Starfsmannastefna RIFF

Markmið

Markmið með starfsmannastefnu RIFF er að hafa á að skipa hæfu, traustu og áhugasömu starfsfólki sem vinnur sem ein heild að undirbúningi hátíðarinnar. 

Stefnunni er ætlað að stuðla að góðum starfsanda og starfsskilyrðum þar sem virðing og jafnrétti einkennir öll samskipti. Lögð er áhersla á að starfsfólk sé vel upplýst um skyldur sínar og verkefni og sýni ábyrgð og frumkvæði. 

 

Gildi

Starfsfólk RIFF hefur ákveðin gildi sérstaklega til hliðsjónar í störfum sínum.
Gildin eru gleði, frumkvæði, drifkraftur og fagmennska.

 

Ráðningar og móttaka nýrra starfsmanna

Laus störf hjá RIFF standa öllum opin til umsóknar. Val á starfsfólki byggir á faglegum vinnubrögðum og jafnréttissjónarmiðum. Áhersla er að taka vel á móti nýju starfsfólki og fræða þau um starfsemi hátíðarinnar, verkefni og önnur atriði. 

 

Trúnaðarmaður

Trúnaðarmaður RIFF var skipaður þann 1. júní 2024. Staða trúnaðarmanns skal endurskoðuð árlega í upphafi starfsárs.

Hlutverk trúnaðarmanns er að vera til staðar fyrir samstarfsfólk, fylgjast með vellíðan og starfsöryggi samstarfsfélaga sinna ásamt því að auðvelda samskipti við atvinnurekanda og miðla upplýsingum. 

 

Starfsánægja og starfsandi

Áhersla er lögð á að góður starfsandi ríki og að starfsfólki líði vel í starfi. Allir leggja sitt af mörkum til að skapa góðan starfsanda. Samskipti einkennast af heiðarleika, virðingu og trausti. Starfsfólk er hvatt til að tjá sig um hvað því finnst miður/fara vel á vinnustaðnum. Starfsfólk skal í öllum tilfellum beina ábendingum til næsta yfirmanns eða trúnaðarmanns. Komi upp ágreiningur skuldbinda starfsmenn sig til að fylgja leiðbeinandi ferlum, sbr. EKKO- stefnu RIFF.

 

Jafnrétti

Lögð er áhersla á að starfsmenn njóti þeirra réttinda sem sem kveðið er á um í lögum, reglum og samningum um jafnréttismál. Fyllsta jafnréttis er gætt í öllum störfum og verkefnum hátíðarinnar.

 

Samskipti og upplýsingamiðlun

Samskipti hjá RIFF eru persónuleg og byggjast á heilindum, tillitssemi og virðingu. RIFF leggur áherslu á að starfsfólk sé vel upplýst um starfsemi hátíðarinnar.

 

 

 

 

EKKO stefna RIFF

 

Inngangur og markmið

Markmið EKKO [EKKO: einelti, kynbundin áreitni, kynferðisleg áreitni, ofbeldi] stefnu, forvarnar og viðbragðsáætlunar RIFF er að tryggja úrræði og stuðla að forvörnum og verkferlum til að bregðast við EKKO málum. Stefna þessi byggir á sambærilegum stefnum frá hinu opinbera og samræmist ákvæðum laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum og reglugerð nr. 1009/2015 um aðgerðir gegn EKKO á vinnustöðum.

 

Stefna

RIFF leggur mikla áherslu á að skapa öruggt og heilbrigt starfsumhverfi fyrir starfsfólk og samstarfsaðila. Einelti, kynbundin áreitni, kynferðisleg áreitni og ofbeldi eru ekki liðin og allar ábendingar um slíkt verða teknar alvarlega. Við EKKO tilvik skal fylgja eftirfarandi forvarnar og viðbragðsáætlun.

 

Til að stuðla að vellíðan og öryggi starfsfólks verður lögð áhersla á eftirfarandi:

 1. Endurskoða skilvirkni aðferða reglulega og að loknu EKKO máli.
 2. Þjálfa stjórnendur í EKKO verkferlum og móttöku kvartana, með áherslu á hluttekningu og virka hlustun.
 3.  Fræða starfsfólk um einkenni, afleiðingar og verkferla EKKO eftir þörfum.
 4. Gera verkferla EKKO sýnilega og aðgengilega á innri vef RIFF og í starfsmannahandbókum.

   

Viðbragðsáætlun:

Ábyrgð og hlutverk

Starfsfólk RIFF ber sameiginlega ábyrgð á að skapa öruggt starfsumhverfi. Ef starfsmaður verður fyrir, verður vitni að, eða hefur rökstuddan grun um EKKO tilvik, skal hann tilkynna það til næsta yfirmanns eða mannauðsstjóra. RIFF getur einnig leitað til fagaðila með sérhæfingu í EKKO málum fyrir stuðning og ráðgjöf.

 

Viðrun máls

Viðrun gefur einstaklingi tækifæri til að ræða upplifun sína í öruggum aðstæðum án þess að leggja fram formlega kvörtun. Veittar eru upplýsingar um formlega málsmeðferð og stuðningsúrræði.

 

Formleg málsmeðferð

Formleg málsmeðferð hefst ef starfsmaður leggur fram formlega kvörtun um EKKO tilvik. Í formlegri meðferð máls fer fram könnun á málsatvikum, upplýsingum er safnað og niðurstaða fengin. Eftirfarandi verklag er haft til hliðsjónar:

 1.       Tilkynning berst mannauðsstjóra/stjórnanda.
 2.       Hlutlaus athugun og úrvinnsla hefst, með mögulegri aðstoð fagaðila.
 3.       Upplýsingaöflun og viðtöl við málsaðila, gögnum er safnað.
 4.       Úrvinnsla gagna og niðurstaða kynnt málsaðilum.
 5.       Eftirmálar: Málsaðilum er veitt eftirfylgni og boðið upp á frekari úrvinnsluleiðir ef þörf er á.

Skilgreiningar

Stefna og viðbragðsáætlun þessi byggir á eftirfarandi skilgreiningum samkvæmt reglugerð nr. 1009/2015 og lögum nr. 150/2020:


Einelti
: Síendurtekin hegðun sem veldur vanlíðan, svo sem að móðga, særa eða ógna.

Kynbundin áreitni: Hegðun tengd kyni, sem misbýður virðingu og skapar ógnandi aðstæður.

Kynferðisleg áreitni: Hvers kyns kynferðisleg hegðun sem misbýður virðingu og skapar niðurlægjandi aðstæður.

Ofbeldi: Hegðun sem veldur eða gæti valdið líkamlegum eða sálrænum skaða, einnig hótun um slíkt.

 

Alþjóðleg kvikmyndahátíð í Reykjavík – RIFF skuldbindur sig til að tryggja öruggt starfsumhverfi með markvissum forvörnum og skýrum viðbragðsáætlunum gegn einelti, kynbundinni áreitni, kynferðislegri áreitni og ofbeldi.

Samþykkt á fundi RIFF þann 10. júní 2024

Hrönn Marínósdóttir, hátíðarstjórnandi
Sigríður Theódóra Pétursdóttir, verkefnastjóri
Nína Richter, þróunarstjóri og fjölmiðlafulltrúi