Upplifunarbíó í Sundhöllinni á RIFF 2021

Sundbíó hefur svo sannarlega fest sig í sessi sem einn af sérviðburðum RIFF og í ár verður engin breyting þar á. Föstudagskvöldið 1. október kl. 19:30 verður hægt að hreiðra um sig í lauginni og horfa á költ klassíkina “The Life Aquatic with Steve Zissou – Á sjó með Steve Zissou. Eins og undanfarin ár verður mikið lagt í upplifunina og gestir mega búast við óvæntum uppákomum. Myndin á vel við þar sem hún gerist að mestu á vatni eða neðansjávar og allir ættu að yfirgefa Sundhöllina með bros á vör!

The Life Aquatic With Steve Zissou 1. október í Sundhöll Reykjavíkur kl 19:30

“The Life Aquatic with Steve Zissou” er eftir listræna leikstjórann Wes Anderson. Myndin er stútfull af stórleikurum og fer þar Bill Murray fremstur í flokki ásamt Owen Wilson, Cate Blanchett, Willem Dafoe, Jeff Goldblum og Anjelica Huston svo nokkur nöfn séu nefnd.

Grínið er í hávegum haft, en einnig er hvert skot útpælt og litasamsetningin mikilvæg eins og leikstjórinn er þekktur fyrir. Sagan fjallar um sjávarkönnuðinn Steve Zissou sem er að vinna að nýrri heimildarmynd en félagi hans deyr í óvenjulegu hákarlaslysi. Steve og áhöfnin hans fara í leiðangur til að finna hákarlinn og lenda í ýmsum ævintýrum á leiðinni.

Áhersla hjá RIFF í ár er á tónlist, en “The Life Aquatic with Steve Zissou” er einna helst þekkt fyrir tónlistina sem hljómar í myndinni. Brasilíski söngvarinn Seu Jorge syngur ábreiður af David Bowie lögum út myndina, ásamt því að Sigur Rós á lag í einu af lykilatriðum myndarinnar.

Takmarkaður fjöldi miða verður í boði þannig að gott er að tryggja sér miða sem fyrst hér.

Facebook
Twitter
LinkedIn
Email