Riff Logo
Riff Dates (from 24-September-2026 to 04 october 2026)
Untitled design 11

UNG-NORRÆNA HUGVEITAN

UNG-NORRÆNA HUGVEITAN

Árið 2024 var fyrsta árið sem RIFF – Alþjóðleg kvikmyndahátíð í Reykjavík – stóð fyrir Young Nordic Voices – Think Tank, þar sem ungt norrænt kvikmyndagerðarfólk kom saman til að ræða og meta hvernig kvikmyndagerð er að breytast í dag. Í samverunni kviknuðu margvíslegar og innihaldsríkar umræður um meðal annars sjálfbærni, gervigreind, aðgengi og þátttöku – og þátttakendum var gefinn vettvangur til að miðla eigin reynslu, áhyggjum og vonum um framtíð kvikmyndalistarinnar.

Árið 2025 snýr Young Nordic Voices aftur – nú í enn markvissari og hnitmiðaðri mynd. Að þessu sinni erum við að leita að 12–15 þátttakendum með búsetu á Íslandi, á aldrinum 18–30 ára, til að taka þátt í eins dags vinnustofu á meðan á Bransadögum RIFF stendur.

Viðburðurinn fer fram í Norræna húsinu og er hugsaður sem skapandi samverustund þar sem rætt er um hvar íslensk kvikmyndagerð er á vegi stödd og hvert hún stefnir, hverjir möguleikar hennar eru. Þetta er ekki fyrirlestur eða pallborð, heldur samtal við hringborð; rými þar sem má tala opinskátt, spyrja spurninga, skiptast á reynslu og tengjast jafningjum og leiðbeinendum í óformlegu og styðjandi umhverfi.

Hugveitan hefst á opnu hringborði undir þemanu „Ósýnilega millistigið: Ekki lengur nemi, ekki enn fagmanneskja – hvað nú?“ Þátttakendur munu ræða á milli sín hvernig það er að vera á þessu millistigi – hvort sem það eru nemendur að undirbúa sig fyrir ferilinn, ungt fólk að stíga sín fyrstu skref, eða kvikmyndaunnendur sem vilja starfa í geiranum en vita ekki hvar skal byrja. Samræðurnar varpa ljósi á þá áskorun að fá inngöngu, skort á skýrum leiðum eða stuðningi, og spurningar sem oft fá ekki hljómgrunn. Þetta er tækifæri til að ræða það sem vantar og deila hugmyndum um hvernig íslenska kvikmyndasamfélagið getur betur stutt næstu kynslóð.

Í seinni hluta dagsins bætast við gestir úr íslenskum og norrænum kvikmyndaiðnaði – framleiðandi, leikstjóri, söluaðili og hátíðarstjóri – sem munu setjast niður með hópnum í þátttökumiðað spjall. Þetta verður ekki hefðbundið pallborð, heldur raunverulegt samtal þar sem leiðbeinendur deila innsýn úr eigin ferli, veita hvatningu og svara beint spurningum, hugmyndum og ábendingum þátttakenda.

Við trúum því að sýnileiki og þátttaka séu lykilatriði í framtíð kvikmyndagerðar – og að ungar raddir eigi skilið að heyrast. Þessi dagskrá er hugsuð sem stuðningur við upprennandi kvikmyndagerðarfólk sem er að feta fyrstu skrefin og leita að vettvangi til að vaxa, tengjast og taka þátt í samtalinu um framtíð listgreinarinnar.

MARKMIÐ:

  • Valdefla upprennandi kvikmyndagerðarfólk á Íslandi (18–30 ára) með því að veita þeim vettvang til að tjá hugmyndir, áskoranir og framtíðarsýn.

     

  • Efla kynslóðatengsl með því að skapa tengsl milli ungs sköpunarfólks og reyndra fagmanna í óformlegu, samstarfsmiðaðu rými.

     

  • Varpa ljósi á „ósýnilega millistigið“ – tímabilið milli menntunar og atvinnu – og kortleggja þar með eyður í stuðningskerfi kvikmyndagerðar á Íslandi.

     

  • Stuðla að kerfisbreytingum með því að vinna sameiginlega að skýrslu (Think Tank Report) sem getur mótað framtíðardagskrár og styrkjakerfi.
  • Styrkja samfélag ungra fagmanna með því að bjóða þeim aðgang að RIFF Industry Days, handleiðslu og tengslamyndun innan hátíðarinnar.

ÞÁTTTAKENDUR FÁ:

  • Hringborðsumræður með 12–15 jafningjum um reynslu upprennandi kvikmyndagerðarfólks á Íslandi.

     

  • Samtal við fagfólk úr kvikmyndaiðnaðinum – leikstjóra, framleiðanda, söluaðila og dagskrárstjóra.

     

  • Tækifæri til að miðla eigin reynslu og hugmyndum og leggja sitt af mörkum í skýrslu sem endurspeglar sýn þeirra á kvikmyndagerð framtíðarinnar.

     

  • Hátíðar + Bransadagapassa fyrir RIFF — með aðgangi að:
    • Pallborðum
    • Meistaranámskeiðum
    • Tengslamyndunarviðburðum
    • Kvikmyndasýningum
    • *sérviðburðir utanskildir

Þátttaka er ókeypis. Takmarkaður fjöldi plássa er í boði.

Athugið: Ekki er veittur ferðastuðningur né gisting.

  •  

SJÁÐU HVERNIG ÞAÐ VAR Í FYRRA