SEARCH

Search
Close this search box.

Hátíðargusa Göggu Jóns: ,,Við getum ekki meiri Groundhog Day“

Kvikmyndagerðarkonan Gagga Jóns hélt þrumandi hátíðargusu á Opnunarhátíð RIFF í síðustu viku. Þar fór hún yfir stöðu íslenska kvikmyndageirans og gagnrýndi niðurskurð ríkisins í Kvikmyndasjóð. Hér má lesa ræðu Göggu:

Hátíðargusa Göggu Jóns

Virðulegu gestir,

Á dögunum birtust fréttir af fyrirhuguðum niðurskurði Kvikmyndasjóðs. Í kjölfarið var sendur út tölvupóstur með neyðarfundarboði á fagfélög  kvikmyndagerðarmanna.

Ónefndur leikstjóri og handritshöfundur svaraði póstinum svohljóðandi:

“Kæru kollegar

Ég sendi góða strauma þennan Groundhog Day. 14 ár af þessum fjanda taka sinn toll og sit því hjá í þetta sinn.

Baráttukveðjur”

Þarna talar maður í augljósri baráttukulnun enda búinn að eyða stórum hluta starfsævinnar í að reyna að fá viðurkenningu og skilning stjórnvalda á mikilvægi kvikmyndalistarinnar á Íslandi.

Hann hefur ekki staðið einn í brúnni því kvikmyndagerðarfólk á Íslandi þekkir ekki annað en að berjast fyrir tilveru sinni, gleypa við og skála fyrir fögrum kosningaloforðum  og vakna svo upp við vondan draum þegar að nýskipaðir ráðherrar  og fjárlaganefndir ýta fast á delete takkann á excel skjalinu í nafni hagræðingar.

Það var svo fyrir fjórum árum síðan að það hýrnaði nú heldur betur yfir  bransanum öllum ,þegar  út kom glæsileg kvikmyndastefna, fyrsta sinnar tegundar, stefna með metnaðarfullum markmiðum sem öll átti að uppfylla áður en árið 2030 liti dagsins ljós.

Loksins voru komnir fram á sviðið pólítíkusar með alvöru metnað, fólk sem skildi mikilvægi þess að hlúa að og styðja íslenska kvikmyndagerð. Fólk með pólitískan vilja til að framkvæma.

Ég ætla að stinga hér niður í stefnuna góðu:

„Mennta- og menningarmálaráðherra, er að ráðast í fyrstu heildstæðu stefnumótunina á sviði kvikmyndamála. Sú ákvörðun er til marks um skilning og viðurkenningu stjórnvalda á vaxandi hlutverki menningar, lista og skapandi greina á Íslandi.”

„Sem listgrein er kvikmyndagerð mjög aðgengileg almenningi og er sérlega mikilvæg í þeirri viðleitni að efla og varðveita tungumálið, spegla samtímann og gera sögu og menningarfi skil”

“Ráðist verður í aðgerðir til að efla stuðningskerfi kvikmyndagerðar og auka með því framleiðslu og þróun fjölbreyttari kvikmyndaverka en fram til þessa. Fjárframlag til Kvikmyndasjóðs verður hækkað og nýr fjárfestingarsjóður sjónvarpsefnis verður settur á laggirnar.”

Of gott til að vera satt?

Því miður virðist allt benda til þess.  Núna, fjórum árum seinna bólar ekkert á fjármagni til þess að efna loforðin. Og ekki nóg með það heldur á að skera niður, eina ferðina enn.

Meiri viðurkenning, fleiri aðgerðir – minni peningur. Hér fara ekki saman hljóð og mynd.

Samúðin er ekki listamönnum í vil þegar að félagslegir innviðir visna jafnhratt og verðbólgan hækkar. Hvort viltu geðheilbrigðiskerfi eða  íslenska kvikmynd? Röksemdafærslur sem þessar fá yfirleitt byr undir báða vængi þegar úthluta skal listamönnum  opinberu fé.

