Sjálfbærnistefna RIFF

Í svokallaðri Brundtland-skýrslu Sameinuðu þjóðanna frá árinu 1987, er sjálfbær þróun skilgreind sem „þróun sem mætir þörfum samtímans án þess að draga úr möguleikum komandi kynslóða til þess að mæta þörfum sínum.“

Hvernig tengist kvikmyndaiðnaðurinn sjálfbærni?

Á síðustu árum og áratugum hefur orðið bylting í kvikmyndaiðnaði og kvikmyndatengdum iðnaði hvað varðar sjálfbærniáherslur.  Ábyrgð kvikmyndaiðnaðarins er fjölþætt og snertir fleira en hið áþreifanlega umhverfi og grænar áherslur. Stórum og alþjóðlegum kvikmyndaframleiðslum getur vissulega fylgt gríðarþungt kolefnisspor ef ekki er vel að gætt.

Hagræn og menningarleg áhrif kvikmynda má þó ekki vanmeta. Mikil umræða hefur átt sér stað um samfélagslega ábyrgð á öllum stigum kvikmyndaframleiðslu, allt frá handriti og leikaravali til vals á tökustað og síðustu handtaka fyrir frumsýningu. 

Hvernig getur kvikmyndahátíð verið sjálfbær?

Alþjóðlegur hátíðarbransi hefur þurft að líta í eigin barm síðustu ár. Stjórnendur viðburða á borð við stórar alþjóðlegar kvikmyndahátíðir, tónlistarhátíðir, bókmenntahátíðir og aðrar menningartengdar hátíðir, þurfa að axla ábyrgð og setja á sig „sjálfbærnigleraugun“ við val á hverri einustu ákvörðun. Margt smátt gerir eitt stórt og þar teljast góðu verkin einnig með. 

Með fjölda lítilla breytinga má leiða stóra byltingu.

Það er margsönnuð staðreynd að aukin inngilding hefur áhrif. Samfélagið allt á brautryðjendum á því sviði mikið að þakka. Fulltrúar jaðarhópa úr allskonar þjóðfélagshópum hafa fórnað sér áratug eftir áratug, til að lyfta sögum, segja frá og rjúfa þögn sem áður virtist órjúfanleg. Með hverri einustu kvikmyndaframleiðslu er tekin ákvörðun um hverra sögur skipta máli. Það er óhætt að fullyrða, að með því að neita ákveðnum þjóðfélagshópum alfarið um sýnileika í kvikmyndum verða til skaðleg samlegðaráhrif. Með því að velja og styðja við fjölbreyttar sögur má valdefla þá sem standa höllum fæti í samfélaginu og brjóta upp skaðlegar staðalmyndir.

Sjálfbærni og umhverfisvernd

Hvað eru aðrir að gera til að draga úr kolefnisspori?

Alþjóðlegar kvikmyndahátíðir hafa unnið að því að bæta kolefnisspor sitt og auka sjálfbærni með ýmsum aðgerðum. 

CPH:DOX

Alþjóðleg heimildamyndahátíð í Kaupmannahöfn, CPH:DOX, er leiðandi á Norðurlöndum á sviði grænna lausna í framleiðslu kvikmyndahátíða. Hátíðin er samstarfsaðili RIFF innan SMART7 netsins. CPH:DOX hefur með róttækum, fjölbreyttum og frumlegum aðgerðum sett á fót öfluga stefnu til að draga úr losun. Þar má nefna þátttöku í kolefnisjöfnunarverkefnum, sjálfbærar samgöngur fyrir bæði gesti og starfsfólk, stafræna sjálfbærnistefnu, umhverfisvæna sýningarstaði og áherslu á græna byrgja og samstarfsaðila. 

