RIFF á frumsýningu Hlyns Pálmasonar í Cannes

Hrönn Marinósdóttir, stjórnandi RIFF er stödd á kvikmyndahátíðinni í Cannes ásamt aðaldagskrárstjóra RIFF og listrænum stjórnanda Venice Days Film Festival, Giorgio Gosetti. Þar munu þau meðal annars vera viðstödd frumsýningu á nýrri mynd Hlyns Pálmasonar  Hvítur, hvítur dagur en fyrir þá mynd er Hlynur tilnefndur til hinna virtu Critics’ Week Grand verðlaunanna. Áður hafði Hlynur frumsýnt myndina Vetrarbræður á RIFF 2017 en fyrir það hafði unnið að stuttmyndum og vann meðal annars verðlaun á RIFF fyrir stuttmynd sína En Maler, (A Painter) á RIFF 2013.

Nýjust fregnir herma að rétturinn að Hvítum, hvítum degi hafi nýverið verið seldur til Frakklands og Ástralíu. Þetta kemur fram í grein Variety en það blað kemur daglega út í Cannes á meðan á hátíðinni stendur.

Mikið er fjallað um framlag Hlyns á hátíðinni í ár og við munum fylgjast spennt með framhaldinu.

Eins og gefur að skilja þá skiptir það  miklu máli fyrir stjórnendur kvikmyndahátíða að fara á Cannes. Þar gefst fólki tækifæri á að sýna sig og sjá aðra, auka tengslanetið og sjá það ferskasta sem kvikmyndaheimurinn býður upp á hverju sinni. Hver veit nema eitt meistaraverkið sem frumsýnt verður á hátíðinni í ár verði sýnt á RIFF í haust.