprennandi meistari, en báðar munu þær koma á hátíðina til að taka við verðlaununum. Hollywood leikarinn John Hawkes er síðan þriðji heiðursgesturinn. Um 57% kvikmyndagerðarmannanna eru karlmenn og 43% eru kvenmenn. Í flokknum Vitranir eru 45% myndanna eftir konur (4 myndir) og 55% myndanna eftir karla (5 myndir). Í flokknum Fyrir opnu hafi

 

Á RIFF verða 18 Norðurlandafrumsýningar og 12 heimsfrumsýningar. Fjöldinn allur af stuttmyndum munu hafa heimsfrumsýningu á hátíðinni. Á annað hundrað erlendir gestir úr kvikmyndaheiminum eru væntanlegir til að kynna verk sín eða taka þátt í íslenskum Bransadögum og Talent Lab smiðjunni sem haldin er samhliða.

 

Á hátíðinni verða sýndar myndir frá 48 löndum. Íslandi, Suður-Kóreu, Gvatemala, Belgíu, Frakklandi, Danmörku, Þýskalandi, Lúxemborg, Afganistan, Katar, Ítalíu, Argentínu, Bandaríkjunum, Rúmeníu, Serbíu, Alsír, Búlgaríu, Grikklandi, Finnlandi, Kína, Svíþjóð, Noregi, Norður-Makedóníu, Slóveníu, Króatíu, Hollandi, Bretlandi, Túnis, Sviss, Kanada, Póllandi, Austurríki, Sýrlandi, Líbanon, Ísrael, Grænlandi, Írlandi, Færeyjum, Portúgal, Tyrklandi, Brasilíu, Perú, Ungverjalandi, Indlandi, Ástralíu, Gerogíu, Lettlandi og Úkraínu.

 

Hjá RIFF eru 18 íslenskar myndir, allt frá stuttmyndum til heimildar- og bíómynda. Tveir þættir í nýrri þáttaröð Nönnu Kristínar Magnúsdóttur, Pabbahelgar, verða sýndir, ásamt fyrstu bíómynd Elfars Aðalsteins, End of Sentence, en í öðru aðalhlutverkinu í myndinni er Hollywood leikarinn John Hawkes. Þá er íslensk mynd í keppnisflokknum Vitranir, aðeins í annað sinn sem íslensk mynd kemst í þann flokk, það er Síðasta haustið eftir Yrsu Roca Fannberg en Hanna Björk Valsdóttir framleiddi. The Seer and the Unseen hefur hvarvetna fengið góða dóma en Sara Dosa stýrði þessari heimildamynd þar sem Ragnhildur Jónsdóttir er í fókus. Margrét Hrafnsdóttir er einn framleiðenda myndarinnar House of Cardin sem hefur vakið mikla athygli á kvikmyndahátíðum síðustu mánuðina en hún fjallar um tískufrömuðinn Pierre Cardin og hver sé maðurinn á bakvið goðsögnina?

 

Heimildarmyndirnar sem sýndar verða á RIFF hafa á síðustu mánuðum vakið gríðarlega athygli í heiminum. Push fjallar um hvernig víða í stórborgum heimsins er skipulega unnið að því að koma fátæku fólki úr borgunum, myndin hefur vakið mikla athygli og orðið til þess að pólitíkusar í Norður-Evrópu hafa farið í það að breyta lögum og reglum á húsnæðismarkaði. Heimildarmynd um hið sorglega fráfall framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna árið 1961, Dags Hammarskjöld, er til umfjöllunar í myndinni Cold Case Hammarskjöld. Þá er ein myndin beint frá Aleppo, í Sýrlandi, og heitir For Sama, Tansnistra sem gerist í sjálfsstjórnarríkinu Tansnistríu, Irving Park sem er saga fjögurra samkynhneigðra manna á sjötugsaldri og Selfie sem fjallar um unglinga sem alast upp í hverfi í Napólí þar sem mafían varpar ennþá skugga sínum yfir borgina.

 

Hryllingsmyndir fá sérstaka athygli á hátíðinni en í þeim flokk fá norrænar myndir sérstaka athygli. Myndin Koko-di Koko-da eftir Johannes Nyholm verður sýnd auk sænsku klassíkurinnar Evil Ed, eftir Aders Jacobsson. En einnig ný hryllingsmynd frá Túnis, Dachra, eftir Abdelhamid Bouchnak. Fjöldi skemmtilegra stuttmynda verða í hryllingsmynda flokknum, eins og Helsinki Mansplaining Massacre sem fjallar um flótta ungrar konu frá hópi manna sem vilja hrútskýra allt fyrir henni, Milk sem er kanadísk mynd um hryllingsferð í átt að mjólkurglasi í eldhúsinu og Lullaby sem er rómantísk vísindafantasía með hryllingstilfinningu. Sérstakt „hryllings maraþon“ verður kvöldið og nóttina 27. September, þegar hryllingsmyndirnar verða sýndar ein á eftir annarri langt fram eftir nóttu. RIFF lofar hryllilega góðri stemming í Bíó Paradís þetta kvöld.

