Riff Logo
Riff Dates (from 24-September-2026 to 04 october 2026)
53253174355 fda2efd607 o 1 3

ALÞJÓÐLEG KVIKMYNDAHÁTÍÐ Í REYKJAVÍK

RIFF – Alþjóðleg kvikmyndahátíð í Reykjavík – er meðal stærstu og fjölbreyttustu menningarviðburða í landinu. RIFF er sjálfstæð og óháð hátíð sem rekin er án hagnaðar. Starfsfólk RIFF vinnur allan ársins hring við undirbúning en þegar nær dregur hátíð kemur inn fjöldi sjálfboðaliða frá öllum heimshornum og á hátíðin þeim mikið að þakka.

Í ellefu daga á hverju hausti flykkjast Íslendingar í bíó til að sjá það besta og ferskasta í alþjóðlegri kvikmyndagerð. Enn fremur býðst gestum að spjalla við leikstjóra um verk sín, sækja málþing og fyrirlestra, tónleika og listasýningar, og að sjá kvikmyndir við óhefðbundin skilyrði –  í sundi, í helli eða í stofunni hjá þekktum kvikmyndagerðarmanni!

Dagskráin setur unga kvikmyndagerðarmenn og framsækna kvikmyndagerð á oddinn. Aðalverðlaun hátíðarinnar, Gyllti lundinn, eru til dæmis tileinkuð kvikmyndagerðarmanni fyrir sína fyrstu eða aðra mynd.

RIFF er ekki síður mikilvægur vettvangur fyrir íslenska kvikmyndagerðarmenn til að kynna verk sín fyrir umheiminum. Fjöldi erlendra blaðamanna og bransafólks sækir hátíðina ár hvert og áhugi þeirra á því að kynna sér íslenskar kvikmyndir leynir sér ekki.

Hátíðin reynir að sýna framleiðslu liðins árs, frumsýna nýjustu myndirnar og gera íslenskri stuttmyndagerð hátt undir höfði. Besta íslenska stuttmyndin fær verðlaun frá RÚV, sem kaupir sýningarrétt hennar, en Gullna eggið kemur í hlut bestu stuttmyndarinnar sem tekur þátt í Kvikmyndasmiðju RIFF [e. Talent lab.]

Við hjá RIFF trúum við því að bíó geti breytt heiminum. Heimildarmyndir skipa sífellt stærri sess í dagskrá hátíðarinnar og leiknar myndir sem láta sig sérstaklega varða mannréttindi, lífsgæði og umhverfismál fá ríkulegt pláss.

Sjáumst í bíó!

RIFF ALLT ÁRIÐ

RIFF heldur úti starfsemi 12 mánuði ársins – viðburðir og verkefni hátíðarinnar eiga sér stað allan ársins hring víða um land.

RIFF leggur sérstaka áherslu á kvikmyndir sem fræðsluefni fyrir börn og unglinga. Árlega býðst leik- og grunnskólum landsins að taka þátt í ókeypis skóladagskrá, sem samanstendur af fimm stuttmyndapökkum fyrir fimm aldurshópa – allt frá tveggja ára leikskólabörnum upp í 15 ára nemendur. Hver pakki inniheldur fjölbreyttar stuttmyndir ásamt stuðningsefni um tungumál, umhverfismál, jafnrétti og menningarlega fjölbreytni. Alls eru sýndar um 30 stuttmyndir á hverju ári, og allt að 50.000 börn um land allt hafa aðgang að þessum myndum. RIFF sér einnig um að texta myndirnar sem eru aðgengilegar á skólavefnum Norden i Skolen, en þær eru í boði fyrir íslenska skóla allt árið.

RIFF hefur á síðustu árum haldið kvikmyndasmiðjur og námskeið fyrir börn og unglinga víða um land, meðal annars í Reykjavík, Reykjanesi, Borgarnesi, Múlaþingi, Egilsstöðum, Hveragerði, Ísafirði, Flateyri og Suðureyri.

