STEFNUR
RIFF-SKREF Í ÁTT AÐ GRÆNNI FRAMTÍÐ
Sjálfbærni er ekki aðeins markmið hjá RIFF, heldur leiðarljós sem fléttast inn í alla starfsemi okkar, dagskrárgerð og framtök. Á tímum fordæmalausra umhverfisáskorana berum við ábyrgð á að nýta áhrifamátt hátíðarinnar til að hvetja til jákvæðra breytinga.
Við leggjum áherslu á að varpa ljósi á þær hnattrænu krísur sem mannkynið stendur frammi fyrir og hvetja til aðgerða með áhrifamikilli dagskrá og sjálfbærum vinnubrögðum. Með því að sýna gott fordæmi viljum við efla grænni kvikmyndaiðnað og sýna fram á hvernig menningarviðburðir geta lagt sitt af mörkum til að stuðla að betri jörð.
Hvert skref – stórt sem smátt – færir okkur nær sjálfbærari framtíð.
I – RIFF ER VISTVÆN HÁTÍÐARUPPLIFUN
SKULDBINDING UM KOLEFNISHLUTLEYSI
RIFF stefnir að því að verða kolefnishlutlaus hátíð, og leggur því áherslu á að efla samstarf við vistvæna samgönguaðila og hvetja gesti til umhverfisvænna ferðamáta. Samstarf okkar við við Hertz um leigu á rafbílum, rafhlaupahjólaþjónustuna Hopp og Strætó Bs, gengur út á að tryggja vistvæna ferðamáta milli sýningastaða okkar, bæði fyrir starfsfólk og hátíðargesti.
MINNI PRENTUN—MEIRA STAFRÆNT
Í samræmi við markmið okkar um að draga úr umhverfisáhrifum prentaðs efnis hefur RIFF innleitt stefnu um að lágmarka notkun á prentuðum dagskrám og veggspjöldum. Á síðasta ári náðum við að draga saman um 60% fjölda prentaðra eintaka, með færri síðum og aukinni áherslu á stafræna dreifingu. Fyrir næstu hátíð er áformað að minnka dagskrárbæklinginn um 20% til viðbótar og prenta eingöngu það allra nauðsynlegasta.
Starfsfólk og gestir hátíðarinnar fá boli úr 100% lífrænni bómull, á meðan eldri innkaupapokar og bolir eru endurnýttir sem gjafavörur.
KVIKMYNDASKÓGUR RIFF
Frá árinu 2021 hefur RIFF lagt sitt af mörkum í umhverfisvernd í gegnum verkefnið Kvikmyndaskóginn. Árlega hafa gestir úr kvikmyndaiðnaðinum verið boðaðir til að gróðursetja tré á náttúruverndarsvæðinu í Heiðmörk, þar sem þeir taka höndum saman með leikstjóranum Benedikt Erlingssyni við að skapa Kvikmyndaskóginn, tré fyrir tré. Framtakið var stofnað með það fyrir augum að draga úr kolefnisspori kvikmyndaiðnaðarins, með sérstakan hluta hans tileinkaðan RIFF. Til þessa hafa um það bil 500 tré verið gróðursett í Kvikmyndaskóginum.Til að styðja enn frekar við grænar áherslur okkar mun RIFF innleiða lítið og táknrænt „grænt gjald“ fyrir alla hátíðargesti sem ferðast til landsins erlendis frá.
II – SJÁLFBÆRNI OG ÁHRIF: HVERNIG DAGSKRÁIN OKKAR SKIPTIR MÁLI
ÖNNUR FRAMTÍÐ
Þessi dagskrárflokkur hefur á undanförnum árum notið sífellt meiri vinsælda meðal gesta okkar og hvetur til gagnrýninna samræðna sem hjálpa okkur öllum að verða betri borgarar jarðar. Þetta er eini keppnisflokkur hátíðarinnar sem er eingöngu tileinkaður heimildamyndum, og upplifa áhorfendur hversu öflugt tæki frásögnin í kvikmynd er til að vekja til vitundar um umhverfis- og samfélagsmál.
Sýningum í þessum flokki fylgja innihaldsríkar umræður þar sem spurt er og svarað, og eru órjúfanlegur hluti af Umhverfisdagskrá RIFF. Þessar umræður eru einstakt tækifæri fyrir áhorfendur til að taka virkan þátt í samtali með kvikmyndagerðarfólki, sérfræðingum og aðgerðarsinnum, dýpka skilning sinn á sjálfbærni og umhverfismálum og fá hvatningu til raunverulegra aðgerða.
