SEARCH

HRAFNINN FLÝGUR – 40 ára afmælissýning á föstudaginn

„með trukki og dýfu“

Í tilefni þess að réttir fjórir áratugir eru liðnir frá því íslensk/sænska víkingamyndin Hrafninn flýgur í
leikstjórn Hrafns Gunnlaugssonar var frumsýnd á Íslandi við mikla hrifningu tugþúsunda bíógesta,
þykir við hæfi að leiða hana á ný fyrir sjónir kvikmyndaunnenda hér á landi.

Og það verður gert með trukki og dýfu, eins og tilhlýðilegt má heita, en hljómsveitin Sólstafir mun
endurtaka leikinn frá því fyrir tíu árum, á þrjátíu ára afmæli myndarinnar, en þá frumflutti hún eigin
tónsmíðar á kraftmikinn hátt við myndina á vegum RIFF. Liðsmenn sveitarinnar munu því stíga aftur á
stokk, að þessu sinni í Sal 1 í Háskólabíói og lofa engu minna rokki en þegar þeir ærðu gesti sína í
Salnum í Kópavogi haustið 2014.

“Hún er lífsseig, þessi mynd mín,” segir leikstjórinn sjálfur, en enn þann dag í dag sé verið að sýna
hana víða um heim. “Ætli megi ekki segja að hún sé tímalaus,” bætir hann við.

Hrafninn flýgur vakti mikla athygli og umtal á sínum tíma, og raunar áður en hún kom fyrir sjónir
almennings, því búningar og leikmunir höfðu þá þegar lyft brúnum landsmanna, sem horfðu í
nokkurri forundran á þær forneskjulegu aðferðir sem notaðar voru í leðurgerð og málmsmíði sem
lutu lögmálum landnámsaldar í svo til einu og öllu. Það vantaði heldur ekki metnaðinn í leikmyndina
sjálfa, en þar léku drangar og hellar undir Eyjafjöllum stóra rullu.

“Þetta var ofboðsleg framkvæmd,” rifjar Hrafn upp. “Fyrir mig var þetta stanslaus vinna í þrjú ár.”
Myndin segir af írskum manni sem heldur út til Íslands í þeim erindagjörðum að hefna sín á víkingum
sem höfðu drepið foreldra hans og rænt systur hans þegar hann var á barnsaldri – og vakti fléttan
athygli út fyrir landsteinanna, einkum á meðal frændþjóða á Norðurlöndunum þar sem minni úr
myndinni á borð við „þungur hnífur“ lifa enn í máli manni.

Hér þótti vera kominn spagettívestri í víkingabúningi, nokkuð í anda kvikmyndajöfranna Akira
Kurosawa og Sergio Leone þar sem kynnt er óspart undir þjóðsagnaminnið um hetjulund og
hefndarþorsta, en persónusköpun og túlkun helstu leikara í myndinni var þar af leiðandi ofsafengin á
köflum. Þar fóru fremstir Egill Ólafsson og Helgi Skúlason, ásamt Eddu Björgvinsdóttur, Flosa
Ólafssyni og Jakobi Þór Einarssyni sem lék írska aðkomumanninn.

Röskum hálfum öðrum áratug eftir frumsýningu Hrafnsins var áætlað að um sjötíu þúsund manns
hefðu séð myndina í kvikmyndahúsum víða um land og var hún þar með komin í hóp tíu best sóttu
íslensku bíómyndanna undir lok síðustu aldar, en sá tími hefur almennt verið kallaður íslenska
kvikmyndavorið.

“Það eru enn starfandi aðdáendaklúbbar myndarinnar í útlöndum,” bendir Hrafn á. “Mér var einu
sinni boðið til eins þeirra, sem er í Múrmansk, af öllum kimum heimsins. Ég þáði það nú, og hafði
gaman af, þótt ekki væri sakir annars en að formaður klúbbsins reyndist vera fangelsisstjóri
borgarinnar og varaformaðurinn sjálfur lögreglustjórinn í Múrmansk,” segir Hrafn Gunnlaugsson að
lokum.

Kauptu miða!

Facebook
Twitter
LinkedIn
Email