SEARCH

Jonas Åkerlund: Myndasmiður stórstjarnanna

Sænski leikstjórinn Jonas Åkerlund er heiðursgestur RIFF í ár, en kunnastur er hann fyrir tónlistarmyndböndin sem hann hefur unnið fyrir helstu poppstjörnur heimsins, allt frá Paul McCartney, Madonnu, Lady Gaga and Beyoncé til Prodigy and Rammstein, en það er einungis hluti af því sem Åkerlund hefur sýslað á löngum ferli. Nýjasta verkefni hans, myndin DuEls, byggir á vinsælu verki norska danshópsins í Nagelhus Schia í samstarfi við íslenska dansflokkinn. Það er samið af þeim Damien Jalet og Ernu Ómarsdóttur og kom fyrst fyrir almenningssjónir á Vigelundsafninu í Osló 2020 og þótti leysa úr læðingi alla þá krafta sem stafa af höggmyndunum sem þar er að finna.

Åkerlund kemur upphaflega úr auglýsingabransanum, þó hann hafi aldrei ætlað sér að staldra þar lengi við. ,,Það er erfitt að koma sér út úr auglýsingabransanum. Og meir að segja er erfitt að festast ekki í ákveðinni kategoríu innan bransans. Að verða bílagæinn, eða tískugæinn, eða gríngæinn. Ég hef unnið hart að því á mínum ferli að verða aldrei ,,Gæinn með stóru G-i“ fyrir eitthvað, þessi sem vinnur bara að einhverju einu.“

Hann segir það veita sér kraft að takast á við fjölbreytt og ólík verkefni. ,,Annars myndi mér hundleiðast,“ segir hann aðspurður. Hann skorti ekki hugrekki til þess að vera öðruvísi, heldur geri hann út á það í allri sinni sköpun. Hann leitist við að finna sama hugrekki í listamönnunum sem hann vinnur með. ,,Ég vil helst vinna með listafólki sem er tilbúið að gera eitthvað nýstárlegt, vill hrista upp í hlutum og hafa áhrif á fólk. Fólkið sem ræður mig á það sameiginlegt að vilja standa út úr. Hlutverk mitt felst í því að koma með hugmyndir og framkvæma þær, en stundum þarf ég líka að minna listafólkið á hvað við erum að gera, altso að reyna að búa til eitthvað einstakt saman. Annars er enginn tilgangur í þessu öllu saman.“

Hann gladdist því yfir því að fá að vinna með íslenska danshöfundinum Ernu Ómarsdóttur, sem hann lýsir sem einni ,,mest skapandi manneskju“ sem hann hafi hitt um ævina. Hann kveðst vera sérlega stoltur af DuEls, enda sé hann alltaf spenntastur yfir því nýjasta sem hann geri. ,,Ég steig inn í umhverfi sem var þegar iðandi af sköpunargleði og hæfileikum, en mitt hlutverk var að festa það á filmu án þess að tapa töfrunum sem felast í því að sjá það með berum augum.“

Gestum RIFF mun gefast tækifæri á að sjá DuEls á silfurskjánum, en Åkerlund verður sjálfur viðstaddur samræður eftir sýningu ásamt Ernu Ómarsdóttur í Háskólabíói 3. október kl. 17. Þar að auki mun Åkerlund vera með meistaraspjall um ótrúlegan feril sinn í tónlistarmyndbanda-gerð, 4. október í Háskólabíói kl. 17.30.

Facebook
Twitter
LinkedIn
Email