Cannes kvikmyndahátíðin

Kvikmyndahátíðin í Cannes hefur tekið upp umfangsmiklar aðgerðir til að draga úr umhverfisáhrifum. Hátíðin hefur minnkað notkun á pappír um 50% með því að færa útgáfur yfir á rafrænt form og skala niður prentupplag. Allri notkun á einnota plastumbúðum hefur verið hætt, og vatnsbrunnar settir upp í staðinn. Notkun á endurnýjanlegum orkugjöfum og rafmagnsbílum hefur verið aukin til muna, og gestir hvattir til að nýta almenningssamgöngur með sérstökum ferðapössum. Þá hefur hátíðin tekið upp „græna“ staðla fyrir veitingasölu, með áherslu á staðbundnar og árstíðabundnar vörur, ásamt því að bjóða upp á grænmetisfæði. 

Kvikmyndahátíðin í Feneyjum

Kvikmyndahátíðin í Feneyjum (La Biennale di Venezia) gefur sig út fyrir að vera kolefnishlutlaus. Áætlunin fól í sér orkuskipti yfir í raforku frá endurnýjanlegum orkugjöfum, auk endurvinnslu og endurnýtingu hráefna, og kolefnisjöfnun með kaupum á kolefniskvóta. Hátíðin gefur forgang að birgjum sem hafa umhverfisvottun, nota endurnýjanleg hráefni og sýna umhverfismeðvitund í verki. Hátíðin náði yfirlýstu markmiði sínu um kolefnishlutleysi árið 2021. 

Hvernig gera kvikmyndahátíðir samfélaginu gagn?

Alþjóðlegar kvikmyndahátíðir kunna að virðast óumhverfisvænar í eðli sínu. Rannsóknir hafa þó sýnt fram á að slíkar hátíðir skila jákvæðum áhrifum á efnahag og samfélagsvitund í þjóðfélögum sem miða að sjálfbærni og umhverfisvernd.

 1. Menningarlegt gildi og varðveisla menningararfs: Kvikmyndahátíðir stuðla að varðveislu menningararfsins og fræðslu þar að lútandi. Þær bjóða upp á vettvang fyrir kvikmyndagerðarmenn að sýna verk sín og stuðla þannig að fjölbreytileika í kvikmyndagerð. Rannsóknir hafa sýnt fram á að kvikmyndahátíðir auka menningarvitund fólks og hafa jákvæð áhrif á samfélög sem hafa sjálfbærni og inngildingu að leiðarljósi.
 2. Hagræn áhrif: Kvikmyndahátíðir skapa verulegar tekjur fyrir borgirnar sem halda þær, auk þess að skapa störf og stuðla að vexti í ferðaþjónustu og tengdum greinum. Hér má vísa til rannsóknar frá European Audiovisual Observatory (einnig hér), sem sýnir að fjárhagslegur ávinningur af kvikmyndahátíðum getur vegið upp á móti umhverfisáhrifum þeirra.
 3. Virk umhverfisstefna: Fjölmargar kvikmyndahátíðir nýta vettvang sinn markvisst til að vekja athygli á umhverfismálum og stuðla að sjálfbærara samfélagi, með vali á kvikmyndum og jafnvel kvikmyndaflokkum sérhæfðum í sjálfbærni og umhverfismálum.

  Íslendingar eiga til að mynda fjölmargar kvikmyndir sem fjalla um bæði samfélagslega og umhverfislega sjálfbærni. Það má segja að slík stef séu meðal einkenna á íslenskri kvikmyndagerð.

 4. Sjálfbær skipulagning og framleiðsla á hátíð: Margar kvikmyndahátíðir hafa tekið upp sjálfbærar aðgerðir til að minnka kolefnissporið. Dæmin sýna að stórar hátíðir á borð við Kvikmyndahátíðina í Feneyjum geta með markvissum skrefum gert viðburði kolefnishlutlausa.

Sjálfbærniáherslur RIFF

Alþjóðleg kvikmyndahátíð í Reykjavík, RIFF, skuldbindur sig til að auka sjálfbærniáherslur sínar í innra starfi sem og í samstarfi við önnur fyrirtæki, með eftirfarandi leiðum:

 1. Grænni viðburðir: Samstarf við samstarfsaðila um að minna kolefnisspor á viðburðum. Þetta kann að fela í sér notkun endurnýjanlegra orkugjafa og að draga úr úrgangi með endurvinnslu og endurnotkun, að sleppa notkun einnota plastumbúða og velja umhverfisvænni valkosti. Þá er val á samstarfsaðilum einnig liður í að efla græna viðburði. 

