Það styttist í RIFF í Háskólabíói og dagskráin aldrei verið fjölbreyttari. Taktu frá dagana 26.9. – 6.10.
Header: Stórviðburður! Risa bílabíó í Víðidal 21.9. Fjórar sígildar og eitt sing along.
Það er komið að því að ræsa vélarnar og festa öryggisbeltin, því bílabíó RIFF verður endurvakið laugardaginn 21. september klukkan 15:30 og stendur fram á nótt með sýningu fjögurra sígildra mynda fyrir fólk á hvaða aldri sem er.
Við lofum einstakri stemningu í Víðidal, hvort heldur gestir mæta á bíl eða hesti, hjóli eða stól, því reynslan er að allir syngja með, hver með sínu nefi.
Matarvagnar ásamt að sjálfsögðu popp og gosi verða á staðnum til að gera upplifunina enn betri í þessum stærsta bíósal landsins í Víðidal!
Sýndar verða fjórar sívinsælar bíómyndir að þessu sinni – og fyrir þá sem eru í bílum er einfalt að tengja útvarpið við rétta rás – og njóta svo bara í botn:
15:30 – BRÓÐIR MINN LJÓNSHJARTA 106 MÍN
Sænska myndin sem sló í gegn 1977 í leikstjórn Olle Hellblom og fjallar um viðureign bræðranna Karls og Jónatans við Þengil grimma og svartklæddu riddarana hans.
18:00 – MEÐ ALLT Á HREINU 99 MÍN
Sú ógleymanlega söngvamynd Ágústs Guðmundssonar frá 1982 þar sem liðsmenn Stuðmanna og Grýlanna fara á kostum í keppni tveggja hljómsveita sem fara um landið.
20:15 DRAUGASAGA 64 MÍN
Kynngimögnuð ræma Viðars Víkingssonar frá 1985 um læknanema sem tekur að sér næturvörslu í sjónvarpshúsi og kryddar þar sögur um meinta reimleika á staðnum.
21:30 TILBURY 53 MÍN
Önnur mynd úr fórum Viðars frá 1987 um sveitastrák á stríðsárunum sem horfir á eftir ástinni sinni í hendur hermanns, sem er kannski, þegar allt kemur til alls, bara tilberi.
TAKTU FRÁ LAUGARDAGINN 21. SEPTEMBER Í VÍÐIDAL
Bílabíó RIFF gerir bíóupplifunina aðgengilega fyrir alla. Íslenskur texti verður við hverja mynd og sérmerkt stæði fremst við skjáinn fyrir bíógesti með fötlun sem fá 20% afslátt.
Header: Opnunarmyndir RIFF
Header: Verðlaunamyndin Elskuleg (e. Loveable) og heimsfrumsýning á 1000 orð, geimrápi Birnis og Bríetar.
Norsk-íslenska kvikmyndagerðarkonan Lilja Ingólfsdóttir á heiðurinn að opnunarmynd Alþjóðlegu kvikmyndahátíðarinnar í Reykjavík í ár, RIFF, en hún hefst í Háskólabíói 26. september næstkomandi og stendur til 6. október.
Elskling eins og heiti myndarinnar er á norsku, eða Elskuleg á íslensku (e. Loveable), er frumraun Lilju á hvíta tjaldinu, en verkið var frumsýnt fyrr á árinu í Osló og er óhætt að segja að það hafi vakið mikla athygli fyrir tilfinningarík efnistök og einstaka túlkun aðalleikkonu myndarinnar, Helgu Guren sem samkvæmt umsögn Variety þykir sýna einstakan kjark (e. gutsy performance) í hlutverki Maríu sem reynir að sinna fjórum börnum sínum af álíka metnaði og starfsframanum á meðan seinni eiginmaður hennar, Sigmund, er á stöðugum ferðalögum. Dag einn sinnast þeim aftur á móti heiftarlega sem verður til þess að karlinn fer fram á skilnað.
„egghvasst tilfinningadrama“
sem fékk standandi lófatak Karlovy Vary kvikmyndahátíðinni í í júlí
Variety segir enn fremur í gagnrýni sinni um þetta byrjendaverk Lilju að þar lifni við „egghvasst tilfinningadrama“ (e. emotionally jagged debut) og enn fremur að myndin sé „óvenjuleg og snjöll saga sem leiti svara við því af hverju annað hjónabandið í röð fari eins og það fyrra, og hverjum, ef einhverjum, það sé að kenna.“
Myndin fékk standandi lófatak á Karlovy Vary kvikmyndahátíðinni í Tékklandi í júlí.
Einnig sýnd: Stuttmyndin Bríet og Birnir í geimnum
Á undan opnunarsýningunni á Elskling verður stuttmyndinni Birnir og Bríet brugðið á tjaldið, en hún er eftir Erlend Sveinsson og fjallar um samnefnt tónlistarfólk í hlutverkum pars sem er að reyna að eyða minningum af sambandi þeirra og hvoru öðru yfirleitt. Myndin, sem tekin er upp í einni af flugvélum Icelandair, er einskonar ferðalag um mynd- og hlóðheim plötunnar 1000 orð sem listafólkið sendi nýlega frá sér.
