RIFF hátíðin er hafin!

RIFF hátíðin hófst með frumsýningu á bíómynd Elfars Aðalsteins, End of Sentence. Mikið af kvikmyndateymi Elfars var á sýningunni, meðal annars Hollywood leikarinn John Hawkes sem leikur eitt aðalhlutverkanna. Troðfullt var í bæði sal 1 og sal 2 á frumsýningu og kunnu áhorfendur vel að meta þessa mynd sem þegar hefur fengið afbragðs dóma í alþjóðlegum fjölmiðlum.

Sýningar fara að mestu fram í Bíó Paradís en einnig verða nokkrar sérsýningar í Norræna húsinu, Sundhöll Reykjavíkur og Loft hostel til dæmis. Auk þess verður kvikmyndadagskrá RIFF út um alla borg, meðal annars á bókasöfnum, í félagsheimilum, fangelsum og á hjúkrunarheimilum – undir nafninu RIFF Around Town. Mínútumyndir og stuttmyndirnar „Shorts Matter!“ frá evrópsku kvikmyndaverðlaununum verða sýndar í félagsheimilum og á bókasöfnum borgarinnar. Heimildarmyndin Advocate (Lögmaður) verður sýnd í fangelsunum Litla Hrauni og Hólmsheiði. Síðasta Haustið eftir Yrsu Roca Fannberg verður sýnd dvalargestum á hjúkrunarheimilum Grund og Mörkinni.

Meðal mynda sem sýndar verða eru The Lighthouse sem sló í gegn á Cannes hátíðinni í vor, en þær þrjár myndir sem vöktu mesta athygli á þeirri hátíð verða allar sýndar á RIFF, hinar tvær voru Parasite og The Dead don´t die eftir Jim Jarmusch.

Á RIFF hátíðinni verða 147 myndir sýndar. Þar af 42 bíómyndir, 24 heimildarmyndir og 81 stuttmynd.

Á RIFF verða 18 Norðurlandafrumsýningar og 12 heimsfrumsýningar. Fjöldinn allur af stuttmyndum munu hafa heimsfrumsýningu á hátíðinni. Á annað hundrað erlendir gestir úr kvikmyndaheiminum eru væntanlegir til að kynna verk sín eða taka þátt í íslenskum Bransadögum og Talent Lab smiðjunni sem haldin er samhliða.

Á hátíðinni verða sýndar myndir frá 48 löndum. Íslandi, Suður-Kóreu, Gvatemala, Belgíu, Frakklandi, Danmörku, Þýskalandi, Lúxemborg, Afganistan, Katar, Ítalíu, Argentínu, Bandaríkjunum, Rúmeníu, Serbíu, Alsír, Búlgaríu, Grikklandi, Finnlandi, Kína, Svíþjóð, Noregi, Norður-Makedóníu, Slóveníu, Króatíu, Hollandi, Bretlandi, Túnis, Sviss, Kanada, Póllandi, Austurríki, Sýrlandi, Líbanon, Ísrael, Grænlandi, Írlandi, Færeyjum, Portúgal, Tyrklandi, Brasilíu, Perú, Ungverjalandi, Indlandi, Ástralíu, Gerogíu, Lettlandi og Úkraínu.