Nú styttist í að RIFF – Alþjóðleg kvikmyndahátið í Reykjavík – verði sett með pompi og prakt þann 28. september og mun standa til 8. október. Hátíðin sem stækkað hefur statt og stöðugt í gegnum árin verður sérstaklega glæsileg þetta árið en hún fagnar nú sínu tuttugasta starfsafmæli. Hægt er að tryggja sér passa og klippikort á hátíðina á heimasíðu hátíðarinnar hér
Það er ávallt tilhlökkunarefni þegar bíóandi RIFF leikur um borgina yfir þá ellefu daga sem Íslendingar og erlendir gestir fá nýjasta rjómann af erlendri kvikmyndagerð beint í æð. Hátíðin hefur á þeim tuttugu árum sem hún hefur farið fram fest sig í sessi sem einn af stærstu menningarviðburðum ársins og var nýlega valin ein athyglisverðasta kvikmyndahátíð Evrópu að mati tímaritsins The Moviemaker.
Sem fyrr verður dagskráin full af áhugaverðum og framsæknum kvikmyndum sem endurspegla það besta sem alþjóðleg kvikmyndagerð hefur upp á að bjóða en mikill fjöldi spunkunýrra, alþjóðlegra mynda verður sýndur á hátíðinni. Í mörgum tilfellum er um Evrópu- eða Norðurlandafrumsýningar að ræða. Á RIFF býðst einstakt tækifæri til þess að kynna sér nýjasta nýtt í kvikmyndaheiminum í dag en flestar myndanna verða ekki sýndar aftur hér á landi eftir að hátíðinni lýkur.
Dagskránni verður líkt og áður skipt upp í fjöldamarga flokka og sem dæmi má nefna Fyrir opnu hafi, Heimildarmyndir og Önnur framtíð ásamt flokknum Vitranir en í honum eru átta myndir sem koma til með að keppa um Gullna Lundann, aðalverðlaun hátíðarinnar sem veitt eru fyrir bestu myndina.
Að sjálfsögðu verða einnig til staðar ævintýralegir sérviðburðir þar sem nefna má sundbíó, hellabíó og RIFF um alla borg þar sem myndir eru sýndar á bókasöfnum, félagsheimilum og fleiri stöðum þar sem fólk kemur saman.
Nýir og spennandi sérviðburðir tengdir hátíðinni verða svo tilkynntir þegar nær dregur
Hugleikur og Hermigervill leggja RIFF lið
Á þessu sérstaka afmælisári RIFF er það uppistandarinn, teiknarinn og listamaðurinn Hugleikur
Dagsson sem mun sjá um að uppfæra lundann sem er lukkudýr hátíðarinnar.
„Eins mikið og ég elska RIFF, þá er aðal ástæðan að ég sagði já við þessu verkefni sú að mig langaði bara að teikna lundann,“ segir Hugleikur en lundinn hefur verið lukkudýr hátíðarinnar frá upphafi er honum mjög hugleikinn.
„Ég fíla hvernig þessi skepna hefur endurtekið stökkbreyst í gegnum árin í höndum mismunandi listafólks. Ég er montinn að fá að krukka í honum þetta árið,“ segir hann.
Það er svo tónlistarmaðurinn Sveinbjörn Thorarensen, betur þekktur sem Hermigervill, sem hefur samið stef hátíðarinnar og munu tónar hans hljóma víðsvegar í kynningarefni RIFF.
RIFF í áranna rás
Kvikmyndahátíðin RIFF hefur frá upphafi lagt áherslu á að kynna fjölbreytta íslenska og alþjóðlega kvikmyndaflóru. Á undanförnum 20 árum hafa yfir 4000 kvikmyndir verðið sýndar, yfir 1500 atvinnumenn úr kvikmyndaiðnaðinum heimsótt landið og hátt í 500 blaðamenn sótt hátíðina og sagt frá henni. RIFF hefur ávallt lagt áherslu á framsækna kvikmyndagerð og haft sérstakan fókus á nýja leikstjóra.
Gestir hátíðarinnar mynda langan lista af þekktu og viðurkenndu kvikmyndagerðarfólki en þar má meðal annars nefna: Jim Jarmusch, Mike Leigh, Ruben Östlund, Milos Forman, Peter Greenway, Costa-Gavras, Hanna Schygulla, Béla Tarr, Aki Kaurismäki, Hal Hartley, Shirin Neshat, Susanne Bier, Atom Egoyan, Abbas Kiarostami, Dario Argento, Lone Scherfig, Marjane Satrapi, Aleksandr Sokurov, Andrea Arnold, Darren Aronofsky, Deepa Mehta, Werner Herzog, Valeska Grisebach, Laila Pakalnina, Sergei Loznitsa, Mads Mikkelsen, John Hawkes, Claire Denis og Katja Adomeit