„Hvernig er það – eru þessir vælandi  kvikmyndagerðarmenn ekki að fá skattaendurgreiðslu af hundruðum milljóna? “

Þá er okkur stillt upp á móti hvort öðru. Annað hvort eða. Og það sem tapar mest í þeim slag er sjálft samfélagið sem er ekkert án hins.

Sama gerist innanbúðar hjá okkur kvikmyndagerðarfólkinu. Hvort viljum við háa endurgreiðslu eða gera íslensk verk?  Hagsæld eða hor? Iðnað eða list?

Svarið er einfalt.

Við viljum bæði. Því annað er ekkert án hins.  Við vissum ekki að við þyrftum að velja, af því að það kom hvergi fram í kvikmyndastefnunni.

Við viljum vinna við kvikmyndagerð,  við viljum atvinnuöryggi og fyrirsjáanleika en fyrst og fremst viljum við segja sögurnar okkar. Það er ekki nóg fyrir íslenska kvikmyndagerð að vera vinsæll tökustaður, hagnýttur til þess að segja sögur annarra, á öðrum tungumálum. Þau íslensku verkefni ná markmiðinu sem þarf til að fá 35% endurgreiðslu eru ekki mörg. Og fjölbreytt kvikmyndagerð sem er aðgengileg almenningi, er allskonar og kostar allskonar.  Fjölbreytt kvikmyndagerð verður til í litlum fyrirtækjum jafnt sem stórum.

Við þurfum sögur í samhengi við það sem við erum og gerum , hugsum og dreymum. Sögurnar okkur þurfa að spegla okkur sjálf, fortíðina og framtíðina, samfélagið og fólkið. Erfiðar sögur, fyndnar sögur, sögur gerðar eftir bókum, sögur sem gerast í Japan eða London, Vestfjörðum eða Mosfellsbæ.

Og hættan er líka á, að menningararfurinn sem eftir standi verði sögur um úrkynjaðar stereótýpur, eitthvað sem aðrir vilja sjá og halda að við séum.  Skilgreining annarra á okkar menningu.  Skilgreining algórythma og tæknirisa  á Íslandi.

Skilningur og stuðningur við menningu, listir og skapandi greinar er órjúfanlegur hluti af því að reka samfélag.

Sérstaklega lítið samfélag þar sem vilji er fyrir því að halda úti tungumáli.  Og til þess þarf fjármagn.

Það er ekki nóg að tala um söguþjóðina á tyllidögum þegar vel liggur á okkur. Við erum ekki nein söguþjóð nema að við höldum áfram að semja sögur. Það er frábært að Ísland sé eftirsóknarvert Film hub á heimsmælikvarða, að baki liggur þrotlaus vinna og dugnaður, en það þarf líka að hlúa að eigin menningu, það er hagur okkar allra.

Karakter Bill Murrays í Groundhog Day var fastur þar,  þangað til að hann sá að sér og ákvað að breyta sjálfum sér til hins betra.

Þetta geta stjórnvöld líka –  breytt rétt og gefið okkur alvöru loforð um að kvikmyndastefnan sé ekki eitthvað pólitískt tækifærisskraut heldur raunveruleg viðurkenning á mikilvægi menningar, lista og skapandi greina.

Loforð um að skapa auðuga kvikmyndamenningu, sem styrkir sjálfsmynd þjóðarinnar.

Ég held að ég tali máli margra kvikmyndagerðarmanna þegar ég tek undir með baráttukulnuðum kollega mínum og segi: Við getum ekki meiri Groundhog Day.

Að lokum langar mig til að enda þetta á jákvæðu nótunum.

Ég er viss um að þegar lagt var í uppí þá mikluvegferð að móta þessa stefnu, þá var það gert af heilum hug og vilja til að sjá hana raungerast. Það er enn tími til að standa við stóru og mikilvægu loforðin.

Ég hlakka til að heyra gusuna árið 2030.

Facebook
Twitter
LinkedIn
Email