Átta íslenskar myndir frumsýndar í flokknum Ísland í sjónarrönd á RIFF 2021

Það gætir mikillar grósku í íslenskri kvikmyndagerð um þessar myndir en 8 myndir bæði heimildarmyndir og leiknar verða frumsýndar á RIFF sem eru annað hvort með íslenska leikstjóra eða í íslenskri framleiðslu.

Fyrst ber að nefna opnunarmynd flokksins Wolka sem er eftir hinn ástkæra leikstjóra sem nú er fallin frá Árna Ólaf Ásgeirsson. Margir bíða hennar spenntir enda var Árni mikils metinn í kvikmyndageiranum hér heima og veitir myndin innsýn inn í pólskt samfélag á Íslandi sem hefur farið ört stækkandi í gegnum árin. Wolka er íslenskt – pólskt samstarfsverkefni og fara nær einungis pólskir leikarar með hlutverk í myndinni. En myndin er leikstýrð af Árna og tónlist, búningar, leikmynd og framleiðsla eru í höndum Íslendinga. 

Af þessum átta myndum eru tvær íslenskar leiknar myndir; myndirnar Uglur eftir Teit Magnússon and Harmur eftir Ásgeir Sigurðsson and Anton Karl Kristensen. Báðar eru frumraun leikstjórana í gerð leikinnar kvikmyndar í fullri lengd. Myndin Uglur fjallar um ekkilinn Pál sem kynnist konu sem er beitt ofbeldi af kærasta sínum. Er hann reynir að hjálpa henni þarf hann um leið að horfast í augu við fortíð sína. Harmur er um ungan mann sem neyðist til að leita að yngri bróður sínum í undirheimum Reykjavíkurborgar þegar móðir þeirra fellur. Harmur hefur nú þegar verið valin á nokkrar kvikmyndahátíðar og fékk ,,Directorial Discovery Award’’ á Flickers’ Rhode Island International Film Festival. 

Þrjár íslenskar heimildarmyndir verða heimsfrumsýndar í flokknum á hátíðinni og gætu þær ekki verið af ólíkari meiði. Myndin Ekki einleikið eftir Ásthildi Kjartansdóttur er grátbrosleg frásögn um Ednu Lupitu og sýnir fram á hvernig hægt er að lifa eðlilegu og innihaldsríku lífi þrátt fyrir að vera á barmi sjálfsvígs. Í myndinni Hvunndagshetjur eftir Magneu Björk Valdimarsdóttur kynnumst við fjórum konum sem eiga það sameiginlegt að hafa búið á Íslandi í tuttugu ár. Fæddar í Bosníu, Jamaíka, Póllandi og Tyrklandi – allar hafa þær sína sögu af því hvað leiddi þær hingað og hvernig það er að vera útlenskur Íslendingur á Íslandi í dag. 

Þriðja heimildarmyndin Jarðsetning eftir Önnu Maríu Bogadóttur er svo af allt öðrum meiði en hún fjallar um Stórhýsi Iðnaðarbankans við Lækjargötu sem byggt var á sjöunda áratugnum í anda alþjóðlegra framtíðarhugmynda. Rúmlega hálfri öld síðar verðum við vitni að niðurrifi og upplausn bankans með daglegt líf borgarinnar í bakgrunni.

Að lokum eru það tvær leiknar myndir í fullri lengd sem eru íslensk – erlend samstarfsverkefni. Annars vegar Lítið fiðrildi eða Lille Sommerfugl á frummálinu. Íslenskt danskt samstarfsverkefni um þrjóskan svínabónda og konu hans sem halda veislu á bæ sínum til að fagna fimmtíu ára brúðkaupsafmæli sínu. Innan fjölskyldunnar eru fjölmörg leyndarmál og þegar líður á kvöldið koma þau í ljós. 

Hins vegar er það lokamynd RIFF, stórmyndin Margrét, drottning Norðursins. Myndin er dýrasta kvikmynd sem framleidd hefur verið á Norðurlöndunum og er Samnorrænt samstarfsverkefni. Leikstjóri er Charlotte Sieling sem leikstýrði meðal annars The Killing, The Bridge og Borgen. Trine Dyrholm er í aðalhlutverki og leikkonurnar Halldóra Geirharðs og Tinna Hrafns fara með aukahlutverk. Trine verður heiðursgestur á hátíðinni og mun vera viðstödd sýninguna. 

