ÞUNGUR HNÍFUR: HRAFNINN FLÝGUR x SÓLSTAFIR
Það er létt yfir töffurunum í Sólstöfum í stúdíóinu þeirra á Seltjarnarnesi. Magnarar standa í stöflum og grænlenski, japanski, bandaríski, írski og íslenski fáninn hanga fram af göflunum í bland við tússaða settlista. Í miðju stúdíóinu er búið að koma fyrir litlum flatskjá sem sýnir má ungan dreng, kámugan í framan, ramba á fullvaxta mann sem blæðir út í grænu kjarri með ör á kafi í brjósti sínu.
Í gær fékk ritstjórn RIFF að líta inn á æfingu hjá rokkurunum en á föstudagskvöldið klukkan 20 í Háskólabíó munu Sólstafir blása til kvikmyndatónleika og leika tónlist undir sýningu á þessum sígilda lifrarpylsuvestra Hrafns Gunnlaugssonar.
Í gær fékk ritstjórn RIFF að líta inn á æfingu hjá rokkurunum en á föstudagskvöldið klukkan 20 í Háskólabíó munu Sólstafir blása til kvikmyndatónleika og leika tónlist undir sýningu á þessum sígilda lifrarpylsuvestra Hrafns Gunnlaugssonar.
Um er að ræða sérstakt tónverk, sem RIFF pantaði frá hljómsveitinni fyrir tíu árum síðan, og hefur aðeins verið flutt þrisvar síðan þá. Þegar kallið barst á sínum tíma var hljómsveitin ekki lengi að segja já. Auðveld ákvörðun, segja Sólstafir, því mynd Hrafns hafðu þá þegar haft mikil áhrif á hljómsveitina – en þegar Sólstafir tóku upp fyrstu plötuna sína, Masterpiece of Bitterness, tóku þeir Hrafninn Flýgur á VHS-formi á vídeóleigunni James Bönd, fengu lánaðar setningar og senur af spólunni, og mixuðu inn í hljóðheim plötunnar.
“Þegar við fórum af stað með að semja verk undir myndina, gátum við sniðið stakk eftir vexti og bútasaumað saman ýmislegt efni sem við áttum nú þegar í okkar fórum,” segir Addi, söngvar og gítarleikari sveitarinnar, og útskýrir svo að þegar hljómsveitin byrjaði hafi textarnir verið mjög innblásnir af gamla heiminum, norrænni goðafræði og víkingaandanum – þess vegna hafi útsetningin á þessu hátt í tveggja tíma langa tónverki verið tilvalið og ánægjulegt verkefni fyrir sveitina.
“Enginn hefur séð þessa mynd jafn oft og við,” segir Addi. Þetta eru örggulega komið upp í 80 skipti allt í allt. Núorðið kunna félagarnir handritið meira og minna utan að og segjast þeira þurfa að passa sig á föstudagskvöldið, að gjamma ekki fram í fyrir myndinni – eins og þeim þykir ekki leiðinlegt að gera á æfingum.
Aðspurðir um uppáhaldslínur eða atriði stendur ekki á svörum: “Láttu okkur í friði, þú ert kristinn!” – “Átt þú erindi við Þórð”, og svo frasinn, sem tónleikarnir draga nafn sitt af og svo auðvitað lokaatriði myndarinnar, sem Sólstafir spila gjarnan sem upphafsvídeó á tónleikunum þegar þeir túra um heiminn. Þá senda þeir gjarnan mynd á leikstjórann Hrafn og leyfa honum að fylgjast með á meðan Hrafninn flýgur í Tókýó, Tilburg, Dublin …