Ásamt skólastarfi heldur RIFF kvikmyndasýningar á fjölmörgum stöðum utan höfuðborgarsvæðisins, meðal annars á Akureyri, Seyðisfirði, Sauðárkróki, Ísafirði og Akranesi. Þá hefur RIFF bíóbíllinn tvívegis farið í kvikmyndatúr um landið með viðkomu í skólum víða. 

Sérstakir viðburðir  sundbíóhellabíó og bílabíó eru einnig haldnir reglulega. RIFF stendur einnig fyrir opnum sýningum á kvikmyndum sem eiga erindi við samtímann, líkt og myndin 21 Sena frá Gottsunda, sem sýnd var nemendum á unglingastigi í Álfabakkabíói vorið 2025.

SÖGULEGUR BAKGRUNNUR OG STAÐSETNING

 SAGA

Alþjóðleg kvikmyndahátíð í Reykjavík – RIFF, var stofnuð árið 2004. Stofnendur voru Hrönn Marinósdóttir ásamt hópi kvikmyndaáhugamanna, sem sáu fyrir sér hátíð sem kynni að brúa menningarmun, efla íslenska kvikmyndagerð á alþjóðavettvangi og skapa rými fyrir ungt hæfileikafólk til að koma verkum sínum og hæfileikum á framfæri. Sá draumur hefur nú ræst. RIFF hefur vaxið hratt, er ein stærsta menningar- og borgarhátíð á Íslandi og laðar nú að sér kvikmyndagerðarmenn og kvikmyndaunnendur frá öllum heimshornum.

Á rúmum tveimur áratugum hefur RIFF tekið á móti fjölda virtra heiðursgesta, þar á meðal má nefna fræga leikstjóra á borð við Milos Forman, Werner Herzog, Darren Aronofsky og Jim Jarmusch. Fjöldi hæfileikafólks á heimsmælikvarða hefur þannig lagt sitt af mörkum til að byggja upp orðspor hátíðarinnar sem lykilhátíð fyrir frumlegar og framsæknar kvikmyndir.

Óskarsverðlaunamyndin „Poor Things,“ eftir leikstjórann Yorgos Lanthimos, er listrænt og áhrifaríkt verk sem vakti hylli gagnrýnenda og almennings um allan heim. Myndin var sérstaklega forsýnd á RIFF, en hátíðin er í sérstöku uppáhaldi hjá gríska leikstjóranum.

Auk þessara nafntoguðu gesta hefur RIFF, ár eftir ár, sameinað fjölbreyttan hóp kvikmyndagerðarmanna, leikara og fagfólks úr kvikmyndaheiminum og myndað líflegt og frjósamt samfélag sem getið hefur af sér dýrmæt tengsl og skapað jarðveg fyrir árangursríkt samstarf.

Eitt sérkenna RIFF er áhersla á að skapa eftirminnilegar og öðruvísi upplifanir fyrir gesti. Þetta kemur fram í ýmsum sérviðburðum hátíðarinnar, sýningum á óhefðbundnum stöðum eins og sundlaugum, í náttúrunni, á söguslóðum og jafnvel í heimahúsum. Þessar einstöku sýningar og einstakur mannauður sem sameinast um að láta þær verða að veruleika, gera RIFF að menningarhátíð í sérflokki.

 STAÐSETNING

Miðstöð RIFF árið 2024 er Háskólabíó, sögufrægt kvikmyndahús í Reykjavík sem byggt var árið 1961. Háskólabíó skapar fullkomna umgjörð fyrir fjölbreytta dagskrá hátíðarinnar. Bíóið hefur lengi verið einn af hornsteinum menningarlífs í Vesturbæ Reykjavíkur og hýsir fjölbreytta viðburði frá kvikmyndasýningum til tónleika og sérviðburða af ýmsu tagi.

