STEFNUR

Alþjóðleg kvikmyndahátíð í Reykjavík – RIFF, er lifandi hátíð sem tekur breytingum ár frá ári. Slíkt umhverfi getur skapað skemmtilegar og frjóar vinnuaðstæður sem jafnframt geta reynst krefjandi. Því er mikilvægt að ferlar séu í lagi til þess að tryggja gagnsæi og vönduð vinnubrögð.

RIFF hefur sett sér stefnur varðandi sjálfbærni, auk aðgengisstefnu og starfsmannastefnu með tilheyrandi EKKO stefnu.Núgildandi stefnur voru samþykktar af stjórnendum RIFF í júní 2024. 

STARFSMANNASTEFNA

MARKMIÐ

Markmið með starfsmannastefnu RIFF er að hafa á að skipa hæfu, traustu og áhugasömu starfsfólki sem vinnur sem ein heild að undirbúningi hátíðarinnar.
Stefnunni er ætlað að stuðla að góðum starfsanda og starfsskilyrðum þar sem virðing og jafnrétti einkennir öll samskipti. Lögð er áhersla á að starfsfólk sé vel upplýst um skyldur sínar og verkefni og sýni ábyrgð og frumkvæði.

RÁÐNINGAR OG MÓTTAKA NÝRRA STARFSMANNA

Laus störf hjá RIFF standa öllum opin til umsóknar. Val á starfsfólki byggir á faglegum vinnubrögðum og jafnréttissjónarmiðum. Áhersla er að taka vel á móti nýju starfsfólki og fræða þau um starfsemi hátíðarinnar, verkefni og önnur atriði.

TRÚNAÐARMAÐUR

Trúnaðarmaður RIFF var skipaður þann 1. júní 2024. Staða trúnaðarmanns skal endurskoðuð árlega í upphafi starfsárs.
Hlutverk trúnaðarmanns er að vera til staðar fyrir samstarfsfólk, fylgjast með vellíðan og starfsöryggi samstarfsfélaga sinna ásamt því að auðvelda samskipti við atvinnurekanda og miðla upplýsingum. 

GILDI

Starfsfólk RIFF hefur ákveðin gildi sérstaklega til hliðsjónar í störfum sínum.
Gildin eru gleði, frumkvæði, drifkraftur og fagmennska.

STARFSÁNÆGJA OG STARFSANDI

Áhersla er lögð á að góður starfsandi ríki og að starfsfólki líði vel í starfi. Allir leggja sitt af mörkum til að skapa góðan starfsanda. Samskipti einkennast af heiðarleika, virðingu og trausti. Starfsfólk er hvatt til að tjá sig um hvað því finnst miður/fara vel á vinnustaðnum. Starfsfólk skal í öllum tilfellum beina ábendingum til næsta yfirmanns eða trúnaðarmanns. Komi upp ágreiningur skuldbinda starfsmenn sig til að fylgja leiðbeinandi ferlum, sbr. EKKO- stefnu RIFF.

JAFNRÉTTI

Lögð er áhersla á að starfsmenn njóti þeirra réttinda sem sem kveðið er á um í lögum, reglum og samningum um jafnréttismál. Fyllsta jafnréttis er gætt í öllum störfum og verkefnum hátíðarinnar.

EKKO STEFNA RIFF

INNGANGUR OG MARKMIÐ

Markmið EKKO [EKKO: einelti, kynbundin áreitni, kynferðisleg áreitni, ofbeldi] stefnu, forvarnar og viðbragðsáætlunar RIFF er að tryggja úrræði og stuðla að forvörnum og verkferlum til að bregðast við EKKO málum. Stefna þessi byggir á sambærilegum stefnum frá hinu opinbera og samræmist ákvæðum laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum og reglugerð nr. 1009/2015 um aðgerðir gegn EKKO á vinnustöðum.

STEFNA

RIFF leggur mikla áherslu á að skapa öruggt og heilbrigt starfsumhverfi fyrir starfsfólk og samstarfsaðila. Einelti, kynbundin áreitni, kynferðisleg áreitni og ofbeldi eru ekki liðin og allar ábendingar um slíkt verða teknar alvarlega. Við EKKO tilvik skal fylgja eftirfarandi forvarnar og viðbragðsáætlun.

 

TIL AÐ STUÐLA AÐ VELLÍÐAN OG ÖRYGGI STARFSFOLKS VERÐUR LÖGD ÁHERSLA Á EFTIRFARANDI

Endurskoða skilvirkni aðferða reglulega og að loknu EKKO máli.
Þjálfa stjórnendur í EKKO verkferlum og móttöku kvartana, með áherslu á hluttekningu og virka hlustun.
 Fræða starfsfólk um einkenni, afleiðingar og verkferla EKKO eftir þörfum.
Gera verkferla EKKO sýnilega og aðgengilega á innri vef RIFF og í starfsmannahandbókum.