Að auki hefur RIFF veitt viðurkenningar fyrir vistvænt framlag, meðal annars með verðlaununum Græna lundanum.
YOUNG VOICES NORDIC THINK TANK
Með stuðningi frá Norræna menningarsjóðnum undir Volt-áætluninni og Loftslagsaðgerðasjóði ungs fólks hjá Reykjavíkurborg leiddi þetta framtak saman unga kvikmyndagerðarmenn á aldrinum 18–25 ára til að ræða og þróa aðferðir til að takast á við umhverfisáskoranir á Norðurlöndum.
Ellefu þátttakendur – þar á meðal leikstjórar, framleiðendur, kvikmyndatökumenn og handritshöfundar – tóku þátt í líflegum umræðum um gerð sjálfbærra kvikmynda og hvernig innleiða má vistvæn vinnubrögð í auknum mæli í kvikmyndagerð. Hugmyndir þeirra voru teknar saman í skýrslu sem kynnt var lykilaðilum innan greinarinnar, meðal annars menningarmálaráðum Norðurlanda á fundi Norðurlandaráðs í Reykjavík.
Young Nordic Voices Think Tank var ekki aðeins vettvangur fyrir lausnir undir forystu ungs fólks heldur myndaði einnig tengslanet fyrir samstarf til framtíðar og lagði þannig sitt af mörkum til grænni og sjálfbærari kvikmyndaiðnaðar.
KVIKMYNDIR FRÁ NORÐURSLÓÐUM
Þessi dagskrá varpar ljósi á kvikmyndir frá þessum landsvæðum sem fjalla um einstakar áskoranir og sögur um lífið á Norðurslóðum. Hún er kvikmyndagerðarfólki vettvangur til að koma á framfæri sjónarmiðum sínum um loftslagsbreytingar, seiglu samfélaga í krefjandi umhverfi og verndun menningararfs. Með þessum myndum viljum við styrkja rödd Norðursins og sýna hvernig frásagnir geta hvatt til jákvæðra breytinga og stuðlað að aukinni vitund á heimsvísu um umhverfis- og samfélagsmál.
THE NORTH IMPACT WORKSHOP
Þessi tveggja daga vinnusmiðja er skipulögð til að styðja við heimildamyndaverkefni í mótun með því að skerpa á markmiðum þeirra og aðferðum til áhrifa. Norðurslóðir standa frammi fyrir hvað mestum áhrifum af völdum loftslagsbreytinga og samfélög nálægt og norðan heimskautsbaugs eru meðal þeirra fyrstu til að upplifa afleiðingar þeirra. Hefðbundnir lifnaðarhættir standa frammi fyrir ógnum vegna hopandi jökla, hækkandi sjávarhita og sífellt óútreiknanlegra veðurfars.
RIFF trúir því að sagnafólk frá Norðurslóðum sé í einstakri aðstöðu til að hafa áhrif á alþjóðlega umræðu um loftslagsmál og móta stefnu í gegnum kvikmyndir sínar.
UMHVERFISDAGSKRÁ OG GRÆNI LUNDINN
RIFF heldur áfram að auka vitund um umhverfismál í gegnum dagskrá sína, sérstaklega í flokknum Önnur framtíð, þar sem sýndar eru myndir sem fjalla um loftslagsbreytingar, náttúruvernd og hnattrænar áskoranir tengdar sjálfbærni. Hátíðin veitir einnig Græna lundann, en það eru verðlaun til kvikmyndagerðarmanns sem hefur lagt sitt af mörkum til umhverfismála í starfi sínu.
Að auki leggur RIFF sitt að mörkum með því að virkja ungt fólk til umræðu um sjálfbærni og bjóða upp á fræðslu um vistvænar frásagnaraðferðir.
SAMSTARF VIÐ ARCTIC CIRCLE ALLIANCE
RIFF hefur bætt við starf sitt í átt að aukinni sjálfbærni með nýju samstarfi við Arctic Circle Alliance. Í ljósi þess að norðurslóðir eru í öldufaldi loftslagsbreytinga er markmið samstarfsins að varpa ljósi á sögur af frumbyggjasamfélögum og lífinu á norðurslóðum og styðja við stefnumótun sem verndar viðkvæm vistkerfi svæðisins. Liður í þessu framtaki er að RIFF mun sýna sérstakan dagskrárflokk, Kvikmyndir frá Norðurslóðum, sem dregur fram sögur frá Norðurskautssvæðinu og endurspeglar þær aðkallandi umhverfis- og menningarlegu áskoranir sem svæðið stendur frammi fyrir.
