Benny Safdie er einn afkastamesti og djarfasti leikstjóri Bandaríkjanna um þessar mundir. Hann er sérstaklega þekktur fyrir kvikmyndir sem hann og bróðir hans unnu að í sameiningu, þar sem Safdie bæði leikstýrir og leikur á móti risastórum nöfnum í Hollywood, líkt og Adam Sandler (Uncut Gems, 2019) og Robert Pattinson (Good Time, 2017). Nú vinnur Safdie sjálfstætt og fer sigurför um heiminn með nýjustu mynd sína The Smashing Machine með Dwayne Johnson í aðalhlutverki. Myndin verður sýnd á RIFF með sérstakri rafrænni kynningu frá Benny Safdie í rauntíma.
Kvikmyndaunnendum og sérstökum aðdáendum framleiðslufyrirtækisins A24, sem hafa framleitt myndir þeirra bræðra, sárnaði mjög við þær fréttir að Josh og Benny Safdie ætluðu að fara hvor í sína áttina á vegferð sinni við kvikmyndagerð. Benny segir þó í samtali við Variety, 2024 að samstarfsslitin hafi aðeins verið til góðs og gerð í sátt og samlyndi. Samkvæmt Benny ríkir enn mikil ást á milli bræðranna sem nú fá aukið frelsi til þess að sinna hugðarefnum sínum og ólíkum ástríðum.
Síðastliðin tvö ár hefur starfsframi Safdie verið á sannkallaðri þeysireið, en þá má nefna þáttaröðina The Curse (2023) sem hann vann með óskarsverðlaunahafanum Emmu Stone og grínistanum Nathan Fielder. Sama ár fór hann með mikilvægt hlutverk í stórmynd Christopher Nolan, Oppenheimer, og lék á móti Rachel McAdams í myndinni Are You There God? It’s Me Margaret. Honum bregður einnig fyrir í nýrri Netflix-mynd Adam Sandler, Happy Gilmore 2.
Það er óhætt að segja að Safdie sé orðinn vel kunnugur staðháttum í Hollywood, en leikstjórinn er þekktur fyrir frumlegar aðferðir við kvikmyndagerð. Til dæmis er Benny gjarn á að halda sjálfur á bómunni við upptökur á myndum sínum, þrátt fyrir að leikstýra þeim og jafn vel leika sjálfur. Það verður spennandi að heyra hvaða brögðum Safdie beitti við gerð á sinni nýjustu mynd The Smashing Machine, sem jafnan verður sýnd á RIFF 2025.
The Smashing Machine segir frá fjölbragðaglímukappanum Mark Kerr, bandarískri goðsögn innan heima bardagaíþrótta, sem faldi flóknar tilfinningar með hrikalegum fantabrögðum sínum í hringnum. Myndin er raunar frumraun Benny Safdie við leikstjórn upp á eigin spýtur en myndina skartar Dwayne ,,The Rock” Johnson í hlutverki glímukappans og Emily Blunt leikur eiginkonu hans.
Rétt fyrir sýningu myndarinnar í Háskólabíó verður Benny Safdie í rauntíma varpað upp á skjáinn, rétt eins og leikstjóranum Bong Joon Ho í fyrra, og kynnir mynd sína sérstaklega fyrir gestum RIFF. Ekki missa af þessari sérstöku sýningu á einstakri mynd!
