End of Sentence opnunarmynd RIFF í ár

Kvikmynd Elfars Aðalsteins, End of Sentence, mun opna Alþjóðlegu kvikmyndahátíðina í Reykjavík, RIFF, í ár. Frumsýning verður 26. september. Kvikmyndin skartar virtum og reynslumiklum Hollywood leikurum, þeim John Hawkes, sem tilnefndur hefur verið til Óskarsverðlauna, og Logan Lerman, sem hefur leikið í fjölmörgum stórmyndum þrátt fyrir ungan aldur. Leikstjóri og aðalleikari munu verða viðstaddir frumsýningu myndarinnar og ræða um gerð hennar að sýningu lokinni.

Ýmislegt gengur á í ferð tveggja ferða til Írlands þar sem þeir hyggjast dreifa ösku móður og eiginkonu.

End of Sentence er vegamynd sem segir sögu feðga er legga land undir fót til að heiðra minningu móður og eiginkonu, en hennar hinsta ósk var að ösku hennar yrði dreift í lítið vatn á æskuslóðunum á Írlandi. Samband feðganna er vægast sagt stirt og á vegferð þeirra um landið kemur margt upp úr kafinu. Myndin er í senn ljúfsár og kómísk en umfram allt hjartnæm. End of Sentence var nýlega frumsýnd á Alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Edinborg og fékk í kjölfarið lofsamlega dóma í virtum erlendum fagmiðlum og það er RIFF því mikill heiður að fá að frumsýna myndina hér á landi og kynna hana fyrir íslenskum og erlendum áhorfendum. Fjölmargir Íslendingar koma að gerð myndarinnar á borð við Ólaf Darra Ólafsson, Kristján Loðmfjörð og Evu Maríu Daníels. Þá er myndin framleidd af Sigurjóni Sighvatssyni, David Collins og Elfari Aðalsteins.

Sarah Bolger leikur eitt aðalhlutverkið í myndinni.

End of Sentence er fyrsta leikstjórnarverkefni Elfars í fullri lengd, en stuttmynd hans Sailcloth hlaut verðlaun sem besta íslenska stuttmyndin á RIFF árið 2011 auk þess að vinna Edduverðlaunin, sem stuttmynd ársins 2012, ásamt því að komast í lokaúrtak BAFTA- og Óskarsverðlauna það árið.

End of Sentence mun feta í fótspor kvikmynda sem hafa í kjölfar þess að opna RIFF, ferðast víða um heim og notið velgengni. Meðal þeirra er opnunarmynd hátíðarinnar í fyrra, Donbass eftir Sergey Loznitsa, sem hlaut hin virtu Un Certain Regardverðlaun á Cannes og mynd Hlyns Pálmasonar, Vetrarbræður, sem opnaði hátíðina árið áður, en hún hlaut meðal annars alþjóðleg verðlaun á Locarno kvikmyndahátíðinni ásamt verðlaunum dönsku kvikmyndaakademíunnar.