 

VIÐBRAGÐSÁÆTLUN

Ábyrgð og hlutverk
Starfsfólk RIFF ber sameiginlega ábyrgð á að skapa öruggt starfsumhverfi. Ef starfsmaður verður fyrir, verður vitni að, eða hefur rökstuddan grun um EKKO tilvik, skal hann tilkynna það til næsta yfirmanns eða mannauðsstjóra. RIFF getur einnig leitað til fagaðila með sérhæfingu í EKKO málum fyrir stuðning og ráðgjöf.

Viðrun máls
Viðrun gefur einstaklingi tækifæri til að ræða upplifun sína í öruggum aðstæðum án þess að leggja fram formlega kvörtun. Veittar eru upplýsingar um formlega málsmeðferð og stuðningsúrræði.
Formleg málsmeðferð
Formleg málsmeðferð hefst ef starfsmaður leggur fram formlega kvörtun um EKKO tilvik. Í formlegri meðferð máls fer fram könnun á málsatvikum, upplýsingum er safnað og niðurstaða fengin. Eftirfarandi verklag er haft til hliðsjónar:
Tilkynning berst mannauðsstjóra/stjórnanda.
Hlutlaus athugun og úrvinnsla hefst, með mögulegri aðstoð fagaðila.
Upplýsingaöflun og viðtöl við málsaðila, gögnum er safnað.
Úrvinnsla gagna og niðurstaða kynnt málsaðilum.
 Eftirmálar: Málsaðilum er veitt eftirfylgni og boðið upp á frekari úrvinnsluleiðir ef þörf er á.
Skilgreiningar
Stefna og viðbragðsáætlun þessi byggir á eftirfarandi skilgreiningum samkvæmt reglugerð nr. 1009/2015 og lögum nr. 150/2020:
Einelti: Síendurtekin hegðun sem veldur vanlíðan, svo sem að móðga, særa eða ógna.
Kynbundin áreitni: Hegðun tengd kyni, sem misbýður virðingu og skapar ógnandi aðstæður.
Kynferðisleg áreitni: Hvers kyns kynferðisleg hegðun sem misbýður virðingu og skapar niðurlægjandi aðstæður.
Ofbeldi: Hegðun sem veldur eða gæti valdið líkamlegum eða sálrænum skaða, einnig hótun um slíkt.

SJÁLFBÆRNISTEFNA RIFF

Hvernig tengist kvikmyndaiðnaðurinn sjálfbærni?


Á síðustu árum og áratugum hefur orðið bylting í kvikmyndaiðnaði og kvikmyndatengdum iðnaði hvað varðar sjálfbærniáherslur.  Ábyrgð kvikmyndaiðnaðarins er fjölþætt og snertir fleira en hið áþreifanlega umhverfi og grænar áherslur. Stórum og alþjóðlegum kvikmyndaframleiðslum getur vissulega fylgt gríðarþungt kolefnisspor ef ekki er vel að gætt.

Hagræn og menningarleg áhrif kvikmynda má þó ekki vanmeta. Mikil umræða hefur átt sér stað um samfélagslega ábyrgð á öllum stigum kvikmyndaframleiðslu, allt frá handriti og leikaravali til vals á tökustað og síðustu handtaka fyrir frumsýningu. 

Hvernig getur kvikmyndahátíð verið sjálfbær?

Alþjóðlegur hátíðarbransi hefur þurft að líta í eigin barm síðustu ár. Stjórnendur viðburða á borð við stórar alþjóðlegar kvikmyndahátíðir, tónlistarhátíðir, bókmenntahátíðir og aðrar menningartengdar hátíðir, þurfa að axla ábyrgð og setja á sig „sjálfbærnigleraugun“ við val á hverri einustu ákvörðun. Margt smátt gerir eitt stórt og þar teljast góðu verkin einnig með.

Það er margsönnuð staðreynd að aukin inngilding hefur áhrif. Samfélagið allt á brautryðjendum á því sviði mikið að þakka. Fulltrúar jaðarhópa úr allskonar þjóðfélagshópum hafa fórnað sér áratug eftir áratug, til að lyfta sögum, segja frá og rjúfa þögn sem áður virtist órjúfanleg. Með hverri einustu kvikmyndaframleiðslu er tekin ákvörðun um hverra sögur skipta máli. Það er óhætt að fullyrða, að með því að neita ákveðnum þjóðfélagshópum alfarið um sýnileika í kvikmyndum verða til skaðleg samlegðaráhrif. Með því að velja og styðja við fjölbreyttar sögur má valdefla þá sem standa höllum fæti í samfélaginu og brjóta upp skaðlegar staðalmyndir.

Sjálfbærni og umhverfisvernd
Hvað eru aðrir að gera til að draga úr kolefnisspori?

