Íslandsfrumsýning á Vetrarbræðrum

Það er RIFF sönn ánægja að tilkynna opnunarmynd hátíðarinnar; Winter Brothers / Vetrarbræður / Vinterbrødre eftir Hlyn Pálmason en um Íslandsfrumsýningu á myndinni er að ræða

Vetrarbræður segir frá tveimur bræðrum sem búa í einangraðri verkamannabyggð. Yngri bróðirinn lendir í ofbeldisfullum deilum við vinnufélaga sína þegar heimabrugg hans er talið ástæða þess að maður liggur við dauðans dyr. Stigmagnandi útskúfun hans í framhaldi þess reynir á samstöðu bræðranna en þegar eldri bróðirinn virðist hafa unnið ástir draumastúlku þess yngri fer óhefluð atburðarás af stað. Vetrarbræður er saga um skort á ást og löngun eftir því að vera elskaður og þráður.

Hlynur Pálmason er íslenskur listamaður og kvikmyndagerðarmaður fæddur 1984. Hann hóf feril sinn sem sjónlistamaður áður en hann hann hóf nám í kvikmyndaskólanum í Danmörku. Útskriftarmynd hans, A Painter (2013) fékk verðlaun sem besta stuttmyndin á alþjóðlegri kvikmyndahátíð í Óðinsvéum og á RIFF. Hún var einnig tilnefnd til verðlauna dönsku kvikmyndaakademíunnar. Fyrsta mynd hans í fullri lengd, Winter Brothers, var frumsýnd í aðalkeppninni í Locarno á þessu ári og vann þar fern verðlaun. Hlynur býr í Kaupmannahöfn og vinnur sem stendur að sinni næstu mynd í fullri lengd, en sú verður íslensk og ber titilinn Hvítur, hvítur dagur.

Vetrarbræður á Facebook.
Hvítur, hvítur dagur á Facebook.