Til að auka aðgengi áhorfenda að þessum myndum færir RIFF Kvikmyndir frá Norðurslóðum einnig inn á Arctic Circle ráðstefnuna sem haldin er árlega í Reykjavík, þar sem áhrifafólk á sviði stjórnmála, umhverfismála og vísinda kemur saman til að ræða framtíð norðurslóða. Með því að samþætta kvikmyndalistina við umræðu áhrifafólks tryggir RIFF að raddir kvikmyndagerðarfólks og frumbyggja nái eyrum aðila sem fara með ákvarðanatökuvald og stuðli þannig að dýpri skilningi á þeim brýnu umhverfis- og samfélagsmálum sem svæðið stendur frammi fyrir. Þetta samstarf stuðlar ekki aðeins að aukinni vitund heldur hvetur einnig til raunhæfra lausna með því að virkja ráðstefnugesti til þátttöku og aðgerða.
III – SMART7, SJÁLFBÆRNISVINNUSTOFA OG SAMEIGINLEG GRÆN MARKMIÐ
Að lokum gegnir RIFF virku hlutverki sem meðlimur í SMART7-samtökunum við að móta sjálfbær vinnubrögð fyrir kvikmyndahátíðir víðsvegar um Evrópu. Í nóvember 2024 bauð RIFF skipuleggjendum annarra SMART7-hátíða til Íslands á vinnustofu um sjálfbærni og nýjar leiðir til að laða að áhorfendur.
Á þessum viðburði unnu hátíðarfulltrúar saman að því að setja sér skýr umhverfismarkmið, þar á meðal að skrá kolefnisspor, ráða ráðgjafa í sjálfbærni og skapa vinnustaðamenningu sem byggir á vistvænum gildum hjá öllum hátíðunum innan samstarfsins. Þessi skuldbinding er fyrsta skrefið í langtímaáætlun um að samþætta sjálfbærni á öllum stigum rekstrar kvikmyndahátíða og tryggja ábyrgð hvers samstarfsaðila með sameiginlegri þekkingu og reglubundnu mati á árangri.
MANNAUÐSSTEFNA
Markmið mannauðsstefnunnar: fagmennska, virðing og gleði
Markmið með mannauðsstefnu Alþjóðlegrar kvikmyndahátíðar í Reykjavík er að það hafi á að skipa áhugasömu og hæfu starfsfólki sem hefur framsækni og velferð þess að leiðarljósi. Stefnunni er ætlað að stuðla að góðum starfsanda og starfsskilyrðum þar sem virðing og jafnrétti einkennir öll samskipti.
Lögð er áhersla á að skapa jákvæða vinnustaðamenningu, með sterkri liðsheild, tækifærum til þróunar, hvatningu til að sýna frumkvæði, opnum skoðanaskiptum og góðri miðlun upplýsinga. Mannauðsstefnan felur í sér sameiginlega sýn starfsfólks á þá þætti sem gera hátíðina að eftirsóknarverðum vinnustað.
Leiðarljós mannauðsstefnu eru:
- Virðing og jafnræði.
- Þekking og frumkvæði.
- Samvinna og sveigjanleiki
- Vellíðan á vinnustað.
- Viðleitni til að skapa starfsfólki aðstæður til að samræma starf og einkalíf.
- Að starfsfólk njóti hæfileika sinna og menntunar.
Í þessu felst að Alþjóðleg kvikmyndahátíð í Reykjavík (RIFF):
- Virði alla starfsmenn sína og viðhorf þeirra mikils.
- Virkja alla starfsmenn til að móta og bæta starfsemina.
- Starfi í anda jafnræðis og jafnréttis.
- Bjóði upp á verkefni þar sem hæfileikar hvers og eins fái að njóta sín.
- Leggi áherslu á gæði starfs og áreiðanleika.
- Upplýsi starfsmenn um hlutverk þeirra og ábyrgð.
Alþjóðleg kvikmyndahátíð í Reykjavík gerir þær kröfur til starfsmanna að þeir:
- Virði samstarfsmenn sína.
- Séu viðbúnir þróun og breytingum og taki þátt í þeim.
- Viðhaldi þekkingu sinni og auki við hana.
- Sinni starfi sínu af trúmennsku og metnaði.
- Sýni ábyrgð.
