Forsala á hátíðarpössum RIFF hefst 2.maí

Kvikmyndaáhugafólk getur hoppað hæð sína af kæti þann 2.maí næstkomandi en þá munu hátíðarpassar okkar fyrir RIFF 2019 verða á sérstöku forsöluverði í 48 klukkustundir. Miðasala fer fram á Tix.is og hér inn á heimasíðu RIFF. Hátíðarpassi RIFF veitir ótakmarkaðan aðgang að kynngimagnaðri dagskrá hátíðarinnar í ár.

Mikil vinna er að baki hátíð sem þessari og er undirbúningur nú þegar hafinn. Starfsfólk okkar og sjálfboðaliðar sjá nú til þess að hátíðin í ár verði sú besta hingað til. Hátíðin hefur löngum verið ein af stærri menningarhátíðum Íslands og hefur fengið athygli víða um heim fyrir áhugaverðar kvikmyndir og skemmtilega viðburði. Síðustu ár hafa um 100 kvikmyndir í fullri lengd frá um 40 löndum verið sýndar á RIFF en hátíðin er sjálfstæð og óháð kvikmyndahátíð sem rekin er án hagnaðar.

Stjörnur skína á RIFF

Fjölda þekktra nafna úr kvikmyndaheiminum hafa lagt nafn sitt við hátíðina en meðal þeirra eru leikstjóri Broken Flowers Jim Jarmusch, Milos Forman leikstjóri One Flew Over the Cuckoo’s Nest, leikkonan Shailene Woodley úr Big Little Lies en hún sat í einni dómnefnd síðustu hátíðar, leikstjóri Bird Box og Brothers Susanne Bier og Mads Mikkelsen sem er flestum Íslendingum kunnur, en hann hlaut verðlaun fyrir framúrskarandi feril sinn á hátíðinni í fyrra.

Enn er verið að velja myndir inn á hátíðina í ár en um valið sér sérstök dagskrárnefnd skipuðum kanónum úr hinum alþjóðlega og innlenda kvikmyndaheimi. Síðasti séns til að senda inn umsókn er 7. júlí.

Kvikmyndagerðarfólk er hvatt til að kynna sér þær kröfur sem gerðar eru til þeirra kvikmynda sem eru gjaldgengar inn á hátíðina og senda inn umsókn ef kröfum er mætt og áhugi liggur fyrir.