Search
Close this search box.

LEITA

Search
Close this search box.

Stelpur filma!

Stelpur Filma! er vikulangt námskeið þar sem stelpur læra undirstöðuatriði í kvikmyndagerð. Vegna samverkandi þátta eru stelpur ólíklegri til að prófa sig áfram í kvikmyndagerð og láta rödd sína heyrast. Námskeiðið hefur það að markmiði að leiðrétta þennan kynjahalla með því að bjóða upp á rými þar sem stelpur eru hvattar til kvikmyndagerðar. Einnig fá þær hvatningu til að rækta innri sköpunargáfu og að mynda tengsl við kvenkyns fyrirmyndir. 

Stelpur Filma! hefur verið haldið fjórum sinnum, með góðum árangri – árið 2015, 2016, 2020 og 2022. Námskeiðið er hugsað fyrir stelpur í 8. og 9. bekk grunnskóla í Reykjavík. Einn kennari frá hverjum skóla fær að fylgjast með, á meðan námskeiðinu stendur. Færustu kvikmyndagerðakonur Íslands, og annað fagfólk býður uppá fræðslu og kennslu, og er því um einstakt tækifæri að ræða. Afrakstur námskeiðisins eru stuttmyndir, unnar af stelpunum sjálfum, sem sýndar verða á RIFF hátíðinni.

Stelpur filma! er byggt á hugmyndafræði Stelpur rokka! Megináhersla er lögð á að skapa öruggt rými fyrir stelpur, þar sem þær geta tekið áhættur og fengið tækifæri til að segja sínar sögur og upplifanir. Námskeiðið fagnar fjölbreytileikanum og hvetur til inngildingar. Á námskeiðinu Stelpur filma! er ekkert umburðarlyndi fyrir hvers kyns mismunun, ofbeldi og fordómum út frá frammistöðu, kynvitund, bakgrunni, uppruna, fjárhagslegri stöðu eða öðrum breytum.

Kennum þeim undirstöðuatriði í kvikmyndagerð – Kynnum þær fyrir kvenkyns fyrirmyndum – Gefum þeim tækifæri til að láta rödd þeirra heyrast

Von okkar er að sjá fleiri stelpur í kvikmyndagerð sem mun leiða til betri og raunsærri birtingarmynd stúlkna og kvenna í kvikmyndum.

Stelpur Filma! 2015 - 2022

Ákveðin hefð hefur skapast fyrir að halda Stelpur filma námskeið í Norræna húsinu Reykjavík fyrir stúlkur og kynsegin í áttunda og níunda bekk. Þar læra þátttakendur  undirstöðuatriði í kvikmyndagerð og gera stuttmyndir undir leiðsögn fagfólks. Námskeiðið hefur verið haldið í samstarfi við Skóla- og frístundasvið Reykjavíkurborgar og Mixtúru. 

Margar af virtustu handritshöfundum og kvikmyndagerðakonum landsins koma og leiðbeina stelpunum. Meðal kennara á námskeiðinu hafa verið Margrét Örnólfsdóttir handritshöfundur, Nanna Kristín Magnúsdóttir leikkona og leikstjóri, Anna Sæunn Ólafsdóttir kvikmyndagerðakona, Valdís Óskarsdóttir klippari, Kolbrún Hrund Verkefnastjóri Jafnréttisskólans, Erla Stefánsdóttir kvikmyndagerðarkona, Baltasar Kormákur leikstjóri og framleiðandi, og Margrét Jónasdóttir framleiðandi.

Haustið 2021 fékk Stelpur filma verkefnið ríkulegan styrk frá Barnamenningarsjóði sem gerir RIFF kleift að fara með námskeiðið út á landsbyggðina. Vorið 2022 verða sjö námskeið haldin víðsvegar um landið í samvinnu við hlutaðeigandi sveitarfélög.