Alþjóðlegar kvikmyndahátíðir hafa unnið að því að bæta kolefnisspor sitt og auka sjálfbærni með ýmsum aðgerðum. 

CPH:DOX

Alþjóðleg heimildamyndahátíð í Kaupmannahöfn, CPH:DOX, er leiðandi á Norðurlöndum á sviði grænna lausna í framleiðslu kvikmyndahátíða. Hátíðin er samstarfsaðili RIFF innan SMART7 netsins. CPH:DOX hefur með róttækum, fjölbreyttum og frumlegum aðgerðum sett á fót öfluga stefnu til að draga úr losun. Þar má nefna þátttöku í kolefnisjöfnunarverkefnum, sjálfbærar samgöngur fyrir bæði gesti og starfsfólk, stafræna sjálfbærnistefnu, umhverfisvæna sýningarstaði og áherslu á græna byrgja og samstarfsaðila. 

Cannes kvikmyndahátíðin

Kvikmyndahátíðin í Cannes hefur tekið upp umfangsmiklar aðgerðir til að draga úr umhverfisáhrifum. Hátíðin hefur minnkað notkun á pappír um 50% með því að færa útgáfur yfir á rafrænt form og skala niður prentupplag. Allri notkun á einnota plastumbúðum hefur verið hætt, og vatnsbrunnar settir upp í staðinn. Notkun á endurnýjanlegum orkugjöfum og rafmagnsbílum hefur verið aukin til muna, og gestir hvattir til að nýta almenningssamgöngur með sérstökum ferðapössum. Þá hefur hátíðin tekið upp „græna“ staðla fyrir veitingasölu, með áherslu á staðbundnar og árstíðabundnar vörur, ásamt því að bjóða upp á grænmetisfæði. 

Kvikmyndahátíðin í Feneyjum

Kvikmyndahátíðin í Feneyjum (La Biennale di Venezia) gefur sig út fyrir að vera kolefnishlutlaus. Áætlunin fól í sér orkuskipti yfir í raforku frá endurnýjanlegum orkugjöfum, auk endurvinnslu og endurnýtingu hráefna, og kolefnisjöfnun með kaupum á kolefniskvóta. Hátíðin gefur forgang að birgjum sem hafa umhverfisvottun, nota endurnýjanleg hráefni og sýna umhverfismeðvitund í verki. Hátíðin náði yfirlýstu markmiði sínu um kolefnishlutleysi árið 2021. 

Hvernig gera kvikmyndahátíðir samfélaginu gagn?

Alþjóðlegar kvikmyndahátíðir kunna að virðast óumhverfisvænar í eðli sínu. Rannsóknir hafa þó sýnt fram á að slíkar hátíðir skila jákvæðum áhrifum á efnahag og samfélagsvitund í þjóðfélögum sem miða að sjálfbærni og umhverfisvernd.

Menningarlegt gildi og varðveisla menningararfs: Kvikmyndahátíðir stuðla að varðveislu menningararfsins og fræðslu þar að lútandi. Þær bjóða upp á vettvang fyrir kvikmyndagerðarmenn að sýna verk sín og stuðla þannig að fjölbreytileika í kvikmyndagerð. Rannsóknir hafa sýnt fram á að kvikmyndahátíðir auka menningarvitund fólks og hafa jákvæð áhrif á samfélög sem hafa sjálfbærni og inngildingu að leiðarljósi.
Hagræn áhrif: Kvikmyndahátíðir skapa verulegar tekjur fyrir borgirnar sem halda þær, auk þess að skapa störf og stuðla að vexti í ferðaþjónustu og tengdum greinum. Hér má vísa til rannsóknar frá European Audiovisual Observatory (einnig hér), sem sýnir að fjárhagslegur ávinningur af kvikmyndahátíðum getur vegið upp á móti umhverfisáhrifum þeirra.
Virk umhverfisstefna: Fjölmargar kvikmyndahátíðir nýta vettvang sinn markvisst til að vekja athygli á umhverfismálum og stuðla að sjálfbærara samfélagi, með vali á kvikmyndum og jafnvel kvikmyndaflokkum sérhæfðum í sjálfbærni og umhverfismálum.

Sjálfbær skipulagning og framleiðsla á hátíð: Margar kvikmyndahátíðir hafa tekið upp sjálfbærar aðgerðir til að minnka kolefnissporið. Dæmin sýna að stórar hátíði

AÐGENGISSTEFNA RIFF

Aðgengisstefna Alþjóðlegrar kvikmyndahátíðar í Reykjavík – RIFF, miðar að því að tryggja að allir einstaklingar, óháð fötlun, geti tekið þátt í viðburðum og sýningum hátíðarinnar. Þetta felur í sér bætt aðgengi að byggingum og þeim viðburðum sem þar fara fram, auk þess að stuðla að inngildingu og gera viðeigandi ráðstafanir til að koma til móts við sem fjölbreyttastan hóp.