Auk Háskólabíós býður RIFF upp á sýningar og viðburði á ýmsum stöðum víðsvegar um borgina. Norræna húsið, teiknað af hinum heimsfræga finnska hönnuði Alvar Alto, er annar af lykilstöðum hátíðarinnar þar sem boðið er upp á sérviðburði í hjarta borgarinnar, með einstaka nálægð við náttúruna í Vatnsmýrinni. Bókasöfn og hjúkrunarheimili eru einnig nýtt sem sýningar- og viðburðastaðir, sem tryggir að RIFF gegni hlutverki sínu, bjóði upp á bíó fyrir alla og nái til breiðs og fjölbreytts hóps.

RIFF hefur skuldbundið sig til að tryggja aðgengi sem flestra að hátíðinni með ráðningu aðgengisfulltrúa, nýrri aðgengisstefnu og gerð sjálfbærnistefnu. RIFF Around Town verkefnið er til að mynda liður í því að auka aðgengi að hátíðinni, þar sem sýningarnar ferðast inn á staði eins og bókasöfn, hjúkrunarheimili og jafnvel fangelsi.

Skrifstofa RIFF er til húsa að Tryggvagötu 26, 101 Reykjavík, 3. hæð.

HEIÐURSGESTIR 2025

riff 2025 squaring the circle the story of hipgnosis director s portrait hi res 0 2645906

ANTON CORBIJN

Anton Corbijn, heiðursgestur RIFF 2025, er einn áhrifamesti ljósmyndari og kvikmyndagerðarmaður síðustu áratuga, og hefur með einstakri nálgun sinni endurmótað tengsl ljósmyndar, tónlistar og kvikmynda. Hann er hvað þekktastur fyrir hráar og persónulegar ljósmyndir af tónlistarfólki—myndir sem líkjast frekar samtali en uppstilltum portrettum. En list hans nær langt út fyrir ljósmyndina: hann hefur leikstýrt mörgum af eftirminnilegustu tónlistarmyndböndum síðustu 40 ára og í framhaldinu þróað með sér sérstakan stíl í kvikmyndagerð þar sem myndmálið og stemningin eru í aðalhlutverki. Á tímum hraða og einnota upplifunar býður Corbijn upp á andstæðuna: kyrrð, íhugun og djúpa tilfinningu sem situr eftir. Hann sýnir okkur ekki bara hvernig manneskjur líta út—hann fangar kjarna fólks sem birtist annars bara þegar enginn er að horfa.

kim novak 1

KIM NOVAK

Kim Novak, leikkona og ein af goðsögnum gullaldar Hollywood, setti mark sitt á kvik- myndasöguna í verkum sem áfram lifa góðu lífi á hvíta tjaldinu. Hún fæddist í Chicago árið 1933 og steig sín fyrstu skref í Hollywood um miðjan sjötta áratuginn. Novak skaust upp á stjörnuhimininn, ekki einungis sem tákn fegurðar og dularfulls glæsileika, heldur sem listamaður sem bjó yfir einstöku næmi til að miðla brothættum kjarna á bak við glamúrinn. Ferill hennar spannar fjölmörg eftirminnileg hlutverk, en hún er ef til vill oftast tengd við meistaraverk Alfred Hitchcock, Vertigo (1958). Þar skapaði hún eitt flóknasta og áhrifamesta kvenhlutverk kvikmyndasögunnar. Novak starfaði með fleiri risum kvikmyndasögunnar á borð við Otto Preminger, Billy Wilder og Sidney Lumet, og sannaði með hverri frammistöðu sína mikla leikhæfileika. Kim Novak er þó meira en kvikmynda- stjarna. Hún er táknmynd tímabils þegar kvikmyndin var í senn stórbrotin list og leiksvið ímyndunaraflsins. Með verkum sínum hefur hún veitt kynslóðum áhorfenda innblástur og minnir okkur á að á bak við goðsögnina leynist ávallt kjarni mannlegra tilfinninga.

