Search
Close this search box.

LEITA

Search
Close this search box.

UngRIFF sett í dag

UngRIFF, kvikmyndahátíð barna og ungmenna, hófst í dag í annað sinn í Smárabíó. Forseti Íslands, Halla Tómasdóttir, setti hátíðina og afhenti verðlaun fyrir mikilvægt framlag til barnamenningar, að viðstöddum mörghundruðum ungmenna sem héldu uppi gífurlegu stuði. Verðlaunin komu í hlut Stúdíó Sýrlands fyrir framúrskarandi frumkvöðlastarf á sviði talsetningar og ríka fagmennsku á því sviði um langt árabil. Það var Sveinn Kjartansson, framkvæmdastjóri Stúdíó Sýrlands sem veitti þeim móttöku.

UngRIFF er haldið í tengslum við Alþjóðlegu kvikmyndahátíðina í Reykjavík, RIFF sem hefst í Háskólabíói á morgun, fimmtudaginn 26. september. Fjöldi barna- og ungmennamynda er sýndur á UngRIFF í ár, en opnunarmyndirnar komu annars vegar frá Finnlandi, Hnerri og Skvetti og leitin að týndu holunum sem ætluð er krökkum í 1. til 6. bekk, en fyrir eldri nemendur grunnskólans var norska myndin Lars er LOL til sýningar. Hnerri og Skvetti var sýnd undir leiklestri Þórunnar Ernu Clausen en Lars er LOL var textuð. Myndirnar eru einnig sýndar í Skjaldborgarbíói á Patreksfirði og í Herðubíói á Seyðisfirði.

„UngRIFF er þekkingarmiðstöð ungs kvikmyndaáhugafólks á Íslandi og markmið hennar er að vera leiðandi í kennslu í gegnum kvikmyndir og kvikmyndagerð,“ segir Hrönn Marinósdóttir, stjórnandi RIFF. Kynnar á hátíðinni í Smárabíói komu úr Ungmennaráði RIFF sem er skipað þeim Ísadóru Ísfeld Finnsdóttur, Kötlu Líf Drífu-Louisdóttur Kotze, Matthíasi Páli Atlasyni, Söru Mist Sigurðardóttur og Þorkatli Þorra Thorlacius Þrastarsyni. Grunnskólanemum af öllu höfuðborgarsvæðinu var boðið í Smárabíó á opnun UngRIFF – og komu krakkar sem búa næst Smáralindinni fótgangandi á staðinn. 

UngRIFF stendur yfir til 6. október og er ástæða til að hvetja grunnskólanema á höfuðborgarsvæðinu og foreldra þeirra til að kynna sér einkar áhugaverða dagskrá hátíðarinnar hér á riff.is og ungriff.is. 

Facebook
Twitter
LinkedIn
Email