Search
Close this search box.

LEITA

Search
Close this search box.

Stærsta bíó landsins opnað um næstu helgi! 

 

Veðurguðirnir hliðhollir bílabíói á laugardaginn

Upplifðu einstaka stund í besta sætinu

 

Kæra kvikmyndaáhugafólk,

Við minnum á bílabíóið sem hefst um helgina! Nú er loksins komið að því að ræsa vélarnar og festa öryggisbeltin, því bílabíó RIFF verður endurvakið næsta laugardag, 21. september klukkan 15:30, og stendur fram á nótt með sýningu fjögurra sígildra mynda fyrir fólk á hvaða aldri sem er.

Við lofum einstakri stemningu í Víðidal, hvort heldur gestir mæta á bíl eða hesti, hjóli eða stól, því reynslan er að allir syngja með, hver með sínu nefi.  

Matarvagnar ásamt að sjálfsögðu popp og gosi verða á staðnum til að gera upplifunina enn betri í þessum stærsta bíósal landsins í Víðidal!

Sýndar verða fjórar sívinsælar bíómyndir að þessu sinni – og fyrir þá sem eru í bílum er einfalt að tengja útvarpið við rétta rás – og njóta svo bara í botn:

15:30 – BRÓÐIR MINN LJÓNSHJARTA 106 MÍN

Sænska myndin sem sló í gegn 1977 í leikstjórn Olle Hellblom og fjallar um viðureign bræðranna Karls og Jónatans við Þengil grimma og svartklæddu riddarana hans.

18:00 – MEÐ ALLT Á HREINU 99 MÍN

Sú ógleymanlega söngvamynd Ágústs Guðmundssonar frá 1982 þar sem liðsmenn Stuðmanna og Grýlanna fara á kostum í keppni tveggja hljómsveita sem fara um landið.

20:15 DRAUGASAGA 64 MÍN

Kynngimögnuð ræma Viðars Víkingssonar frá 1985 um læknanema sem tekur að sér næturvörslu í sjónvarpshúsi og kryddar þar sögur um meinta reimleika á staðnum.

21:30 TILBURY 53 MÍN

Önnur mynd úr fórum Viðars frá 1987 um sveitastrák á stríðsárunum sem horfir á eftir ástinni sinni í hendur hermanns, sem er kannski, þegar allt kemur til alls, bara tilberi.

TAKTU FRÁ LAUGARDAGINN 21. SEPTEMBER Í VÍÐIDAL

Bílabíó RIFF gerir bíóupplifunina aðgengilega fyrir alla. Íslenskur texti verður við hverja mynd og sérmerkt stæði fremst við skjáinn fyrir bíógesti með fötlun sem fá 20% afslátt.

Fullt verð fyrir hvern bíl 4990 krónur.

Sjálf kvikmyndahátíðin hefst svo í Háskólabíó

26. september og stendur til 6. október.

 

Bong Joon-ho er heiðursgestur RIFF! 

Handhafi þrennra Óskarverðlauna

 

 

Suður-Kóreski kvikmyndaframleiðandinn, handritshöfundurinn og leikstjórinn Bong Joon-ho er heiðursgestur á RIFF í ár og mun ávarpa samkunduna í krafti fjarfundabúnaðar eftir sýningu á einni mynd hans, The Host og svara spurningum áhorfenda.

Bong hefur farið með himinskautum í kvikmyndagerð sinni um árabil, enda er hann þegar handhafi þrennra Óskarsverðlauna fyrir verk sín sem þykja einkennast af innbyrðis átökum stétta og kynja, svörtum galsa og sviptingum í framvindu myndanna. 

Hann vakti þegar í stað athygli fyrir kaldranalega kerskni sína í frumrauninni, Barking Dogs Never Bite frá árinu 2000, og var hlaðinn lofi gagnrýnenda fyrir næstu myndsína, glæpatryllinn Memories of Murder sem kom út þremur árum síðar og hreinlega skóflaði gestum inn í kvikmyndahúsin.  

Umskipti urðu á ferli hans 2013 þegar hann sendi frá sér fyrstu myndina á ensku, vísindaskáldsöguna Snowpiercer sem hann fylgdi eftir með gamansömu hrollvekjunni Parasite fyrir fimm árum, en hún er ábatasamasta bíómynd í sögu nokkurs kóresks kvikmyndaleikstjóra.

Gestum RIFF býðst að sjá tvær myndir eftir Bong Joon-ho, skrímslamyndina The Host frá 2006 og neo-noir spennumyndina The Mother frá árinu 2009 sem sýnd verður í svarthvítri útgáfu.

Parasite hlaut bæði Gullna pálmann í Cannes 2019 og Óskarsverðlaunin sem besta myndin, fyrir bestu leikstjórnina og besta frumsamda handritið.

Svíþjóð er í fókus RIFF í ár!

Frábært úrval fjölbreytta mynda frá frændum okkar

Sex sænskar kvikmyndir, sem eiga það sammerkt að hafa verið frumsýndar á þessu ári eða því síðasta, setja Svíþjóð í fókus á kvikmyndahátíðinni í ár, fyrir nú utan það augljósa að með sýningu þeirra í Háskólabíói fá gestir smjörþefinn af því besta og ferskasta sem er að gerast í sænskri kvikmyndagerð.

Að öðrum leikstjórum ólöstuðum má sjálfsagt segja að sýning á nýjasta verki Lukas Moodysson vekji mesta eftirtekt, en þar er á ferðinni myndin Together 99 sem er framhald á verki hans frá því fyrir meira en tveimur áratugum og fjallaði um sænska hippa í leit að sjálfum sér á því herrans ári 1975, en finna hvorki trúna né tilganginn með lífinu.

Í nýju myndinni hittum við sama liðið fyrir, en næstum aldarfjórðungi seinna – og andinn og ástúðin sem áður sveif yfir vötnum hefur heldur kólnað. Í umsögn The Guardian um Together 99 segir að ætla megi að Moodysson hafi leikstýrt myndinni í samfelldu hláturskasti, sem segir auðvitað nokkuð um innihaldið.

Aðrir sænskir leikstjórar sem eiga myndir í þessum flokki eru Levan Akin sem sýnir okkur Crossing (Krossgötur), Loran Batti er með verkið G – 21 Scenes from Gottsunda (Í innsta hring), Sarah Gyllenstierna kemur með mynd sína Hunters on a White Field (Veiðimenn á vonarvöl), Peter Pontikis er með Bullets (Skot) og Neil Wigardt með Blomster (Sjálfsleit).

header: Við hlökkum til að sjá þig á RIFF 2024! 

riff banner

Facebook
Twitter
LinkedIn
Email