,,Ég er gjörsamlega hugfanginn af Apichatpong Weerasethakul” segir leikstjórinn Paul Thomas Anderson, sem er þekktur fyrir stórmyndir eins og There Will Be Blood, Phantom Thread og The Master. Anderson hefur unnið með leikurum á borð við Leonardo DiCaprio og Daniel Day Lewis, en segist óska þess að geta einn daginn kvikmyndað eitthvað í líkindum við það sem til verður í hugarfylgsnum tælenska leikstjórans Apichatpong Weerasethakul.
Tælenski leikstjórinn, sem einnig er þekktur sem Joe, verður viðstaddur á Alþjóðlegri kvikmyndahátíð í Reykjavík og sýnir hvorki meira né minna en þrjár myndir. Apichatpong hefur verið á mikillri siglingu með myndir sýnar um stjörnuhiminn kvikmyndagerðar.
Á RIFF fá gestir tækifæri til þess að sjá eina af hans frægari myndum, Memoria, þar sem Tilda Swinton fer með aðalhlutverk. Í myndinni ráfar karakter Swinton um götur Bogotá í Kólumbíu, á flótta undan hljóði sem enginn virðist heyra nema hún. Memoria frá árinu 2021 er framandi, fögur og draumkennd kvikmyndaupplifun þar sem minningar og ímyndun mætast, en leikstjórinn hefur einmitt sérstakt lag á því að skrifa sögur á mörkum raunveruleika og ímyndaða heima.
Meistaraverk Apichatpong, Uncle Boonme Who Can Recall His Past Lives, verður einnig sýnd á RIFF. Myndin segir frá síðustu dögum Boonme frænda, þar sem tíminn verður óræður og draugar birtast úr móðu minninga. Myndin hlaut gullpálmann á Cannes árið 2010 og samkvæmt gagnrýnendum Guardian er hún ómissandi andleg upplifun sem lætur engan ósnortinn.
Paul Thomas Anderson er ekki eini stórleikstjórinn sem er hrifinn af myndum Apichatpong, en Martin Scorcese hefur nefnt fyrstu mynd tælenska leikstjórans í fullri lengd sem eina af hans uppáhaldsmyndum. A Mysterious Object At Noon verður einnig varpað upp á hvíta tjaldið í Háskólabíói, en um er að ræða svipmynd af Taílandi um síðustu aldamót á mörkum heimildamyndagerðar og skáldskapar.
Kvikmyndaunnendum og gestum RIFF gefst einnig tækifæri á að sitja meistaraspjall með leikstjóranum þann 30.september, í kjölfar sýningar á myndinni Memoria.
Alþjóðleg kvikmyndahátíð í Reykjavík – RIFF stendur yfir dagana 25. september til 5. október.