Ursula Meier pic

URSULA MEIER

Ursula Meier er meðal áhrifa- og áhuga- verðustu leikstjóra svissneskrar samtímakvikmyndagerðar. Hún fæddist í Besançon í Frakklandi árið 1971, en hefur alla tíð starfað hinum megin landamæranna, og persónuleg sýn hennar sameinar frönsku og svissnesku kvikmyndahefðirnar á einstakan hátt. Í myndum hennar má finna bæði næmni og pólitíska dýpt, þær kanna tengsl fjölskyldu, samfélags og einstaklings með blöndu af hlýju, húmor og samfélagsgagnrýni. Meier hefur jafnframt unnið til fjölda verðlauna fyrir stuttmyndir sínar og heimildaverk og er nú orðin ein af fyrirmyndum næstu kyn- slóðar kvikmyndagerðarfólks. Hún sameinar skarpt auga fyrir smáatriðum og næmt innsæi í mannlega breyskleika og skapar þannig kvik- myndir sem hreyfa við áhorfendum á sama tíma og þær varpa ljósi á samtímann.

Mohsen Makhmalbaf Iranian Film Director scaled

MOHSEN MAKHMALBAF

Mohsen Makhmalbaf er lykilpersóna í íranskri kvikmyndagerð, löngum hylltur fyrir djarfa frásagnarlist og ekki síður fyrir þátt sinn í að móta hina alþjóðlega viðurkenndu írönsku nýbylgju. Makhmalbaf, sem er sjálfmenntaður kvikmyndagerðarmaður og fyrrverandi stjórnmálaaktívisti, hefur byggt feril sinn á ljóðrænum verkum þar sem spilast saman mannúð og þung, pólitísk undiralda. Þar má telja myndir á borð við The Peddler (1987), Gabbeh (1996) og Kandahar (2001) — sú síðastnefnda færði honum heimsfrægð. Makhbalbaf hefur alla tíð verið ákafur talsmaður tjáningarfrelsis og hefur óspart beitt mætti kvikmyndalistarinnar í þágu málstaðarins. Fyrir bragðið hefur Makhmalbaf og verk hans ekki átt upp á pallborðið hjá stjórnvöldum í heimalandinu og fjölskylda hans verið í útlegð frá Íran um langt árabil. Nýrri verk Mohsens, á borð við The President (2014), bera einkenni hans; dæmisögulega frásögn og siðferðislega brýningu. Hann hefur veruið heiðraður í Cannes, Feneyjum og Berlín, og stendur enn sem einn af mikilvægustu og hugrökkustu röddum samtímans í heimi kvikmyndanna.

01 Marziyeh Meshkiny Iranian Film Director scaled

MARZIYEH MESHKINY

Marziyeh Meshkiny er áberandi rödd í íranskri kvikmyndagerð og ein áhrifamesta kvenleikstýra Mið-Austurlanda. Hún hóf feril sinn innan Makhmalbaf Film House, listasmiðju sem hún rekur ásamt eiginmanni sínum, leikstjóranum Mohsen Makhmalbaf, og börnum þeirra. Fyrsta mynd hennar, The Day I Became a Woman (2000), var frumsýnd á kvikmyndahátíðinni í Feneyjum þar sem hún hlaut bæði verðlaun og lof gagnrýnenda fyrir einstaka blöndu ljóðrænnar frásagnar og félagslegrar skýrleika. Myndin er í dag talin lykilverka írönsku nýbylgjunnar. Meshkiny hefur síðan unnið sér sess sem listamaður sem þorir að takast á við viðkvæm málefni – stöðu kvenna, kynhlutverk og rétt til sjálfsákvörðunar. Hún leikstýrði einnig Stray Dogs (2004), sem vakti athygli fyrir átakanlega mynd af börnum í stríðshrjáðri Kabúl. Verk hennar endurspegla bæði nánd og samkennd en eru á sama tíma hárbeitt gagnrýni á óréttlæti og kúgun. Sem hluti af útlægri fjölskyldu Makhmalbaf heldur Meshkiny áfram að starfa á alþjóðavettvangi. Hún stendur í dag sem mikilvæg rödd kvikmyndalistarinnar – og sem fyrirmynd nýrrar kynslóðar kvenleikstjóra.