Myndir frá Stelpur Filma! í Borgarnesi mars 2022

Myndir frá Stelpur Filma! á Reykjanesi janúar 2022

Myndir frá námskeiðinu sem haldið var í Norrænahúsinu

Myndir frá námskeiðinu sem haldið var í Norrænahúsinu 2020

Myndir frá frumsýningunni í Bíó Paradís 2020

Stuttmyndir sem gerðar voru á námskeiðinu 2020

Ertu góð – Sæmundarskóli
Týndar – Dalskóli
Jákvætt – Hagaskóli
Ég er drengur – Suðurhlíðaskóli
Heimaskjól – Laugalækjarskóli
Beint í mark – Háteigsskóli
Skugginn – Vogaskóli
What – Austurbæjarskóli
Leitin að súkkulaðinu – Fellaskóli

Umsagnir frá kennurum sem hafa tekið þátt

“Ég var svo heppin að komast með nemendur mína á námskeiðið Stelpur filma. Þetta námskeið var alveg einstaklega vel uppbyggt, fjölbreytt og áhugavekjandi. Þarna fór saman ómetanlegt nám, þroskandi vinna og leikir. Ég hef nokkrum sinum áður farið á sambærileg námskeið á vegum RIFF, alltaf skemmtileg en þetta var það langbesta sem ég hef farið á. Það var líka áhugavert að vera með kynjaskiptingu. Vinnan gekk alveg einstaklega vel og mun færri árekstrar meðal nemanda. Mér fannst stúlkurnar mínar ná ótrúlegum árangri og læra mjög mikið á þessu námskeiði. Þær voru allar mjög ánægðar og tilbúnar að vinna langan vinnudag. Fyrirlesararnir og kennarar voru framúrskarandi og kveiktu mikinn áhuga hjá nemendum. ”

“Námskeiðið „Stelpur filma“ var mjög faglegt og vel skipulagt námskeið, valinn maður í hverju rúmi. Stelpurnar lærðu mikið á stuttum tíma og fengu almenna og hnitmiðaða vitneskju um allt sem skiptir máli í kvikmyndagerð. Einnig reyndi námskeiðið mikið á sjálfstæð vinnubrögð stelpnanna sem var mjög gott. Stelpur í 8. og 9. bekk og strákar reyndar líka eru á viðkvæmum aldri og því er oft gott að kynin vinni í sitt hvoru lagi til að þau fái að njóta sín á sínum forsendum án þess að hormónarnir stýri of miklu. Þessi aldur er einnig góður fyrir svona námskeið þar sem þessi tími eru mikil mótunarár og margt sem sáð er á þessum árum ber góðan ávöxt í framtíðinni. Með von um að svona námskeið fái að dafna og þroskast á komandi árum. ”

“Námskeiðið var mjög vel heppnað, stelpurnar voru ánægðar og örugglega mun sú fræðsla sem þær fengu vera gott veganesti út í lífið. Stelpur filma er mjög gagnlegt fyrir stelpur sem eru í unglingdeild. Þær eru á viðkvæmum aldri þar sem margt í þjóðfélaginu hefur áhrif á þær og mótar viðhorf þeirra og sjálfsmynd þeirra. Stelpur filma styrkir þær og eflir sjálfstraust þeirra. Auk þess var námskeiðið gagnlegt fyrir kennara . ”

“Þetta var frábært námskeið og gagnlegt fyrir stelpurnar og frábært að þær fengju tækifæri til að vera bara stelpur. Námskeiðið á erindi fyrir bæði kynin og væri líka gott ef kynjunum væri blandað saman en þá þyrfti að passa upp á að kynin hefðu jafn mikil tækifæri í verkefnunum. Stelpurnar höfðu mjög gaman af námskeiðinu og þeim fannst þetta stórt tækifæri. Námskeiðið er örugglega hvetjandi fyrir stelpurnar til að að halda áfram í kvikmyndagerð þar sem þær fengu góða leiðsögn á námskeiðinu og fengu umbun í lokin þar sem þær fengu að sýna fjölskyldu sinni afraksturinn í kvikmyndahúsi. Auk þess sem þær fengu jákvæða athygli í skólanum. Það var einstaklega vel að verkefninu staðið og frábært ef fleirri nemendur fengju tækifæri til að taka þátt.”