Search
Close this search box.

LEITA

Search
Close this search box.

Catherine Breillat & Nicolas Philibert heiðursgestir á RIFF 2023

Bæst hefur i hópinn hjá heimsfrægu kvikmyndagerðarfólki sem mun heimsækja Ísland í tilefni af RIFF 2023 sem fer fram þann 28. september til 08. Október.

Við tilkynnum með stolti tvo heiðursgesti til viðbótar en það eru franski verðlaunaleikstjórinn Nicolas Philibert sem vann Gyllta björninn á nýliðinni Berlínarhátíð og franska kvikmyndagerðarkonan og rithöfundurinn Catherine Breillat en nýjasta mynd hennar vakti mikla athygli á Cannes í vor, Last Summer, en hún fjallar um samband eldri konu við ungan mann.

Lilja Alfreðsdóttir, Menningar- og viðskiptaráðherra mun veita þeim heiðursviðurkenningu fyrir framúrskarandi listfengi og framlag þeirra til kvikmyndagerðarlistarinnar í opunarhófi hátíðarinnar þann 28. September n.k. Í Háskólabíói.

Nicolas Philibert er einn frægasti og dáðasti kvikmyndaleikstjóri Frakklands en myndir hans eru oft næmar rannsóknir á hversdagsleika mannkynsins. Hann er eflaust best þekktur fyrir mynd sína To Be and to Have (Être et avoir) (2002) sem var frumsýnd á kvikmyndahátíðinni í Cannes og hlaut Louis Delluc verðlaunin áður en hún náði ótrúlegum árangri á alþjóðavettvangi. Myndin verður til sýningar á RIFF en hátíðin sýnir einnig nýjustu mynd hans On the Adamant þann 29.sept í Háskólabíó og mun leikstjórinn sitja fyrir svörum eftir myndina.

Philibert verður einnig með meistaraspjall 10:30 á Slippbarnum þar sem gestum gefst tækifæri á að fá innsýn í merkilegan feril hans sem spannar fjölda áratuga. Stjórnandi umræðna verður Helga Rakel Rafnsdóttir, kvikmyndaleikstjóri.

Catherine Breillat hefur á ferli sínum einbeitt sér að áleitnum og ögrandi myndum sem skoða kynhegðun og kynhneigð en sumar af myndum hennar þóttu of áleitnar og var meðal annars fyrsta mynd hennar A Real Young Girl (1975) bönnum í fjöldamörgum löndum. Hún snýr nú aftur eftir tíu ára hlé með myndina Síðasta sumar (L’été Dernier) sem var frumsýnd á kvikmyndahátíðinni í Cannes og er núna sýnd á RIFF. Catherine Breillat mun sitja fyrir svörum eftir sýningu myndarinnar þann 1. Október en sýningin hefst 16:00.

RIFF (Alþjóðleg kvikmyndahátið í Reykjavík) tekur á ári hverju við stórum hópi af gestum sem allir koma saman til þess að mynda þá einstöku stemningu sem ríkir á hátíðinni og ríkir mikil spenna í loftinu fyrir komu þessara sérstöku gesta.

Eins og áður hefur komið fram verður sérstök áhersla lögð á Franska kvikmyndagerð (Frakkland í fókus) þetta árið á RIFF og gegna þessir heiðursgestir lykilhlutverki í að heiðra kvikmyndagerð frá þessu Evrópulandi sem gegnir lykilhlutverki í kvikmyndasögunni.

 

CatherineBreillat

Catherine Breillat

Franski kvikmyndagerðarmaðurinn og rithöfundurinn Catherine Breillat (f. 1948) er þekkt fyrir næm og áleitin verk sem rannsaka kynhneigð, samskipti kynjanna, og fjölskylduátök. Á ferli sínum sem spannar 50 ár hefur hún ítrekað storkað hefðbundnum gildum með erótískum verkum sínum.

Breillat hóf kvikmyndaferil sinn með hlutverki í kvikmynd Bernardo Bertolucci Last Tango in Paris (1972). Leikstjórnarfrumraun hennar, A Real Young Girl (1975) byggð á skáldsögu Breillat, Le Soupirail, var bönnuð í mörgum löndum vegna grafískra kynlífsatriða og var ekki sýnd í kvikmyndahúsum fyrr en árið 2000. Sum síðari verka hennar, eins og Nocturnal Uproar (1979) og Romance (1999), lentu einnig í svipaðri meðferð. Leikstjórnarferill Breillat inniheldur 20 myndir, þar á meðal djarfa titla eins og Fat Girl (2001) og Anatomy of Hell (2004), en nýjasta mynd hennar eftir tíu ára hlé, Síðasta sumar (2023), var frumsýnd á kvikmyndahátíðinni í Cannes og er núna sýnd á RIFF.

Orðstír Catherine Breillat nær langt út fyrir einfalda ögrun. Kvikmyndir hennar rannsaka gjarnan þemu sem öðrum kvikmyndagerðarmönnum yfirsést og í gegnum marglaga persónur öðlast áhorfendur innsýn í kvenlægan heim sem ögrar viðteknum gildum. Á tuttugustu RIFF hátíðinni hyllum við þennan djarfa kvikmyndalistamann sem ávallt er óhrædd við að sýna hið ósagða.

NICOLAS PHILIBERT 1

Nicolas Philibert

Einn dáðasti heimildarmyndagerðarmaður Frakklands, Nicolas Philibert (f. 1951), er þekktur fyrir listrænar og næmar rannsóknir sínar á hversdagsleika mannkyns.

Philibert tók sín fyrstu skref sem kvikmyndagerðarmaður á áttunda áratug síðustu aldar þegar hann aðstoðaði virta leikstjóra á borð við René Allio og Alain Tanner. Á næstu áratugum tók hann svo stökkið frá sjónvarpsframleiðslu í heimildarmyndir í fullri lengd og vakti athygli fyrir verk sín á borð við La Ville Louvre (1990), In the Land of the Deaf (1992) og Every Little Thing (1997).

Ein af farsælustu kvikmyndum Philiberts, To Be and to Have (2002), var frumsýnd á kvikmyndahátíðinni í Cannes og hlaut Louis Delluc verðlaunin áður en hún náði ótrúlegum árangri á alþjóðavettvangi. Í nýjasta meistaraverki sínu, On the Adamant (2023), sem hlaut aðalverðlaunin á Berlinale í ár, veitir Philibert magnaða innsýn í líf fullorðinna með þroskahömlun.

Á tuttugustu útgáfu RIFF fögnum við mögnuðum ferli og kvikmyndum Nicolas Philiberts – sem ítrekað hafa fangað veröldina með einlægri og rannsakandi linsu.

 

Fyrri heiðursgestir RIFF

RIFF hefur tekið á móti gríðarlegum fjölda af merkum gestum í gegnum tíðina sem tengjast bæðiu menningu og kvikmyndagerð. Sem dæmi um þann fríða hóp sem áður hefur veitt RIFF heiður með nærveru sinni eru:

Rossy de Palma, Alexandre O. Phillipe, Albert Serra, Joachim Trier, Trine Dyrholm, Debbie Harry, John Hawkes, Mads Mikkelsen, Shailene Woodley, Werner Herzog, Darren Aronofsky, Chloe Sevigny og Lone Scherfig.

Facebook
Twitter
LinkedIn
Email