AW portraits 01 scaled

APICHATPONG WEERASETHAKUL

Apichatpong Weerasethakul, sem heiðraður verður á RIFF í ár fyrir einstaka listræna sýn, er meðal frumlegustu og róttækustu kvikmyndagerðarmanna sam- tímans., Hann fæddist í Bangkok árið 1970 og ólst upp í norðausturhluta Taílands. Hann lærði arkitektúr áður en hann hélt til Chicago í kvikmyndanám, þar sem hann þróaði sinn einstaka stíl sem snýst um minni, tilfinningu og andlega leit frekar en hefðbundinn, línulegan söguþráð. Þó myndir Apichatpong—sem er af aðdáendum jafnan kallaður Joe—megi virðast ópólitískar við fyrstu sýn, endurspegla þær oft undirliggjandi átök: ritskoðun, félagslegt taumhald og sögu kúgunar í Taílandi. Hann miðlar fremur með stemningu en yfirlýsingum — kvikmyndir hans líkjast oft draumum sem maður man aðeins til hálfs.

SPINNE Silvan Ramon Zurcher Iris Janke scaled e1758213254826

RAMON & SILVAN ZÜRCHER

Tvíburarnir Ramon og Silvan Zürcher tilheyra þeirri nýju kynslóð svissneskra kvikmyndagerðarmanna sem hefur vakið heimsathygli fyrir einstaka sýn og listrænan kjark. Þeir fæddust árið 1982 og hafa unnið saman að kvikmyndum frá upphafi ferils síns. Í verkum þeirra má finna listilega mótað sjónarhorn þar sem smáatriðin ráða ríkjum og hið hversdagslega verður uppspretta leyndardóma, tilfinninga og húmors. Fyrsta kvikmynd þeirra í fullri lengd, The Strange Little Cat (2013), var frumsýnd á Berlínarhátíðinni og vakti þegar í stað geysimikla athygli fyrir nýstárlega nálgun sína og nákvæma myndbyggingu. Með The Girl and the Spider (2021) héldu þeir áfram að þróa einstakan stíl sinn, og hlaut myndin mikla viðurkenningu, þar á meðal verðlaun fyrir bestu leikstjórn á Berlinale 2021. Myndir þeirra eru þekktar fyrir að fanga það ósýnilega í mannlegum samskiptum, það sem býr í augnablikum, rýmum og þögn. Zürcher-bræðurnir skapa kvikmyndir sem eru á sama tíma viðkvæmar og leikandi, og sýna hvernig hið smæsta getur orðið að stórri kvikmyndaupplifun.

VERÐLAUN OG DÓMNEFNDIR

VITRANIR

Mohsen Makhmalbaf

Mohsen Makhmalbaf

Mohsen Makhmalbaf er lykilpersóna í íranskri kvikmyndagerð, hylltur fyrir djarfa frásagnarlist og þátt sinn í að móta hina alþjóðlega viðurkenndu írönsku nýbylgju. Makhmalbaf er sjálfmenntaður kvikmyndagerðarmaður og fyrrverandi stjórnmálaaktívisti, en ferill hans spannar fjóra áratugi, 20 kvikmyndir í fullri lengd og 30 bækur. Hann hefur verið heiðraður í Cannes, Feneyjum og Berlín, og stendur enn sem einn af mikilvægustu og hugrökkustu röddum samtímans í heimi kvikmyndanna.

Giona A. Nazzaro

Giona

Giona A. Nazzaro er listrænn stjórnandi Locarno kvikmyndahátíðarinnar í Sviss og hefur lengi starfað sem dagskrárstjóri og gangrýnandi. Hann hefur einnig komið að fjölmörgun öðrum alþjóðlegum kvikmyndahátíðum og skrifað bækur um bíó. Þar má nefna rannsóknir hans um kvikmyndagerð í Hong Kong.

