LEITA

RIFF vekur heimsathygli

Þungarokkshljómsveit spilar við sýningu á klassískri víkingamynd. Björk mætir á svæðið til þess að sjá nýjustu myndir Pedro Almodóvar og Athinu Rachel Tsangari. Kvikmyndagerðafólk slappar af í jarðhitalaugum við sjávarsíðuna. Bransafólki er boðið í forsetabústaðinn til þess að spjalla um ástandið í kvikmyndageiranum. Þetta er hefðbundinn dagur á Alþjóðlegri kvikmyndahátíð í Reykjavík.” 

Svona hefst umfjöllun Variety um RIFF, en hátíðin var haldin í 21. sinn í ár fyrr í mánuðinum og hefur vakið heimsathygli fyrir einstakt aðdráttarafl sitt. 

RIFF er lykilstaður fyrir kvikmyndagerðafólk til þess að stilla saman strengi og kynnast kvikmyndaframleiðslu í litlu landi með stór framleiðsluáform,” segir jafnframt í grein Variety, einu stærsta fagtímariti kvikmyndaheims. Ritstjóri Variety í Bandaríkjunum, Pat Saperstein, var mjög hrifin af RIFF og fjallaði m.a. um sérkenni hennar: Hátíðin sem haldin er í byrjun október þegar hitastig er enn milt og úti er bjart fram á kvöld, hefur einstakan íslenskan keim. Á hverju ári stendur Hrönn Marinósdóttir, stjórnandi RIFF, og teymið hennar fyrir sérviðburðum eins og sundbíói, sjónrænum matarveislum og tónlistarsýningum, líkt og Þungur hnífur þar sem þungarokkshljómsveitin Sólstafir spilaði frumsamið tónverk við sýningu á víkingamyndinni Hrafninn flýgur.” 

Auk Variety, var hátíðin sótt heim af mörgum helstu fjölmiðlum heims, m.a. Euronews, Cahiers Du Cinéma, virtasta og áhrifamesta kvikmyndatímaritið að mati Harvard University Press, og Vogue Scandinavia, og fjölmiðlum frá m.a. Ungverjalandi, Litháen, Bandaríkjunum, Grikklandi og Frakklandi. RIFF var einnig í sérlegum fókus hjá argentíska menningartímaritinu Caligari, sem skrifaði heilmikið um gang hátíðarinnar, ásamt því að skrifa kvikmyndagagnrýni um 16 myndir sem voru sýndar á RIFF í ár. 

Erlenda fjölmiðlafólkið kynnti sér stöðu kvikmyndagerðar hér á landi og heimsótti Fagradalsfjall þar sem standa yfir tökur á Eldunum, kvikmynd Uglu Hauksdóttur. Baltasar Kormákur tók jafnframt á móti hópnum í RVK Studios í Gufunesi, farið var á gamla tökustaði í nánd við Hvammsvík, og komið við í baðlóninu þar sem  eigandinn Skúli Mogensen heilsaði upp á bransafólk. 

Hátt í  200 manns úr kvikmyndaheiminnum  m.a. leikstjórar, stjórnendur stærstu kvikmyndahátíða á borð við Berlín og Cannes og kvikmyndaframleiðendur komu hingað til lands til þess að taka þátt á hátíðinni og  bransadögum RIFF þar sem fjallað var m.a. um nýjar íslenskar myndir í framleiðslu, stöðu kvikmyndaiðnaðarins og gervigreind. 

Euronews vakti athygli á ótrúlegum vexti hátíðarinnar: Hátíðin var lítil í upphafi og einblíndi aðallega á Íslendinga sem tóku upp kvikmyndir erlendis, en RIFF hefur vaxið og orðið að hátíð sem er ekki bara stærsti kvikmyndaviðburðurinn á Íslandi heldur einnig sífellt mikilvægari viðkomustaður þeirra sem vilja sjá það besta í evrópskri kvikmyndalist.” 

Ólafur Árheim, kvikmyndaleikstjóri sem frumsýndi Eftirleiki,  sína fyrstu mynd í í fullri lengd á RIFF í ár, sagði í viðtali við Euronews: Það er frábært að sjá hvernig RIFF hefur vaxið og dafnað og orðið að mikilvægri kvikmyndahátíð sem fær til sín áhrifamikla heiðursgesti og sýnir flottustu myndir ársins. Ég er himinlifandi yfir að þau bjóði enn upp á rými fyrir litlar og sjálfstæðar kvikmyndir líkt og mína. Þó það sé enn of snemmt að segja til um hvernig RIFF mun hafa bein áhrif á mig og mína kvikmynd, er ég afar þakklátur að fá að vera hluti af hátíðinni.” 

Hollywood Insider bar RIFF við saman aðrar kvikmyndahátíðir og gerði úttekt á því hvað það er sem gerir RIFF að „fyrirmyndardæmi um kvikmyndahátíð,” en það er talið felast í að tengslum RIFF við íslenska menningu, „sem hefur veitt hátíðinni sérstöðu sem aðrir eiga í erfiðleikum með að leika eftir. RIFF er ekki bara hátíð, heldur ferðalag inn í hjarta Íslands.”

Greininni um RIFF í Vogue Scandinavia fylgja glæsilegar myndir af gestum hátíðarinnar m.a. Baltasar Kormáki og Ingvari E. Sigurðssyni, heiðursgestunum Jonasi Akerlund og Athinu Tsangari, Frédéric Boyer dagskrárstjóra og fleirum úr bransanum hér heima og erlendis.

 

Facebook
Twitter
LinkedIn
Email