Innleiðing aðgengisstefnu RIFF fer fram í skrefum, hverra stærð og fjöldi tekur mið af stærð starfseminnar og fjármagni hverju sinni. Árið 2024 miðar hátíðin að því að tryggja fullt aðgengi fyrir alla hreyfihamlaða hátíðargesti og bæta aðgengi að upplýsingum með auðlesnu efni á vef og í hátíðarbækling. Markviss vinna með sérfræðingum og hagsmunasamtökum hófst 2024 og staða aðgengisfulltrúa hefur verið stofnuð.

Hátíðin miðar að því að halda áfram að þróa og bæta aðgengið, breikka þjónustuhópinn og vinna að stærra markmiði, að allir sem vilji geti notið sýninga á RIFF, óháð fötlun. Jafnframt, að sértæk úrræði á vegum hátíðarinnar mæti þeim hópum sem þess þurfa.

Lykilhugtök

Aðgengi: Að tryggja að þeir sem þurfa geti sótt sýningar og viðburði, þar með talið aðgengi að byggingum og viðburðinum sjálfum, og gera viðeigandi aðlögun.

Inngilding: Leitast við að fatlaðir einstaklingar geti tekið þátt í viðburðum eftir getu og áhuga, og taka þeirra sjónarmið inn í framkvæmd viðburða.

Viðeigandi aðlögun: Aðlaga aðstæður þannig að sem flestir geti tekið þátt, til dæmis með því að breyta umhverfi til að stuðla að inngildingu.

RIFF 2024   – Bætt aðgengi fyrir hreyfihamlaða gesti

Árið 2024 gerir RIFF ráðstafanir til að tryggja aðgengi fyrir notendur hjólastóla og einstaklinga með hreyfihamlanir. Þetta felur í sér:

 Að tryggja að hjólastólanotendur og fólk með hreyfihamlanir geti sótt sýningar og viðburði á þægilegan hátt og að gert sé ráð fyrir aðgengi á öllum viðburðum og sýningum RIFF. Sömuleiðis, að upplýsingagjöf og þjónusta sé í boði á öllum sýningum. 
 Stöðu aðgengisfulltrúa RIFF sem er tengiliður fyrir einstaklinga og hagsmunasamtök fatlaðra.
 Að veita aðstoðarfólki fatlaðra ókeypis aðgang að viðburðum.
 Fræðslu fyrir starfsmenn og sjálfboðaliða á vegum RIFF.

Árið 2024 mun RIFF framkvæma ráðstafanir sem mæta þörfum ákveðinna hópa með kynningarefni á auðlesnu máli. Þetta felur í sér:

Vefsvæði á vef hátíðarinnar riff.is þar sem upplýsingar um dagskrá og sérviðburði má finna á auðlesnu máli.
Framsetningu á aðgengisstefnu RIFF á auðlesnu máli á vefsvæði RIFF.

Þátttaka í UngRIFF

RIFF stuðlar að inngildingu og viðeigandi aðlögun fyrir fatlaða gesti barnakvikmyndahátíðarinnar UngRIFF. Hátíðin skuldbindur sig til að ræða við sérfræðinga og hagsmunasamtök fatlaðs fólks við þróunarvinnu og framkvæmd UngRIFF.

Fræðsla fyrir starfsfólk

RIFF mun bjóða upp á fræðslu fyrir starfsfólk og sjálfboðaliða um þarfir mismunandi hópa, sem veitt er af samtökum eins Sjálfsbjörg og Þroskahjálp. Aðgengisfulltrúi verður til taks til að endurskoða stefnuna reglulega. Hátíðin leitast við að ráða starfsfólk með fjölbreyttan bakgrunn og kanna möguleika á ráðningar og nýsköpunarstyrkjum í samstarfi við stofnanir eins og Vinnumálastofnun.

Framtíðaráætlanir – RIFF fyrir alla

RIFF skuldbindur sig til að sinna þróunar og hugmyndavinnu þar sem aðgengi skal aukið ár frá ári. RIFF hyggst þannig stöðugt bæta aðgengi að hátíðinni undir formerkjunum: RIFF fyrir alla. Þetta felur í sér áform um sérsýningar á komandi árum, til að bjóða upp á textun, tónmöskva og sérstakar sýningar fyrir einstaklinga á einhverfurófi eða með skynúrvinnsluvanda. Hátíðin stefnir að því að mæta þörfum heyrnarskertra áhorfenda með táknmálstúlkun, rittúlkun og öðrum úrræðum. RIFF óskar eftir samvinnu ríkis og sveitarfélaga og sjóða sem styðja við einstaklinga með sérþarfir, til þess að draumur um RIFF fyrir alla megi verða að veruleika.