Jim Jarmusch opnar Cannes hátíðina í ár

Fyrrum heiðursgestur RIFF árið 2010, kvikmyndagerðarmaðurinn Jim Jarmusch fer mikinn þessa stundina innan hins alþjóðlega kvikmyndaheims. Kvikmynd hans The Dead Don’t Die verður opnunarmynd Cannes hátíðarinnar í ár og mun í kjölfarið keppa um hin virtu Gullpálma verðlaun og mun hún skarta skærum stjörnum úr Hollywood en meðal þeirra eru Bill Murray, Clohë Sevigny og Adam Driver.

Hér segir Jarmusch sögu lítils bæjar, Centerville, sem lendir í því óheppilega atviki að hinir dauðu deyja ekki. Um er því að ræða eins konar uppvakningamynd þar sem húmorinn er aldrei langt undan. Kvikmyndin virðist vera í anda fyrri mynda Jarmusch sem með húmor og áhugaverðum persónum leikur sér með kvikmyndaformið.

Áður hefur Jarmusch unnið til verðlauna á Cannes fyrir stuttmynd sína Coffee and Cigarettes: Somewhere in California árið 1993 og síðar fyrir kvikmyndina Broken Flowers árið 2005 en fyrir hana hlaut hann önnur virtustu verðlaun hátíðarinnar, svokölluð Grand Prix verðlaunin.

Hér að neðan má sjá brot úr myndinni The Dead Dont’ Die.