Síðasta haustið frumsýnt

Það húmar að hausti þar sem vegurinn endar að Krossnesi í Árneshreppi. Þar er sveitabær Úlfars og eiginkonu hans og fjölskyldan kemur til þeirra til að aðstoða við smölun. Barnabörnin koma úr borginni til að taka þátt en hjónin hafa ákveðið að bregða búi svo þetta er síðasta haustið sem þau smala. Hér er á ferðinni einstök innsýn inn í samband mannsins við náttúruna og dýrin. Í þessari heimildarmynd verðum við vitni að umbreytingu sem kallast á við söguna og alla bændurna sem standa í sömu sporum í fortíð og framtíð.

Myndin verður frumsýnd á mánudaginn, 30. september, klukkan 19:00 í Bíó Paradís. Eftir sýninguna mun leikstjóri myndarinnar Yrsa Roca Fannberg og framleiðandinn Hanna Björk Valdsóttir fjalla um myndina og svara spurningum úr sal.

Myndin verður sýnd aftur þann 06. október í Bíó Paradís, klukkan 17:15 og aftur mun leikstjórinn og framleiðandinn sitja fyrir svörum.