Sérsýning: Union of the North

Nýstárlega kvikmyndin Union of the North eftir Matthew Barney, Ernu Ómarsdóttur og Valdimar Jóhannsson verður á meðal sérviðburða RIFF í ár. Myndin er hluti af FÓRN – listahátíð Íslenska dansflokksins sem frumsýnd var í mars síðastliðinn. Verkið FÓRN hefur ferðast víða utan landsteinanna síðustu mánuði og hlökkum við mikið til að bjóða upp á þessa sérsýningu á Union of the North í Listasafni Reykjavíkur – Hafnarhúsi föstudaginn 29.september kl 15.45.

Nánar um Union of the north
Lífseigasta hugmynd í heimi er hugmyndin um föður, móður og barn. Öll trúarbrögð fjalla um slíka sameiningu og ljá henni goðsögulega vídd með því að túlka hana sem samruna himins og jarðar. Eina mögnuðustu útgáfu slíkrar sköpunarsögu má finna í grískri goðafræði; sögnina um Úranus og Satúrnus sem voru foreldrar 12 fyrstu guða Grikkja. Í goðsagnaheimi Súmera var það aftur á móti gyðjan Nammu, hið endalausa haf, sem ól af sér himinn og jörð, fyrstu guðina og mannkyn allt. Í verkinu Union of the North stendur hún fyrir innan afgreiðsluborðið á Dunkin’ Donuts eftir lokun og útbýr gylltan kleinuhring á meðan verið er að gæsa og steggja karl og konu annars staðar í verslunarmiðstöðinni. Hér er venjulegt, vinnandi fólk í mynd; fylgjendur fornra helgisiða sem snúið er á hvolf í þessari nýstárlegu og spennandi kvikmynd, byggðri á handriti og sýn Matthew Barney, Ernu Ómarsdóttur og Valdimars Jóhannssonar.