Wolka

Þegar Anna fer á reynslulausn úr fangelsi í Póllandi eftir 15 ár á bakvið lás og slá er einungis eitt sem hún ætlar sér – það er að finna konu að nafni Dorota. Hún leitar hennar í gamla hverfinu sínu í Varsjá en þar eru flestir sem hún áður þekkti farnir eitthvað annað. Þegar Anna er við það að gefast upp á leitinni kemst hún að því, sér til mikilla vonbrigða, að Dorota hefði flutt til Íslands nokkrum árum áður. Anna hættir öllu sínu og ferðast til Íslands á fölsku vegabréfi vitandi það að hún gæti verið að fórna frelsinu með því að taka áhættuna.

Uglur

Páll hefur lokað sig af síðan eiginkona hans og dóttir féllu frá. Hann kynnist Elísabetu, sem er beitt ofbeldi af kærasta sínum, og reynir að hjálpa henni með því að veita henni húsaskjól. Þegar ofbeldishneigður kærastinn bankar upp til að sækja Elísabetu þarf Páll að horfast í augu við eigin fortíð  þegar hann neyðist til að stíga á milli þeirra.

Harmur

Óliver er 20 ára strákur sem vinnur dagvinnu ásamt því að hjálpa mömmu sinni að halda sér uppi. Eftir að hafa verið edrú í dágóðan tíma þá fellur móðir hans sem veldur því að samband þeirra og litla bróðir hans Hrafns, tekur því að rofna. Í öllum uslanum þá framselur móður þeirra yngri bróðirinn í fíkniefnasölu vegna skuldar á höndum hennar. Þegar Óliver kemst að þessu fer hann í ferðalag yfir rauða nóttina til þess að finna litla bróðir sinn og bjarga honum frá spilltri framtíð.

Ekki einleikið

Edna Lúpita er frá Mexíkó og býr í vesturbænum í Reykjavík. Hún á í ströggli með tilveruna og langar stundum að drepa sig. Hún fær leikarana Sólveigu Guðmundsdóttur og Val Frey Einarsson með sér til að kljást við djöflana í lífi sínu. Myndin byggir á ævisögu Ednu Lupitu þar sem hún sviðsetur atburði úr fortíð sinni með hjálp atvinnuleikara. Hún vekur upp erfiðar minningar og tengir þær baráttu sinni við geðsjúkdóma og sjálfsvígshugsanir. Ekki einleikið fer með áhorfandann í tilfinningalegt ferðalag í leit Ednu að andlegum bata.

Hvunndagshetjur

Fjórar konur eiga það sameiginlegt að hafa búið á Ísland í tuttugu ár. Fæddar í Bosníu, Jamaíku, Póllandi og Tyrklandi – allar hafa þær sína sögu af því hvað leiddi þær þangað. Samfélagið breytist hratt og oft veitum við því litla eftirtekt hverjir það eru sem hugsa um börnin okkar, gamla fólkið, byggja húsin okkar og sinna alls kyns illa launuðum störfum í samfélaginu. Hér fáum við að kynnast hvernig það er að vera útlenskur Íslendingur á Íslandi í dag.

Jarðsetning

Stórhýsi Iðnaðarbankans við Lækjargötu rís á sjöunda áratugnum í anda alþjóðlegra framtíðarhugmynda.  Rúmlega hálfri öld síðar fær byggingin dóm um að víkja, mæta afli vélarinnar og kröftum náttúrunnar.  Innan úr byggingunni verðum við vitni að niðurrifi og upplausn bankans með daglegt líf borgarinnar í bakgrunni.  Þetta er jarðsetning. Endalok stórhýsis á endastöð hugmynda um einnota byggingar.

Lítið fiðrildi

Þegar svínabóndinn Ernst og Louise konan hans halda upp á gullbrúðkaupið sitt kemur í ljós að þau eru við það að missa býlið sitt. Þær fréttir munu koma til með að breyta honum og fjölskyldu hans til frambúðar. Leikstjóri myndarinnar er Soren Kragh-Jacobsen en Pegasus er meðframleiðandi að myndinni. 

Margrét fyrsta

Myndin fjallar um Margréti drottningu sem tileinkaði líf sitt gerð Kalmarsáttmálans en sá sáttmáli var upphafið að Skandinavíu eins og við þekkjum hana í dag og þess bræðralags sem þar ríkir. Margrét drottning ræður Svíþjóð, Noregi og Danmörku í gegnum ættleiddan son sinn, Erik. Samsæri setur Margréti í úlfakreppu sem gæti eyðilagt ævistarf hennar, Kalmarsambandið.

Facebook
Twitter
LinkedIn
Email