Saga Garðarsdóttir

Saga Garðarsdóttir

Saga Garðarsdóttir er leikkona, bráðfyndinn uppistandari og handritshöfundur. Hún útskrifaðist úr Listaháskóla Íslands og hefur síðan komið fram bæði í sjónvarpi og í kvikmyndum og hlotið verðlaun fyrir handritskrif. Síðasta hlutverk hennar er hlutverk Önnu í kvikmynd Hlyns Pálmasonar Ástin sem eftir er.

ÖNNUR FRAMTÍÐ

Jónas Margeir Ingólfsson

Jónas

Jónas Margeir Ingólfsson er íslenskur höfundur, framleiðandi og lögfræðingur. Hann er stjórnandi framleiðslufyrirtækisins ACT4 og hefur einnig veitt lögfræðiráðgjöf við fjölmörg íslensk kvikmyndaverkefni. Nafn hans má finna á kreditlistum verkefna á borð við Reykjavík Fusion, Ráðherrann og Stellu Blómkvist.

Fiorella Moretti

2023 05 04 COMMANDE - Luxbox - Portrait equipe - 1545 - BASS DEF - copie

Fiorella Morretti er forseti og meðstofnandi sölufyrirtækið Luxebox í París sem þekkt er fyrir einstaklega sterkan katalóg af myndum hvaðanæva að úr heiminum. Hún var fyrrum við störf hjá Mantarraya, einu af stærri framleiðslufyrirtækjum Suður-Ameríku og bíður því upp á djúpa þekkingu og reynslu á dreifingu og samneyti við merka kvikmyndagerðarmenn.

Pipaluk K. Jørgensen

Pipaluk Polarama scaled e1757691714665

Pipaluk Kreutzmann Jørgensen er verðlaunaleikstjóri frá Grænlandi, framleiðandi og höfundur. Hennar fyrsta mynd í fullri lengd, Anori (2018) var sú fyrsta í Grænlandi sem leikstýrð er af konu og var margverðlaunuð á hátíðum um allan heim. Hún var meðleikstjóri stuttmyndarinnar Ivalu sem tilnefnd var til Óskarsins og er stofnandi Alþjóðlegu kvikmyndahátíðarinnar í Nuuk.

ALÞJÓÐLEGAR STUTTMYNDIR

Daniel Hadenius-Ebner

Daniel Hadenius Ebner e1757691807570

Daniel Hadenius-Ebner er austurrískur menningarjöfur og listrænn stjórnandi sem býr yfir 20 ára reynslu innan landslags stuttmyndagerðar. Sem meðstofnandi og stjórnandi stuttmyndakeppninnar í Vín til margra ára hefur hann sett mark sitt á þróun menningar, dreifingu og samstarf Evrópuþjóða í stuttmyndagerð.

Erlendur Sveinsson

Erlendur Sveinsson Portrait e1757692106898

Erlendur Sveinsson er margverðlaunaður kvikmyndagerðarmaður sem hefur sýnt myndir sínar á yfir 100 hátíðum um allan heim. Hann hlaut Fullbright styrk til kvikmyndanáms í Columbia háskólanum í New York og er sérstaklega þekktur fyrir tónlistarmyndbönd fyrir tónlistarfólk eins og Laufey og Of Monsters and Men.

Kahina Ben Amar

Kahina Ben Amar scaled e1757937305940

Kahina Ben Amar sat háttvirt námskeið í kvikmyndagerð við La Fémis í Frakklandi og er leikstjóri fleiri og fleiri stuttmynda. Hún hefur staðið fyrir námskeiðum í kvikmyndagerð fyrir börn og fullorðna og vinnur í dag að sinni fyrstu mynd í fullri lengd, en verkefnið hóst á meðan dvöl hennar stóð í kvikmyndaresidensíunni við France-Korea kvikmyndaakademíuna.

