Dagskrárnefndin 2019

Hátíð eins og RIFF verður ekki til í tómi. Að baki henni stendur sterkt teymi sem vinnur hörðum höndum allt árið um kring við að setja saman þá dagskrá sem sýnd verður að hausti.

Dagskrárnefndin er ein þeirra stoða sem heldur uppi RIFF. Þeirra hlutverk er að fara í gegnum allar þær umsóknir sem berast frá kvikmyndagerðarfólki hvaðanæva að. Umsóknirnar eru yfir þúsund og hefst umsóknarferlið um leið og RIFF klárast. Því mikið verk sem liggur að baki vali sem þessu. En hvaða fólk er það sem situr í þessari merki nefnd? Hvaða bakgrunn hefur það og hvaða áhugamál knýr lífsorkuna áfram?

Á næstu dögum og vikum munum við birta umfjallanir um þá aðila sem sitja í dagskrárnefndinni ár. Meðal þess sem mun koma í ljós er áhugi sumra þeirra á sérstökum ilmvötnum, kvikmyndasögunni, bakarísbakkelsi og kolkröbbum (ótrúlegt en satt!) en meira um það seinna.

Við kynnum með gífurlegu stolti dagskrárnefndina í ár.

Hana skipa Gosetti Giorgio listrænn stjórnandi Venice Days Film Festival, Hrönn Marinósdóttir stjórnandi RIFF og Guðrún Helga Jónasdóttir dagskrárstjóri heimildarmynda og meðlimur í dómnefnd fyrir alþjóðlegu Emmy verðlaunin.

Auk þeirra eru Ana Catalá dagskrárstjóri stuttmynda RIFF en hún hefur einnig starfað við undirbúning kvikmyndahátíðarinnar í Tribeca og Giorgia Huelsse sem hefur meðal annars unnið að Berlinale, alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Berlín.