LEITA

Saga RIFF

RIFF – Alþjóðleg kvikmyndahátíð í Reykjavík – er einn stærsti og fjölbreyttasti menningarviðburðurinn á Íslandi. RIFF er sjálfstæð og óháð kvikmyndahátíð sem rekin er án hagnaðar. Starfsfólk okkar vinnur allan ársins hring við undirbúning en þegar nær dregur hátíð kemur inn fjöldi sjálfboðaliða frá öllum heimshornum og eigum við þeim mikið að þakka.

Í ellefu daga á hverju hausti flykkjast Íslendingar í bíó til að sjá það besta og ferskasta í alþjóðlegri kvikmyndagerð. Enn fremur býðst gestum að spjalla við leikstjóra um verk sín, sækja málþing og fyrirlestra, tónleika og listasýningar, og að sjá kvikmyndir við óhefðbundin skilyrði –  í sundi, í helli eða í stofunni hjá þekktum kvikmyndagerðarmanni!

Dagskráin setur unga kvikmyndagerðarmenn og framsækna kvikmyndagerð á oddinn. Aðalverðlaun hátíðarinnar, Gyllti lundinn, eru til dæmis tileinkuð kvikmyndagerðarmanni fyrir sína fyrstu eða aðra mynd. Hjá RIFF trúum við því að bíó geti breytt heiminum. Heimildarmyndir skipa sífellt stærri sess í dagskrá hátíðarinnar og leiknar myndir sem láta sig sérstaklega varða mannréttindi, lífsgæði og umhverfismál fá ríkulegt pláss.

RIFF er ekki síður mikilvægur vettvangur fyrir íslenska kvikmyndagerðarmenn til að kynna verk sín fyrir umheiminum. Fjöldi erlendra blaðamanna og bransafólks sækir hátíðina ár hvert og áhugi þeirra á því að kynna sér íslenskar kvikmyndir leynir sér ekki.

Hátíðin reynir að sýna framleiðslu liðins árs, frumsýna nýjustu myndirnar og gera íslenskri stuttmyndagerð hátt undir höfði. Besta íslenska stuttmyndin fær verðlaun frá RÚV, sem kaupir sýningarrétt hennar, en Gullna eggið kemur í hlut bestu stuttmyndarinnar sem tekur þátt í Kvikmyndasmiðju RIFF (Talent lab).

Dagskráin og flokkun kvikmynda

Síðustu ár hafa um 100 kvikmyndir í fullri lengd frá um 40 löndum verið sýndar á RIFF. Kvikmyndunum er skipt í nokkra flokka til að gera allt sem hentugast fyrir gesti hátíðarinnar. Flokkarnir hafa smám saman myndast og í dag eru þeir eftirfarandi:

Vitranir (keppnisflokkur um Gullna lundann, aðalverðlaun RIFF) – Í Vitrunum tefla níu nýir leikstjórar fram sinni fyrstu eða annarri mynd og keppa um aðalverðlaun hátíðarinnar, Gullna lundann. Þessar myndir ögra viðteknum gildum í kvikmyndagerð og vísa veg kvikmyndalistarinnar til framtíðar.

Fyrir opnu hafi – Á hverju ári þyrla sömu myndirnar upp ryki á kvikmyndahátíðum víða um heim. Þetta eru meistarastykki sem sum hver eru úr smiðju þekktra kvikmyndagerðarmanna en önnur koma áhorfendum algerlega í opna skjöldu.

Önnur framtíð – Getum við haldið í það lífsmynstur sem við erum vön eða er kominn tími til að breyta til? Ræður plánetan við ágang mannsins? Komum við vel fram hvert við annað? Í flokknum Önnur framtíð er að finna áhrifamiklar kvikmyndir um mannréttinda- og umhverfismál. Bíó getur breytt heiminum.

Heimildarmyndir – Heimildarmyndadagskrá RIFF miðar að því að fræða og upplýsa áhorfendur, en ekki síður að miðla þekkingu með óhefðbundnum leiðum. Góð heimildarmynd kveikir í ímyndunaraflinu og getur haft sterk áhrif á áhorfendur og samfélagið með óvæntu sjónarhorni eða nýjum upplýsingum.

