Kvikmyndatónleikar: RIFF og Sinfonia Nord í samstarf

Ný tíðindi berast daglega hér úr RIFF búðum! Nú er svo komið að RIFF og Sinfóníuhljómsveit Norðurlands hafa ákveðið að leiða saman hesta sína og standa að kvikmyndatónleikum í Hörpu þann 29. september, á meðan á RIFF stendur.

Sýnd verður kvikmyndin Lói, þú flýgur aldrei einn með lifandi flutningi Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands á kvikmyndatónlist Atla Örvarssonar.

Lói, þú flýgur aldrei einn fór sigurför um Ísland og þótti sýna vel þá þrautsegju og hæfileika sem íslenskir listamenn búa yfir, sér í lagi þegar þeir vinna saman. Útkoman er vægast sagt mögnuð og við hlökkum mikið til að standa að þessum viðburði með Sinfóníuhljómsveit Norðurlands. Um sextíu manna hljómsveit kom að upphaflega verkefninu og búist er við öðru eins í Hörpu í haust.

Íslendingar ættu að vera orðnir vel kunnugir viðburðum sem þessum þar sem áhorfendum er boðið upp á að horfa á tiltekna kvikmynd og hlusta á kvikmyndatónlistina í lifandi flutningi hljómsveitarinnar. Sinfóníuhljómsveit Norðurlands hefur undanfarið sérhæft sig í viðburðum sem þessum. Hljómsveitin hefur aðsetur að Hofi á Akureyri og býr þar yfir mjög góðri aðstöðu til að taka upp og spila kvikmyndatónlist.

Miðasala er hafin!