Riff Logo
Riff Dates (from 24-September-2026 to 04 october 2026)

VERÐLAUNAHÁTÍÐ SÓLVEIGAR ANSPACH

Stuttmyndasýning á verðlaunahátíð Sólveigar Anspach 28. september kl. 15  á RIFF

Verðlaun kennd við kvikmyndagerðarkonuna Sólveigu Anspach, sem lést árið 2015, verða veitt í áttunda sinn á Alþjóðlegri kvikmyndahátíð í Reykjavík, RIFF, á sérstakri sýningu og verðlaunaafhendingu í Háskólabíó sunnudaginn 28.september kl. 15. 

SLT Stills 3

Franska sendiráðið á Íslandi og Alliance Française í Reykjavík standa að baki Sólveigar Anspach verðlaununum með stuðningi Reykjavíkurborgar, Kvikmyndamiðstöðvar Íslands og RIFF.

Tilgangur verðlaunanna er að heiðra minningu Sólveigar Anspach og hvetja ungar konur til dáða í kvikmyndaleikstjórn. Verðlaunin eru veitt konum fyrir fyrstu stuttmynd þeirra á frönsku og íslensku, tungumálunum hennar Sólveigar. Aðgangur er ókeypis og léttar veitingar verða í boði að verðlaunaafhendingu lokinni (um kl.17).

Verðlaun Sólveigar Anspach, sem franska sendiráðið á Íslandi og Alliance Française í Reykjavík settu á fót árið 2015, eru veitt konum fyrir fyrstu stuttmyndir þeirra á frönsku eða íslensku, tungumálum Sólveigar Anspach, og er þeim ætlað að hvetja ungar konur til dáða í kvikmyndaleikstjórn.  Tvenn verðlaun eru veitt í stuttmyndakeppninni, ein fyrir bestu stuttmyndina á frönsku og önnur fyrir þá bestu á íslensku.

Þegar hefur verið tilkynnt hvaða konur hljóta verðlaunin í ár. Val dómnefndar í flokki mynda á frönsku er Sur la Touche eftir Kahina Ben Amar og í flokki mynda á íslensku er það Brúðurin eftir Hjördísi Jóhannsdóttur. Hjördís fékk auk þess boð á Alþjóðlegu stuttmyndahátíðina í Clermond-Ferrand í Frakklandi með stuðningi sendiráðs Íslands í París. 

Kvikmyndagerðarkonan Hjördís Jóhannsdóttir hlaut verðlaunin fyrir bestu íslensku stuttmyndina í ár fyrir stuttmynd sína Brúðurin.

TheBride still4 scaled

Frá Hjördísi um verðlaunin: 

„Að hljóta verðlaun Sólveigar Anspach er mikill heiður og kom skemmtilega á óvart.

Það hefur lengi verið draumur hjá mér að fara á Clermont Ferrand kvikmyndahátíðina og stóð hún svo sannarlega undir væntingum.

Að sjá yfir þúsund manns koma saman fyrir hádegi á virkum degi og bíða í hátt í klukkutíma til þess að komast inn í bíósal til þess að horfa á stuttmyndir er eitthvað sem ég hélt að gæti ekki gerst en sá þó ítrekað endurtaka sig á hátíðinni.

Clermont Ferrand hefur gefið mér nýja sýn á stuttmyndir og það var mér mikill innblástur að sjá hversu mikil virðing er borin fyrir þessu listformi sem oftast fær ekki mikið pláss.

Ég tók þátt í prógrammi sem heitir Road to Clermont og var samansett af kvikmyndagerðarfólki hvaðan af úr heiminum sem eru að taka sín fyrstu skref í kvikmyndagerð eins og undirrituð. Það er ofboðslega verðmætt að fá að kynnast fólki með ólíkan bakgrunn sem eru að takast á við svipaðar áskoranir sem tengjast listsköpun.

Dagskráin var stíf og spennandi. Við fórum meðal annars á margar sýningar þar sem ég sá nokkrar mjög áhrifamiklar stuttmyndir sem sitja enn í mér, einnig fórum við á masterclass með líbanska leikstjóranum Wissam Charaf, kíktum á shortfilm market, fórum á samkomur þar sem við hittum kvikmyndagerðarfólk sem var með myndir í keppninni og svo mætti lengi telja.

Ég kom heim reynslunni ríkari, full af innblæstri og þakklæti fyrir þetta fallega boð.

Takk kærlega fyrir mig.“