Header: Aldrei hafa fleiri sótt um að sýna íslenskar stuttmyndir á RIFF … hátt í hundrað sóttu um í ár…
Úrvalið af íslenskum stuttmyndum sem sýndar verða Alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Reykjavík í ár hefur aldrei verið meira, enda hafa ekki fleiri sótt um að vera með á hátíðinni en í ár, eða sem nemur nálega hundrað verkum, sem vitnar um ótrúlega grósku í greininni hér á landi.
Keppt er í þremur flokkum, leiknum myndum, tilraunamyndum og heimildarmyndum – og verður hægt á hámhorfa hvern flokkinn af öðrum. Nefna má sem dæmi að það tekur áhorfendur hálfa aðra klukksutund að sjá allar leiknu myndirnar í einni beit, en þær eru frá sjö mínútum að lengd og upp í tæpan hálftíma, eða á við venjulega bíómynd.
„ … allar eru til vitnis um kraftinn í stuttmyndagerð … „
Leiknu myndirnar í ár eru átta talsins og eru jafn ólíkar að efni og þær eru margar, en allar eru til vitnis um kraftinn í stuttmyndagerð á Íslandi – og afar ríka sköpunargleði.
Annalísa Hermannsdóttir sýnir okkur Duld sem fjallar um Vigdísi, yfirmann á lögmannsstofu, og einn morgun í lífi hennar sem gerist í dystópískum hliðarveruleika.
Gunnjón Gestsson er með verkið Gústi sterki og hefnd hafsins sem segir af tveimur sjómönnum sem lenda í klóm ógnvænlegs hafbúa.
Hjördís Jóhannssdóttir mætir með Brúðurina, en sú er eistnesk og fær óvænt pata af óþægilegu máli daginn sem hún er að fara giftast íslenskum karli sínum.
Í stuttmynd Kötlu Sólnes sem ber heitið Veður ræður akri, en vit syni, þarf Hera að gera það upp við sig hvort niðurnítt hús hennar við sjóinn standist lengur ágjöfina.
Kolbeinn Gauti Friðriksson færir okkur myndina Smakk sem gerist í bragðprufufyrirtæki og hverfist um yfirmann sem hvetur starfsmann sinn til dáða.
Nikulás Tumi leikstýrir Bláa stráknum sem greinir frá ungum húsamálara sem endar heima hjá heillandi pari sem hann hitti fyrir tilviljun fyrir utan næturklúbb.
Oddur S. Hilmarsson kynnir fyrir okkur Hús til sölu þar sem fasteignasali nokkur lendir í þeim hremmingum að geta varla selt sitt eigið hús, hvað þá annað.
Sölmundur Ísak okkur söguna af Mikaelu sem hefur einsett sér að missa meydóminn í námi sínu í útlöndum, en myndin heitir Klárum ‘etta.
Í flokki tilraunamynda eru fimm myndir sýndar:
Í Gumma kaffi eftir þá Adam Emil Ríkharðsson og Nóa Þrastar lenda tveir félagar á bensínstöð í röð atvika sem fær þá til að leiða hugann að heldur bíræfnum þjófnaði.
Hér skoðar skáldið Andri Snær Magnason bráðnandi jökla og skiptir talnagögnum út fyrir persónulega nálgun, í mynd eftir Emmanuel Vaughan-Lee og Adam Loften, Síðasta ísöldin.
Blóm inn við beinið er saga Kristínar Bjarkar Kristjánsdóttur af konu sem kastar hljóðfæri sínu í hyldýpið, en að því búnu taka ástúðin ein og sköpunarþráin að vísa henni veginn.
Við heimsfrumsýnum myndina Sterkari eftir Nataliu Mayling Pachero sem fjallar um endurfundi og tengsl – og Hildu sem gerir allt til að standa sig eftir að faðir hennar veikist.
Aephie Chen og Ingvar Haukur Guðmundsson sýna Mamu en þar fara átthagarnir á meðal frumbyggja í Taívan að leita á Mayaw þar sem hann býr á efri árum í grámyglu Lundúna.
Í flokki heimildamynda eru einnig fimm myndir:
Ægis Zita mætir með myndina Dæner fyrir lömb og guði sem fjallar vitaskuld um lömb og guði sem nærast á fórnum, virðingarleysi, hlýðni, guðrækni, gleði, undrun og hvert öðru!
Hamskipti eru mynd eftir Pétur Jónsson og gerist í ófyrirséðri framtíðinni þegar jöklarnir eru horfnir af yfirborði jarðar, allir sem einn, og þess er freistað af þálifendum að endurlífga þá.
Tumi Gonzo Björnsson segir söguna af sóðanum Geir í mynd sinni, Menning og listir, en sá hefur störf á listasafni þar sem hann hittir hinn upptrekkta Hörð sem dreymir um að verða listamaður.
Kóngur er nafnið á nýjasta tónlistarmyndbandi íslenska kúnstnersins Brikcs, í leikstjórn Vasco Alexander, en það er tekið upp á listasafni og kafar ofan í margbreytileika mannsins.
Í mynd Simone Hart og Jóns G. Geirfinnssonar, Slit, er ljósi varpað á Ingu Birgittu Spur sem hefur helgað líf sitt forvörslu listaverka eiginmanns hennar heitins, Sigurjóns Ólafssonar.
Það skortir sumsé ekki úrvalið í ár!
Header: Við hlökkum til að sjá þig á RIFF í ár!