RIFF er skurðpunktur íslenskrar og erlendrar kvikmyndalistar. Hér eru sýndar nýjar inn- og erlendar kvikmyndir sem hafa sterka tengingu við land og þjóð. Þessar myndir gera hátt undir höfði einstökum frásögnum, sjónarhornum og sérstöðu sem einkenna vora hressu og skapandi þjóð. Þrjár nýjar kvikmyndir setja svið Íslands í brennidepli í ár:

Skriti ljudje (Hidden People)
Hidden People, eða Skriti ljudje, er glænýtt ævintýralegt gamandrama með einn ástsælasta leikara okkar Íslendinga í aðalhlutverki, Ólaf Darra Ólafsson.
Myndin er úr smiðju bæði íslenskra og slóvenskra kvikmyndagerðamanna og tvinnar saman menningarheimana tvo. Myndin fjallar um þá Guti sem er slóvani og Sig, Íslendingur leikinn af Ólafi Darra, en þeir vakna einn daginn naktir og handjárnaðir við árbakka í Ljubljana. Sig man ekki neitt á meðan Guta rámar í að hafa orðið fyrir barðinu á nýnasistum. Þegar mönnunum tveimur tekst loks að leysa sig úr prísundinni fer af stað hlægileg framvinda og ólíkleg vinátta sprettur upp úr 4.000 kílómetra ferðalagi. Þegar Sig kynnist ónytjungum sem jafnframt eru vinir Guta fer hann að rifja upp sögur um huldufólk – hjátrúarverur heimalandsins.
Myndin er í leikstjórn hins slóvenska Miha Hočevar, en Ólafur Darri segir kvikmyndaferlið í Slóveníu hafa verið ánægjulegt. Hidden People verður frumsýnd á RIFF þann 27. september kl.19.

Ísland, land sprakka (Iceland Sprakkar Land)
Í áratugi hefur Ísland staðið í viðstöðulausum endurnýjungum undir áhrifum framtaksamra kvenna, eða sprakka. Þrjár þeirra – forsætisráðherra, talskona nýju stjórnarskránnar, og framsækin viðskiptakona – takast á við alþjóðlegar áskoranir og gera Ísland að tilraunastofu vonar á meðan heimurinn stefnir í óreiðu.
Ísland, land sprakka er heimildarmynd úr smiðju Doris Buttignol sem er þekkt fyrir listræna kvikmyndagerð sína í Kanada. Í myndinni má sjá Katrínu Jakobsdóttur fyrrverandi forsætisráðherra, Katrínu Pétursdóttur forstjóra Lýsis hf. og Katrínu Oddsdóttur, lögfræðing og stjórnarformann félagasamtakanna Réttindi barna.
Heimildarmyndin er hluti af flokknum Ísland í sjónarrönd á RIFF og verður frumsýnd í Háskólabíói þann 28. september kl. 20:20.

Síðasti bærinn í Reykjavík (Last Farm in Reykjavik)
Í listrænni heimildamynd bandaríska leikstjórans Brandon Morgan er saga Gunnþórs Sigurðssonar rakin og vegferð hans frá sveitastrák til pönkara og að endingu sem hálfgert líkneski pönktímabilsins. Gunnþór starfar á pönksafninu við Bankastræti þar sem áður var almenningssalerni. Á meðan hann horfist í augu við gamlar og grafnar tilfinningar blasa tveir valkostir við – að vera áfram táknmynd fortíðar eða fagna framtíðinni með fjölskyldu og vænum skammti af nýtilfundnu sjálfsmildi.
Myndin verður sýnd á alþjóðlegri kvikmyndahátíð í Buffalo, New York en heimsfrumsýning fer fram á RIFF þann 29. september kl. 19:00
Alþjóðleg kvikmyndahátíð í Reykjavík fer fram sem fyrr segir frá 25.sept. til 5.okt.
