
Gunnar Magnússon þekkja flestir Íslendingar sem eitt af stærstu nöfnunum í íslenskri hönnunarsögu. Verk hans og húsgögn hafa vakið mikla athygli erlendis og hefur hann starfað með nokkrum af fremstu hönnuðum Dana, eins og Børge Mogensen, auk þess að hafa náð góðum árangri á alþjóðlegum hönnunarsamkeppnum á sjöunda áratugnum. Hann snéri heim til Íslands með fjölskylduna 1964 þar sem hann stofnaði eigin teiknistofu og vann í fjóra áratugi að fjölmörgum verkefnum fyrir fjölskyldur og fyrirtæki, til dæmis fyrir Hótel Holt, Kennaraháskólann, Alþingi og banka.
Í þessari hugljúfu heimildarmynd danska kvikmyndagerðarmannsins Mathias Skaarup fáum við einstaka innsýn í líf og störf þessa frumherja í íslenskri hönnunarsögu. 85 ára að aldri hefst Gunnar handa við að skapa sitt síðasta verk, með Tinnu dóttur sína og hönnuð sér við hlið. Saman leggja þau af stað í þá vegferð að endurtúlka eitt af sígildu verkum Gunnars, og ætla sér að draga saman ævilangt handverk hans og starf. Þegar heilsu Gunnars hrakar skyndilega stendur Tinna ein eftir með það fyrir höndum að ljúka verkinu – á sama tíma þarf hún að horfast í augu við yfirvofandi fráfall föður síns.
Síðasta verk Gunnars er tilfinningarík saga arfleiðar og nærmynd af sambandi feðgina sem hafa sett mark sitt á íslenskt hönnunarumhverfi.
