Verið velkomin í bíó -miðasala á RIFF er hafin

Alþjóðleg kvikmyndahátíð í Reykjavík, RIFF, hefst í næstu viku, fimmtudaginn 24. september nk. með frumsýningu á Þriðji Póllinn eftir Anní Ólafsdóttur og Andra Snæ Magnason og lýkur þann 4. október með frumsýningu á Á móti straumnum, eftir Óskar Pál Sveinsson.

RIFF hátíðin er nú haldin í sautjánda sinn og úrvalið af myndum hefur sjaldan verið jafn fjölbreytt. Hinn þekkti dagskrárstjóri Frédéric Boyer hefur sett sitt mark á dagskrána og m.a. skapað nýjan flokk er kallast Innsýn í huga listamanns. Myndir í þeim flokki tengja kvikmyndalistina þvert á aðrar listgreinar.

Í ár verður hátíðin með nokkuð öðruvísi hætti en áður. Kvikmyndaunnendur um land, allt frá Akranesi til Raufarhafnar, munu geta notið gæða kvikmynda heima í stofu með sýningum á netinu.Allra bestu myndirnar verða sýndar í Bíó Paradís og Norræna Húsinu, Athugið að takmarkað sætaframboð er í boði. Hægt verður að kaupa alla miða í gegnum www.riff.is

Á dagskrá eru glænýjar myndir sem koma margar hverjar beint frá stóru kvikmyndahátíðunum m.a í Cannes, Feneyjum, San Sebastian og Locarno. Um er að ræða gæðamyndir af ýmsu tagi eftir virta leikstjóra og með heimsfrægum leikurum á borð við Frances McDormand, Mads Mikkelsen, Björk og Dylan Gelula.

Myndirnar fjalla um allt milli himins og jarðar, allt frá örlagaríkri sögustund í alræmdu fangelsi á Fílabeinsströndinni, sirkuslist, geðhvörfum og grátbroslegri leit að ást til skuggahliða samfélagsmiðla og ólögmæts skógarhöggs. Myndirnar á RIFF vekja forvitni hjá áhorfandanum sem hvetur hann til að taka stökkið og sjá myndir bæði innan og utan síns áhugasviðs.

Á meðal kvikmyndaperla á RIFF má nefna Einn til/Another Round, nýjustu mynd Thomas Vinterberg með Mads Mikkelsen í aðalhlutverki, Nomadland/Hirðingjaland í leikstjórn Chloe Zhao, sem hlaut Gullna Ljónið, aðal-verðlaun kvik¬mynda¬hátíðar¬inn¬ar í Fen¬eyj¬um, 200 metres/200 Metrar í leikstjórn Ameen Nayfeh, sem hlaut áhorfendaverðlaunin í Feneyjum og Ég er Gréta/I am a Greta í leikstjórn Nathan Grossman, sem var frumsýnd nýverið á Kvikmyndahátíðinni í Feneyjum.

Á RIFF hátíðinni verða 110 myndir sýndar, 61 mynd í fullri lengd og 49 stuttmyndir. Þá verður byggð brú yfir til EFA verðlaunanna í desember með sérstökum bíóhelgum í október og nóvember. Helgarnar verða tileinkaðar hryllingsmyndum, áhugaverðum heimildamyndum um listamenn og íslenskum myndum sem tilnefndar hafa verið til EFA verðlaunanna. Fjöldi Norðurlandafrumsýningar eru á dagskrá auk Evrópu- og heimsfrumsýninga. Í ár eru 55 % kvikmyndagerðarfólks konur og 45% karla. Í flokki Vitrana eru 3 af 8 leikstjórum kvenkyns, í flokknum fyrir Opnu hafi eru 5 leikstjórar af 9 kvenkyns og í flokknum Önnur framtíð eru 12 leikstjórar, jafn margir af hvoru kyni.

Á hátíðinni verða sýndar myndir frá 47 löndum. Íslandi, Palestínu, Jórdaníu, Katar, Ítalíu, Svíþjóð, Hollandi, Spáni, Argentínu, Mexíkó, Bretlandi, Frakklandi, Kanada, Senegal, Bandaríkjunum, Lesótó, Danmörku, Búlgaríu, Noregi, Ísrael, Póllandi, Suður-Afríku, Úkraínu, Litháen, Austurríki, Rúmeníu, Þýskalandi, Taívan, Ástralíu, Finnlandi, Tyrklandi, Suður-Kóreu, Rússlandi, Grænlandi, Lúxemborg, Egyptalandi, Grikklandi, Kólumbíu, Perú, Portúgal, Tékklandi, Slóvakíu, Eistlandi, Japan, Ungverjalandi, Nýja-Sjálandi og Möltu.

Á dagskránni er að finna fjölda íslenska mynda allt frá stuttmyndum til heimilda- og bíómynda. Frumsýndar verða Þriðji Póllinn í leikstjórn Anní Ólafsdóttur og Andra Snæs Magnasonar, Sirkusstjórinn í leikstjórn Helga Felixssonar og Titti Johansen í samstarfi við Listahátíð í Reykjavík, Á móti straumnum, í leikstjórn Óskars Páls Sveinssonar, Hatrið, í leikstjórn Önnu Hildar Hildibrandsdóttur, Húsmæðraskólinn, í leikstjórn Stefaníu Thors og Skuggahverfið, í leikstjórn Jóns Gústafssonar.

Sérviðburðir á RIFF verða á sínum stað. Tvær spennandi nýjungar verða í boði í ár Bílabíó RIFF og Bíóbíll RIFF.

Bílabíó RIFF með bíósýningar á risaskjá á Granda dagana 25-28 september með fjórum spennandi sýningum – stórmyndin Hárið/Hair – Ég er Gréta/I am Greta – Sputnik- Hunskastu út/Get The Hell Out. Bíóbíll RIFF fer af stað í dag, fimmtudaginn 17. september. Börnum um land allt verður boðin sérstök stuttmyndadagskrá, seinnipart verða sýndar verðlaunaðar, evpróskar stuttmyndir og á kvöldin verður bíóbíllinn notaður til að sýna stórmyndina Dancer in the Dark. Ekki misa af bíóbílnum í þínum bæ! Að vanda verða glæsilegir Bransadagar haldnir. Viðamikil dagskrá fer fram bæði í Norræna Húsinu og á netinu. Kynnt verða íslensk verk í vinnslu og pallborðsumræður verða m.a. um konur í sjónvarpi og kvikmyndagerð. Lögð verður áhersla á íslenska kvikmyndagerð.

Vönduð dagskrá verður í boði fyrir börn á öllum aldri í samstarfi við List fyrir Alla. Grunnskólakennurum býðst að fá sent sérstakt kynningarefni með myndunum.

Miðasala hefst í dag á www.riff.is og er takmarkaður fjöldi sæta í boði. Stakur bíómiði í Bíó Paradís og Norræna Húsið kostar 1.690 kr. Hver sýning á netinu kostar 1.190 kr. myndin og verður hægt að kaupa myndir saman í pakka á lægra verði.

Samstarfsaðilar RIFF eru RÚV, Creative Europe –Media og Reykjavíkurborg auk fjölda annara samstarfsaðila og kunnum við þeim bestu þakkir fyrir.

Share on facebook
Facebook
Share on twitter
Twitter
Share on linkedin
LinkedIn
Share on email
Email

SIGN-UP FOR OUR NEWSLETTER