ÍSLENSKAR STUTTMYNDIR

Lisa Hoen

lisa hoen

Lisa Hoen er hátíðar- og dagskrárstjóri Alþjóðlegu kvikmyndahátíðarinnar í Tromsø. Með margra ára reynslu við miðlun og menningarstörf er Hoen einnig menntuð í heimsspeki og kom sér á kortið hóf sjálf að gefa út menningartímarit í Tromsø.

Hjördís Jóhannsdóttir

Hjordis e1757937501601

Hjördís Jóhannsdóttir er Íslenskur leikstjóri og handritshöfundur. Hún hefur skrifað og leikstýrt fjölda stuttmynda bæði á Íslandi og í Los Angeles sem hafa verið sýndar á lofsungnum hátíðum um allan heim. Hjördís er með MFA gráðu frá California Institute of Arts.

Francisco Dias

francisco dias scaled e1757937700724

Francisco Dias er portúgalskur kvikmyndamaður og dagskrárstjóri bransaviðburða á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni Curtas Vila do Conde. Hann situr einnig í valnefnd keppnismynda á hátíðinni og starfaði áður við sölu og dreifingu hjá Luxbox í París. Hann hefur sjálfur leikstýrt fjölmörgum stuttmyndum.

GULLNA EGGIÐ

Rúnar Guðbrandsson

Runar e1757938091969

Rúnar Guðbrandsson er leikari og leiklistarkennari með víðtæka reynslu bæði á skjánum og á sviði. Þá má nefna Djúpið, Svartur á leik, Vitjanir og IceGuys. Hann var fyrsti kennarinn við leiklistardeild LHÍ og deildarstjóri leikaradeildar við Kvikmyndaskóla Íslands.

Gunnar Björn Guðmundsson

Gunnar e1757938161485

Gunnar Björn Guðmundsson er reynslumikill leikstjóri og handritshöfundur. Hann hefur leikstýr fjórum myndum í fullri lengd og skrifað og leikstýrt fjöldan allan af stuttmyndum, auglýsingum og sjónvaprsþáttum. Hann vann einnig við leikhúsin þar sem hann leikstýrði yfir fjörutíu sviðsverkum.

Ólöf Birna Torfadóttir

Olof scaled e1757938249869

Ólöf Birna Torfadóttir er handritshöfundur og leikstjóri tveggja kvikmynda og fleiri sjónvarpsþátta. Hún leikstýrði gamanmyndunum Top Tíu Möst og Hvernig á að vera klassa drusla, og er handritshöfundur þáttanna Skvíz sem sýndir voru í Sjónvarpi Símans. Hún vinnur nú að fleiri en einu sjónvarpsverkefnum sem fara af stað á næstu árum.

DÓMNEFND UNGA FÓLKSINS

Elín C. H. Ramette

Elín Ramette

Elín Ramette hefur unnið að yfir 30 stuttmyndum. Ferill hennar sveiflast á milli stórra framleiðslna og grasrótar menningar, með reynslu af alþjóðlegum kvikmyndahátíðum eins og Les Arcs og RIFF. Með samspil listrænnar sýnar og tæknilegrar sérfræðiþekkingar leggur hún áherslu á tilfinningu frekar en tæknina.

Brynjar Daðason

Brynjar Dadason e1757937877506

Brynjar Daðason (f.1999) er tónskáld, fjölhljóðfæraleikari og hljóðmaður. Ásamt því að hafa gefið út sína eigin tónlist hefur hann verið virkur í tilraunasenunni og unnið í tónlistardeildum fyrir kvikmyndir, bæði sem tónskáld og pródúser.

Ísak Hinriksson

Isak Hinriksson e1757937991663

Ísak Hinriksson er íslenskur kvikmyndagerðamaður sem hefur leikstýrt og unnið að gerð kvikmynda, sjónvarpsþátta, sviðlistaverka og tónlistamyndbanda. Stuttmyndin hans Sjoppa var frumsýnd á RIFF 2023 og síðar á Bamberg Stuttmyndahátíðinni. Um þessar mundir er hann með tvær heimildamyndir í bígerð og fleiri verkefni í þróun.