Reykjavik Natura er á meðal samstarfsaðila RIFF árið 2024, í hópi glæsilegra Berjaya-hótela sem þjónusta hátíðina bæði hvað varðar gistingu og viðburðahald. Hótelið er vottað „grænt hótel“ og starfar samkvæmt umhverfisvottunarstaðli ISO 14001.

 1. Umhverfisvænni samgöngur: RIFF hvetur gesti til að nýta sér umhverfisvænar samgöngur. Árið 2024 starfar RIFF með bílaleigunni Hertz, rafskútuleigunni Hopp og Strætó bs. í því skyni að létta kolefnisspor af ferðalögum gesta. 

RIFF er alþjóðleg kvikmyndahátíð og Ísland er eyja. Flugsamgöngur eru því órjúfanlegur hluti af starfsemi hátíðarinnar. Þeir hátíðargestir, sem nýta flugsamgöngur til að heimsækja hátíðina, eru eindregið hvattir til að kolefnisjafna heimsóknina. Þess má geta að íslensku flugfélögin Play og Icelandair bjóða upp á sérstakar leiðir til kolefnisjöfnunar við kaup á flugfari.

 1. Sjálfbærari birgðakeðja: RIFF leitast við að vinna með íslenskum fyrirtækjum til að tryggja að þær vörur og sú þjónusta sem hátíðin notar, eins og matur og drykkur, séu framleiddar og fengnar með sjálfbærum leiðum og að aðbúnaður starfsfólks á öllum stigum framleiðslu sé til fyrirmyndar.

   

 2. Menntun og vitundarvakning: Einn kvikmyndaflokkanna á RIFF ber titilinn Önnur framtíð. Þar er áhersla lögð á kvikmyndir sem tengjast mannréttindum, sjálfbærni og umhverfisvernd. Græna eggið eru sérstök verðlaun sem RIFF veitir kvikmyndagerðarfólki sem skarar fram úr á sviði umhverfisverndar.  Barnakvikmyndahátíðin UngRIFF, undirhátíð RIFF, setur sjálfbærniáherslur í brennidepil í nálgun á viðfangsefni og í framleiðslu. Markviss fræðsla um sjálfbærni er fastur liður í starfsemi UngRIFF. Þá býður RIFF upp á málstofur, vinnustofur og pallborðsumræður sem tengjast sjálfbærni og umhverfisvernd.

   

RIFF og Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna

Starfsemi RIFF árið 2024 má tengja sérstaklega við eftirtalin heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna:

 1. Heimsmarkmið 7: Sjálfbær orka. RIFF leggur áherslu á endurnýjanlega orkugjafa, notar græna orku fyrir viðburði, beitir sér fyrir grænni samgöngum og hvetur gesti til að gera slíkt hið sama.
 2. Heimsmarkmið 12: Ábyrg neysla og framleiðsla. RIFF miðar að því að gera hátíðina sjálfbærari ár frá ári, með því að draga úr losun, endurnýta efni og nýta vistvænar lausnir í allri starfsemi hátíðarinnar.
 3. Heimsmarkmið 13: Aðgerðir í loftslagsmálum. RIFF vekur athygli á úrræðum á borð við kolefnisjöfnun flugfargjalda, til að minnka kolefnisspor hátíðarinnar. RIFF er sömuleiðis virkur þátttakandi í lausnamiðaðri nálgun og umræðu með skipulagningu málstofa um umhverfismál í tengslum við kvikmyndasýningar sem tengjast umhverfismálum.
 4. Heimsmarkmið 17: Samvinna um markmiðin. RIFF vill auka samstarf við íslensk fyrirtæki og stofnanir til að þróa og hrinda í framkvæmd sjálfbærniverkefnum sem gagnast bæði hátíðinni og samfélaginu í heild. 

Reykjavík, 6. júní 2024

Nína Richter
Þróunarstjóri RIFF 2024