Claire Denis meðal valdra í dómnefnd Cannes

Eins og flestir vita þá er Cannes hátíðin, ein stærsta kvikmyndahátíð í heimi, rétt handan við hornið og við hér hjá RIFF gerum hreinlega ekki annað en að uppfæra síðuna þeirra til að sjá nýjustu fréttir.

Nú hefur verið tilkynnt hverjir munu sitja í dómnefndinni ár og er þar þekkt bransafólk á hverju strái.

Fyrsta sinn Suður-Ameríkumaður  í formannsstól

Skjáskot af heimasíðu Cannes Film Festival.

Fyrst ber að nefna aðaldómnefnd hátíðarinnar sem sér meðal annars um að veita Gyllta pálmann fyrir kvikmynd í fullri lengd, ein virtustu verðlaun kvikmyndaheimsins. Fjórir karlar og fjórar konur hvaðanæva að skipa dómnefndina. Að þessu sinni situr Alejandro Gonzalez Iñárritu, kvikmyndagerðarmaður, í formannsstól aðaldómnefndar en auk hans skipa dómnefndina:

Elle Fanning  – Leikkona / Bandaríkin

Maimouna N’Diaye – Leikkona og leikstjóri / Búrkína Fasó

Kelly Reichardt – Leikstjóri og handritshöfundur / Bandaríkin

Alice Rohrwacher –  Leikstjóri og handritshöfundur / Ítalía

Enki Bilal – Rithöfundur og leikstjóri / Frakkland

Robin Campillo – Leikstjóri og handritshöfundur / Frakkland

Yorgos Lanthimos – Leikstjóri og handritshöfundur / Grikkland

Paweł Pawlikowski – Leikstjóri og handritshöfundur / Pólland

Claire Denis í forgrunni dómnefndar

Skjáskot af heimasíðu Cannes Film Festival.

Stuttmyndir skipa einnig stóran sess á hátíðinni í ár og er Gyllti pálminn einnig veittur þeirri stuttmynd og kvikmyndargerðarmanni sem skarað hefur fram úr á því sviði. Dómnefndin mun einnig verðlauna eina af þeim 17 kvikmyndum sem valdar hafa verið úr röðum kvikmyndaskóla til sýningar á hátíðinni.

Að þessu sinni skipa fimm einstaklingar dómnefndina og er formaður hennar engin önnur en Claire Denis, leikstjóri og handritshöfundur!

Denis er þekktust fyrir kvikmynd sína Beau Travail  sem talin er ein besta kvikmynd tíunda áratugarins. Síðasta mynd hennar High Life kom út í fyrra og skartaði þar stjörnum á borð við Robert Pattinsson og Juliette Binoche.  Denis er þekkt fyrir áhugaverð sjónarhorn þar sem jaðarhópar fá oft vægi og rödd sína heyrða. Samspil lita, hljóða, sjónarhorna og forma leika meðal annars lykilhlutverk í myndum hennar.

Auk hennar sitja í dómnefndinni leikkonan Stacy Martin frá Bretlandi og Frakklandi, ísraelski leikstjórinn og handritshöfundurinn Eran Kolirin, gríski leikstjórinn og handritshöfundurinn Panos H. Koutras og rúmenski leikstjórinn og framleiðandinn Cătălin Mitulescu.

Dómnefnd í flokki Annarskonar Sýn

Skjáskot af heimasíðu Cannes Film Festival.

Líbanska leikkonan og leikstjórinn Nadine Labaki er formaður dómnefndar sem veitir kvikmyndum í flokknum Annarskonar sýn verðlaun. Þetta eru kvikmyndir sem þykja sýna aðra sýn og ögra kvikmyndaforminu á einhvern frumlegan hátt. Dómnefndin er skipuð þremur konum og tveimur körlum. Meðal þeirra eru franska leikkonan Marina Foïs, þýski framleiðandinn Nurhan Sekerci-Porst, argentínski leikstjórinn Lisandro Alonsi og belgíski leikstjórinn Lukas Dhont.

Áhugavert verður að sjá hvaða kvikmyndir munu hreppa hnossið að þessu sinni en flest öll verðlaunin verð afhent með pompi og prakt þann 25. maí næstkomandi.