RIFF verður borgarhátíð

Alþjóðlega kvikmyndahátíðin í Reykjavík, RIFF, hlaut viðurkenninguna Borgarhátíð Reykjavíkur 2020 – 2022 og mun því hljóta 10 milljónir frá Reykjavíkurborg árlega næstu þrjú árin. Þetta var samþykkt á 25. fundi Menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs sem haldinn var 21. október síðastliðinn.

 

Í greinargerð faghóps um borgarhátíðir sem lagt var fyrir fundinn segir:

RIFF – 10 milljónir. Reykjavík International Film Festival eða RIFF hefur skapað sér nafn langt út fyrir landsteinana og hefur tekist að þróa afar verðmæt tengsl við lykilaðila innan kvikmyndageirans erlendis, sem sést best á þeim kvikmyndum og erlendum gestum hátíðin nær til landsins.

Eftir umræður á fundinum var lögð fram eftirfarandi tillaga til samþykktar Borgarráðs:

Lagt er til að sex hátíðir í Reykjavík hljóti viðurkenninguna Borgarhátíð Reykjavíkur 2020-2022. Þær eru: Hinsegin dagar – Reykjavík Pride, Hönnunarmars, Iceland Airwaves, RIFF – Alþjóðleg kvikmyndahátíð í Reykjavík, Myrkir músíkdagar og Reykjavík Dance Festival. Gerður verði samstarfssamningur til þriggja ára sem felur í sér markmið um starfsemi, þróun og rekstur með tilskyldum fyrirvörum um samþykkt fjárhagsáætlunar hverju sinni. Framlög til hátíðanna nemi samtals 50 m.kr. á ári og skiptist með eftirfarandi hætti: Hinsegin dagar – Reykjavík Pride 10 m.kr., Hönnunarmars 10 m.kr. Iceland Airwaves 10 m.kr., RIFF – Alþjóðleg kvikmyndahátíð í Reykjavík 10 m.kr., Myrkir músíkdagar 5 m.kr. og Reykjavík Dance Festival 5 m.kr.  Framlögin verði fjármögnuð af kostnaðarstað 03113 styrkir og rekstrarsamningar. Einnig verði trúnaður um setu í faghóp um borgarhátíðir 2020-2022 framlengdur þar til úthlutun styrkja úr borgarsjóði á sviði menningarmála verður gerð opinber í janúar 2020.