LOKAMYND RIFF 2025

Alþjóðleg kvikmyndahátíð í Reykjavík kynnir með stolti að stórmyndin The Wizard of the Kremlin verður lokamynd RIFF í ár. Hér segir frá hæglátum manni sem fáir telja líklegan til afreka í lífinu. Samt fer það svo að þegar upp er staðið hefur vinnuframlag hans haft úrslitaáhrif á sögu heimsveldis–og heimsins alls.
Við erum stödd í Rússlandi á árunum eftir 1990. Sovétríkin eru liðin undir lok og heimsmynd Kalda stríðsins er gerbreytt. Rússland er á ákveðnum byrjunarreit en ómögulegt er að segja til um hvort það stefnir í átt að umbótum eða glundroða. Framúrstefnulistamaðurinn Vadim Baranov er flinkur á sínu sviði en enginn–nema ef vera skyldi lítt þekktur en slyngur nýliði á pólitíska sviðinu, með skuggalegan bakgrunn frá leyniþjónustunni, að nafni Vladimír Pútín–gat séð fyrir að Baranov myndi beisla eigin sköpunarkraft í þágu ríkisins sem raun bar vitni og verða mikilvægasti ímyndarsmiður og spunameistari Kremlar. Það eru hendur þessa manns sem smíða nýja ímynd Rússlands á bakvið tjöldin og það sem meira er, hann brúar bilið fyrir Pútín frá höfuðstöðvum FSB til Kremlar. Framhaldið þekkja Rússar, og heimurinn allur.

Löngu síðar, þegar Baranov hefur legið í láginni í áravís, aldinn og öllum gleymdur, fellst hann á að segja frá þessum örlagaríka tíma og því skuggalega gangverki sem mallar að baki pólitískri maskínu Pútíns. Hér birtist ekki bara játning iðrandi manns heldur sláandi hugleiðing um það hvernig véla má um almenningsálit með bellibrögðum, hvernig valdið táldregur og spillir, og hvar raunveruleg sök liggur í lok dags.
Töframaðurinn frá Kremlin er pólitískt spennudrama í leikstjórn Olivier Assayas, sem þekktur er fyrir myndir sínar Personal Shopping (2016), Clouds of Sils Maria (2014) og Wasp Network (2019). Með hlutverk spunameistarans Baranov fer Paul Dano, sem allir muna fyrir frammistöðu sína sem tvíburarnir Paul og Eli Sunday í There Will Be Blood(2007). Það er svo sjálfur Jude Law sem fer með hlutverk Vladimírs Pútín en önnur helstu hlutverk fara þau Alicia Vikander, Jeffrey Wright og Tom Sturridge.
Leikstjórinn Olivier Assayas verður viðstaddur sýningu myndarinnar 2. október og tekur þátt í umræðum um myndina í kjölfarið.