 

Meðfram sýningu myndanna er boðið upp á fjölbreytta fræðsludagskrá þar sem tugir erlendra gesta deila fróðleik um kvikmyndir og taka þátt í spurt og svarað eftir sýningar.

 

Þá býður RIFF upp á fjölda sérviðburða sem reynst hafa óvenju vinsælir undanfarin ár. Meðal þeirra má nefna:

 

Opnunarathöfn RIFF fer fram fimmtudagskvöldið 26. September í Háskólabíó. Leikkonan Arndís Hrönn Egilsdóttir fer með hina árlegu hátíðargusu áður en að opnunarmyndin End of Sentence verður sýnd. Partý verður svo haldið í Iðnó eftir sýningu.

 

Sundbíó – Költ skrímslamyndin The Host eftir Bong Joon-ho, sem vann aðalverðlaun Cannes hátíðarinnar núna í vor fyrir nýjustu myndina sína, verður sýnd í Sundhöll Reykjavíkur.

 

Kvikmyndir verða sýndar í félagsheimilum og á bókasöfnum borgarinnar.

 

Kvikmyndaknæpugáta – Hugleikur Dagsson og Jonathan Duffy halda skemmtilegt óhefðbundið pöbb kviss þar sem eru hærri verðlaun fyrir húmor en þekkingu.

 

Reykjavík Whale Watching Massacre verður sýnd nú á Center Hotel Plaza á föstudagskvöldið, þann 20. september, sem undirbúningur fyrir hryllingsmynda þemað sem verður á hátíðinni í ár. Húsið opnar klukkan 20:00.

 

 

Teiknimyndin Lói – þú flýgur aldrei einn verður sýnd með lifandi flutning tónlistar af Sinfóníuhljómsveit Norðurlands í Hofinu á Akureyri, sunnudaginn 22. September. Einnig verður sérstök sýning af klassísku barnamyndinni Emil í kattholti sýnd í Fjölskyldu og Húsdýragarðinum, miðvikudaginn 2. október kl. 18:00.

 

RIFF verður með sérstakar skólasýningar í ár – í samstarfi við Kópavogsbæ í Smárabíó og í Reykjavík í Bíó Paradís. Kvikmyndir sem tilnefndar voru til evrópsku verðauna ungra áhorfenda hjá European Film Awards verða sýndar ásamst fleiri verkum.

 

Sérsýningin “Tunglið tunglið taktu mig” laugardaginn 28. september í Norrænahúsinu fagnar því að 50 ár eru liðin frá fyrstu tungllendingunni. Sýningin er samstarf við Hors Pistes Film Festival og Pompidou Safnið, ásamt UniFrance og Sendiráð Bandaríkjanna á íslandi.

 

 

Lokafhóf RIFF og verðlaunarafhending fer fram 5. október í Norrænahúsinu, þar sem verðlaun verða veitt fyrir Uppgötvun ársins ásamt verðlaunu fyrir Önnur framtíð flokkinn, bestu íslensku stuttmyndina og Gyllta eggið.

 

 

Umfang RIFF hefur margfaldast frá upphafsárinu 2004 og hátíðin hefur sannarlega fest sig í sessi, annars vegar sem ein athyglisverðasta kvikmyndahátíðin í Evrópu ár hvert og hins vegar sem einn af stærri menningarviðburðum landsins. Í takt við aukið umfang hefur öll vinna við undirbúning hátíðarinnar aukist umtalsvert og teygir sig nú yfir allt árið. Markmið þeirra sem að hátíðinni standa er hið sama og á upphafsárunum, að skapa skemmtilega menningarhátíð þar sem allflestir finna eitthvað við sitt hæfi.

 

RIFF hefur á undanförnum tíu árum stimplað sig rækilega inn í heim kvikmyndanna og dregið til sín árlega um 30.000 innlenda og erlenda gesti, m.a. heimsfrægt folk úr heimi kvikmyndanna eins og Milos Forman, Susanne Bier, Jim Jarmusch, Mads Mikkelsen og Aki Kaurismaki.

 

Miðasalan á hátíðina hefst í dag, miðvikudaginn 18. September, á síðunni RIFF.is og í Bíó Paradís. Hátíðarpassi sem gildir á allar hefðbundnar kvikmyndasýningar RIFF kostar 17.900 krónur, en klippikort sem gildir á átta sýningar og hægt er að deila kostar 9.600 krónur. Miði á stakar sýningar kostar 1.200 krónur á þær sem eru fyrir kl. 16:00 en 1.600 krónur á þær sem eru eftir 16:00.

 

Allar frekari upplýsingar um myndir og viðburði er hægt að finna á https://riff.is

 

Velkomin í bíó. Velkomin á RIFF 2019!

 

Nánari upplýsingar veitir kynningarfulltrúi okkar Börkur Gunnarsson, press@riff.is, s: 691 4419