Ísland Í Brennidepli – RIFF er skurðpunktur íslenskrar og erlendrar kvikmyndalistar. Hér eru sýndar nýjar myndir sem Íslendingar hafa komið að svo eftir er tekið.

Meistarar og Heiðursgestir – Listrænar kvikmyndir eru oftar en ekki afsprengi eins huga, kvikmyndahöfundar með einstaka sýn og ótrúlega hæfileika. Í þessum flokki fögnum við slíkum meisturum og sýnum verk þeirra.

Upprennandi meistari – þessi flokkur veitir innsýn inn í störf kvikmyndagerðarmanns sem er farinn að vekja athygli fyrir verk sín og er af mörgum talinn upprennandi meistari. Heiðursgestir í ár eru Claire Denis, John Hawkes og Katja Adomeit.

Sjónarrönd –Austurríki er í brennidepli í ár. Við sýnum frábært úrval fjölbreyttra mynda sem spanna vítt svið.

Norðlægur Hryllingur – Hrollvekjur og furðusögur hafa fyrir löngu fest sig í sessi sem hluti af kvikmyndahátíðum víða um veröld og slíkar kvikmyndir eru hér í sérstöku kastljósi. Áhersla er lögð á norðlægan hroll í bland við verk frá ólíkum heimshornum sem draga fram fjölbreytileika hrollvekjunnar í allri sinni blóðugu dýrð.

Erlendar Stuttmyndir – Sýnishorn af hugrökkum, listrænum og næmum röddum sem eru valdar af kostgæfni. Hér er á ferðinni hæfileikaríkt kvikmyndagerðarfólk sem með eldmóði sínum kemur okkur á ystu nöf, víkkar ímyndarafl okkar og veitir ferska sýn á kvikmyndaformið með hverjum ramma.

Sérviðburðir – Alþjóðleg kvikmyndahátíð í Reykjavík, RIFF, snýst um upplifun og þó það jafnist fátt á við hefðbundna bíóferð þá finnst okkur mikilvægt að hrista upp í dagskrá hátíðarinnar með fjölbreyttum sérviðburðum. Á meðal sérviðburða á RIFF 2019 eru bíósýningar á óhefðbundnum stöðum á borð við sundlaugar og elliheimili, málstofur og RIFF Spjall. Sjá einnig viðburði fyrir börn og ungmenni undir Ung RIFF.

Riff Um Alla Borg – Við trúum því að bíó breyti heiminum og leggjum okkur fram um að fara til þeirra sem ekki eiga heimangengt á RIFF. Við teygjum okkur út í samfélagið og sýnum áhrifaríkar myndir á bókasöfnum, hjúkrunarheimilum og fangelsum svo fáeinir staðir séu nefndir. RIFF setur unga kvikmyndagerðarmenn og framsækna kvikmyndagerð á oddinn. Kvikmyndir sem ýta við fólki, fræða og gefa nýja sýn. Það er okkur keppikefli að sem flestir unnendur kvikmynda geti notið þeirra á meðan á hátíðinni stendur og undir þeim merkjum vinnum við með RIFF um alla borg.

Heiðursgestir fyrri ára

Heiðursgestir RIFF frá upphafi eru Jim Jarmusch, Mike Leigh, Ruben Östlund, Milos Forman, Peter Greenaway, Costa-Gavras, Hanna Schygulla, Béla Tarr, Aki Kaurismäki, Hal Hartley, Shirin Neshat, Susanne Bier, Atom Egoyan, Abbas Kiarostami, Dario Argento, Thomas Bangalter, Guy-Manuel de Homem Christo, James Marsh, Lone Scherfig, Marjane Satrapi, Aleksandr Sokurov, Andrea Arnold, Ulrich Thomsen, Ulrike Ottinger, Damo Suzuki, Darren Aronofsky, Deepa Mehta, Werner Herzog, Olivier Assayas, Valeska Grisebach, Jonas Mekas, Laila Pakalnina, Sergei Loznitsa, Mads Mikkelsen, John Hawkes, Claire Denis og Katja Adomeit.