Hápunktur RIFF 2018: Það sem bar hæst

English version here.

Það er komið árið 2019 og ný RIFF hátíð er framundan. Það er oft þannig að Riffarar, kvikmyndaáhugafólk og almenningur almennt horfir gáttaður á dagatalið og skilur ekkert í því hvernig tíminn getur mögulega liðið svona hratt. Fólki líður nánast eins og síðasta RIFF hátíð hafi klárast í gær þegar byrjað er að selja miða á þá næstu.

Þá er oft gott að líta um farinn veg og minna sig á hvað hátíðin 2018 bar í skauti sér, svona til að undirbúa sig andlega og líkamlega fyrir þá snilld sem RIFF 2019 verður.

Það sem stóð upp úr að mati okkar sem lifum og hrærumst í RIFF heiminum var auðvitað hversu vel heppnuð hátíðin í fyrra var en ekki síst hversu frábæra gesti við fengum í heimsókn.

Kanónur og nýstirni sem skína skært

Frá sýningu Mekas í Ásmundarsal

 

Heiðursgestirnir í fyrra voru aldeilis ekki af verri endanum. Fyrst ber að nefna Jonas Mekas, guðfaðir framúrstefnukvikmyndagerðar. Sýndar voru nokkrar af hans helstu kvikmyndum. Auk þess var Mekas heiðraður með sýningu í Ásmundarsal en jafnframt var þetta fyrsta einkasýning hans á Íslandi.

Á sýningunni mátti sjá augnablik úr ævisögur Mekasar. Augnablikin voru sýnd á þremur skjám og tekin úr þremur stuttmyndasöfnum Mekasar; My First 40 (2006), 365 Day Project (2007) og Online Diary (2008-2015).  Með því að sýna þessar þrjár stuttmyndir saman hverfast þær um hvor aðra og mynda að lokum þrjár kvikmyndir í fullri lengd þar sem augnablik úr lífi kvikmyndagerðarmannsins, hversdagsleg og einstök, fá að njóta sín.

Mads Mikkelsen er Íslendingum vel kunnur enda frábær listamaður með magnaðan feril að baki. Mads fékk viðurkenningu fyrir framúrskarandi feril sinn. Sýndar voru myndirnar The Salvation, Men & Chicken og Kongelig Affære. 

Mad Mikkelsen sést hér í hlutverki sínu sem læknirinn Johann Friedrich Struensee í kvikmyndinni En Kongelig Affære en myndin var ein þeirra mynda sem sýnd var á hátíðinni.

 

Shailene Woodley var einn heiðursgesta hátíðarinnar í fyrra og sat einnig í dómnefnd hátíðarinnar. Hún er þekktust fyrir hlutverk sitt í þáttunum Big, Little Lies en fyrstu tveir þættirnir voru einmitt sýndir á hátíðinni í tilefni af komu hennar til landsins. Þá voru einnig sýndar kvikmyndirnar The Descendants og Adrift en Baltasar Kormákur leikstýrði þeirri mynd. Verk Woodley hafa farið sigurför um heiminn og hefur hún í kjölfarið hlotið verðskuldaða athygli. Það var okkur mikill heiður að Shailene skildi leggja nafn sitt við hátíðina og sitja í dómnefnd.

Opnunarmynd RIFF 2018 var mynd heiðursgestsins og leikstjórans Sergei Loznitsa, Donbass. Myndin er ferðalag í gegnum hið stríðshrjáða Donbass hérað í Úkraínu. Kvikmyndin þykir vera einstakt meistaraverk og hlaut hún meðal annars verðlaun á Cannes hátíðinni nokkrum mánuðum áður. Þá var Sergei Loznitsa einnig með svokallað meistaraspjall á dagskránni þar sem hann jós úr viskubrunni sínum og sagði meðal annars frá gerð myndarinnar og ferli sínum.

Þær myndir sem sköruðu fram úr

Knife + Heart eftir Yann Gonzalez hlaut Gullna lundann á hátíðinni 2018.

 

Varla er hægt að líta yfir farinn veg án þess að minnast þeirra kvikmynda sem þóttu skara fram úr á hátíðinni og hlut þau verðlaun sem í boði eru ár hvert.

Gullna lundann, aðalverðlaun hátíðarinnar hlaut kvikmyndin Knife + Heart eftir Yann Gonzalez. Gullna eggið, sem kemur í hlut bestu stuttmyndarinnar sem tekur þátt í Kvikmyndasmiðju RIFF (Talent lab), hlaut mynd Nathalia Konchalov­sky, Vesna. Besta erlenda stuttmyndin var Gulyabani eftir Gürcan Keltek og besta íslenska stuttmyndin var Jörmundur eftir Maddie O´Hara, Jack Bus­hell & Alex Herz. Í flokknum Önnur framtíð bar mynd Erick Stol log Chase Whiteside, América, sigur úr bítum. Sérstök dómnefndarverðlaun fóru svo til myndanna Styx eftir Wolfgang Fischer og Black Line eftir þau Mark Ol­exa & Francesca Scal­isi

Einstakir viðburðir

Sundbíóið var ógleymanlegt í fyrra og var í anda kvikmyndarinnar The Fifth Element sem sýnd var gestum og sundgörpum í innilaug Sunhallarinnar.

 

Sá viðburður sem RIFF hátíðin er einna helst þekkt fyrir er vitaskuld sundbíóið en þar var sýnd klassíkin The Fifth Element. Sundbíóið var vel sótt enda ekki skrítið þar sem það hlýtur að teljast magnað að sjá kvikmynd sem þessa í svona undarlegum og framúrstefnulegum húsakynnum. Ekki á hverjum degi sem gestum gefst tækifæri á að sjá mynd í sundi. Andrúmsloftið á sýningunni var í anda myndarinnar og heilmikið var lagt upp úr hinu sjónræna.

Tímagöngin til ársins 1918 var sýndarveruleikasýning gaf gestum tækifæri á að skyggnast inn í fortíðina; inn í veruleika Íslendinga á fyrri hluta 20.aldar. Gestum bauðst að horfa á sýninguna í gegnum sýndarveruleikagleraugu en það var Árni Gunnarsson, kvikmyndagerðarmaður hjá Skotta film vann að sýningunni.

Þá var Reykjavík Kabarett einnig hluti af hátíðinni og sýndi listir sínar á Stúdentakjallaranum áður en að mynd fór í sýningu.

Eins og sjá má er RIFF ekki einungis mögnuð Kvikmyndahátíð; RIFF er upplifun, RIFF er skóli, RIFF er samfélag þar sem listaverk, listamenn og aðdáendur kvikmynda geta komið saman og umvafið sig skapandi andrúmslofti og ferskum hugmyndum.