Handhafar Gullna lundans 2005-2018

RIFF er fyrir löngu orðinn fastur liður í íslensku menningarlífi. Hvert einasta haust síðan 2004 hefur fólk frá öllum heimshornum flykkst til Reykjavíkur í bíó og notið þess ferskasta úr kvikmyndaheiminum hverju sinni. Hátíðinni lýkur með miklum fögnuði þegar verðlaun fyrir bestu kvikmyndir hátíðarinnar eru veitt. Gullni lundinn eru aðalverðlaun hátíðarinnar og sá sem hreppir hnossið hlýtur nafnbótina Uppgötvun ársins. Það var árið 2005 sem Gullni lundinn ar afhentur í fyrsta sinn.

Í tilefni þess að það styttist óðum í RIFF þá er gaman að skoða hverjir hafa hlotið þessi virtu verðlaun hingað til.

2005 til 2009

Cannes verðlaunahafi, 2007 og fyrsta RIFF hátíðin

Árið er 2005. Diesel mjaðmabuxur voru það allra heitasta og Batman Begins var nýkomin í bíó. Þetta var einnig fyrsta árið sem RIFF var haldin með því sniði sem við þekkjum í dag. Það árið var rúmenska myndin The Death of Mr. Lazarescueða Moartea domnului Lazarescueftir Cristi Puiu valin Uppgötvun ársins. Fyrir þá mynd hlaut Puiu Un Certain Regard verðlaunin á Cannes en þau eru veitt leikstjórum sem fara ótroðnar slóðir í kvikmyndagerð sinni.

Einu ári síðar, árið 2006, var kvikmyndin Grbavica eftir Jasmila Zbanic frá Bosníu og Hersegóvínu valin Uppgötvun ársins. Sú mynd tryggði Zbanic Gyllta Björninn á Berlinale hátíðinni auk þess að fá tilnefningu á Sundance kvikmyndahátíðinni.

Árið er 2007. Hvert einasta mannsbarn tengir líklega þetta ár við velmegun og kreppuna sem er handan við hornið. Við hjá RIFF hins vegar tengjum þetta ár við sigurmynd kvikmyndahátíðarinnar þetta árið en það var ungverska kvikmyndin Ferð Isku eftir Csaba Bollók sem kom, sá og sigraði. Sú mynd átti eftir að vinna til fimm verðlauna á alþjóðlegum kvikmyndahátíðum.

Árið 2008 vann kvikmynd Segey Dvortsevoy Tulpan Gullna lundann. Myndin hlaut þrjú verðlaun á Cannes hátíðinni það árið, meðal annars hin virtu Un Certain Regard verðlaun. Síðan þá virðist Segey hafa tekið sér frí frá kvikmyndagerð í tíu ár. Árið 2018 kom mynd hans Ayka út og fjallar hún um einstæða móður og baráttu hennar. Aðalleikkona Tulpan, Samal Yeslyamova, leikur einnig í Ayka.

Kanadíska kvikmyndin Ég drap móður mína eftir Xavier Dolan sigraði Gullna lundann árið 2009 og hefur síðan hlotið 28 viðurkenningar, meðal annars á Cannes. Dolan hefur nú snúið sér að leiklistinni og leikur meðal annars í framhaldinu af hryllingsmyndinni IT sem sló svo rækilega í gegn um heim allan hér um árið.

2010-2014

Óskarsverðlaun, Íslenskur sigur og ítölsk veisla

Ítalska kvikmyndin Fjögur skipti eða Le quattro Volte eftir Michelangelo Frammartino var valin uppgötvun ársins 2010 en sú mynd átti eftir að tryggja Frammartino 14 verðlaun meðal annars á Cannes og á CPH DOX.

Það var svo síðan árið 2011 sem íslensk kvikmynd hreppti hnossið í fyrsta sinn. Það var kvikmyndin Eldfjall eftir Rúnar Rúnarsson sem varð fyrir valinu það árið. Eldfjall hlaut einnig tilnefningar til The Golden Camera verðlaunanna á Cannes það árið. Síðan má segja að Rúnar hafi farið og sigrað kvikmyndaheiminn með kvikmyndum á borð við Þresti sem hlaut lof gagnrýnenda víða um heim.

2012 kom og fór en þó ekki án þess að RIFF kæmi rækilega við sögu. Hátíðin það árið var einstaklega vel heppnuð og hlaut kvikmynd Benh Zeitlin, Skepnur suðursins, Gullna lundann. Sú mynd var einnig tilnefnd til Óskarsverðlauna og BAFTA verðlaunanna, bæði fyrir handrit og leikstjórn og sem besta mynd.

Þá hlaut ítalska myndin Still Life eftir Uberto Pasolini, Gullna lundann árið 2013 en Pasolini er einnig einn af framleiðendum grínklassíkarinnar The Full Monty. Still Life átti eftir að fara sigurför um heiminn og kom, sá og sigraði nítján verðlaun.

Þá sigraði ítalska kvikmyndin Ég hætti þegar ég vil eða Smetto quando voglio eftir Sidney Sibilia verðlaunin árið 2014. Myndin hlaut meðal annars verðlaun sem besta grínmyndin á ítölsku Golden Globes verðlaunahátíðinni.

2015-2019

Tímatal og skærar stjörnur

Íranska kvikmyndin Miðvikudagurinn níundi maí hlaut verðlaunin árið 2015 en sú mynd vann meðal annars til verðlaun á kvikmyndahátíðinni í Feneyjum. Leikstjóri myndarinnar Vahid Jalilvand kemur frá Íran.

Þá sigraði búlgarska kvikmyndin Bezog eða Guðleysi í leikstjórn Ralitza Petrova árið 2016. Síðan hefur myndin hlotið 26 verðlaun, meðal annars á Locarno kvikmyndahátíðinni og þá hefur Irena Ivanova hlotið viðurkenningu fyrir besta leik í aðalhlutverki.

Bandaríska mynd Clohé Zaho The Rider hlaut verðlaunin árið 2017 og hefur síðan hlotið 40 tilnefningar og hlotið verðlaun í 24 skipti.

Það var svo franska kvikmyndin Knife+Heart eða Un couteau dans le coeur sem hlaut verðlaunin í fyrra en hún skartaði stjörnum á borð við Vanessu Paradis og Kate Moran. Myndinni var leikstýrt af Yann Gonzales. Knife + Heart var jafnframt tilnefnd til Cannes verðlaunanna sama ár. Myndin hefur alls hlotið fimm verðlaun og hefur verið tilnefnd í 20 skipti.

Nú er svo stóra spurningin hver hlýtur verðlaunin að þessu sinni. Við hér hjá RIFF býðum spennt eftir að tilkynnt verði hvaða kvikmyndir munu taka þátt í hátíðinni í ár. Um valið sér Dagskrárnefnd RIFF og eru nú þegar komnar yfir þúsund umsóknir.
Síðasti dagur til að senda inn kvikmynd er 7. júlí!