RIFF – Alþjóðleg kvikmyndahátíð í Reykjavík – er nú haldin í tuttugasta sinn og eru fimm dagar eftir af hátíðinni. Ein þeirra mynda sem við sýnum á RIFF 2023 er hin margverðlaunaða 20,000 Species of Bees / 20.000 tegundir býflugna eftir baskneska leikstjórann Estibaliz Urresola Solaguren. Um er að ræða hrífandi og fallega mynd sem fjallar á hjartnæman hátt um unga trans stúlku sem elst upp í Baskalandi en aðalleikkonan Sofía Otero hlaut Silfurbjörninn á Berlinale fyrir frammistöðu sína í myndinni og varð þar með yngsti handhafi verðlaunanna í kvikmyndasögunni. Við spurðum leikstjórann út í kvikmyndina og hvernig það var að slá í gegn með sinni fyrstu mynd.
- Í myndinni þinni, 20.000 tegundir býflugna, kannar þú sögu hinnar ungu stúlku Luciu sem er að ganga í gegnum sjálfsmyndarkreppu. Hvað var það sem fékk þig til að takast á við þetta efni?
Ég myndi ekki segja að hún sé að ganga í gegnum sjálfsmyndarkreppu. Hún veit hver hún er, en það sem hana skortir er styrkurinn og færnin til að tjá það fyrir fjölskyldu sinni. Hún hefur það á tilfinningunni að það sem hún er að ganga í gegnum sé eitthvað sem margir aðrir gangi í gegnum, jafnvel þótt hún þekki engan persónulega sem er að upplifa sömu aðstæður.
En innblásturinn kemur frá máli sem átti sér stað 2018 í Baskalandi, þegar 16 ára trans drengur tók sitt eigið líf. Hann skildi eftir sig bréf þar sem hann lýsti yfir löngun sinni til að opna á málefni trans fólks, sem voru sannarlega vanrækt á Spáni á þeim tíma. Enn fremur, með þessari ákvörðun og framtíðarsýn, var hann að reyna að gera lífið auðveldara fyrir komandi kynslóðir trans fólks. Von mín með þessari mynd var að láta síðustu ósk hans rætast. Einnig vildi ég ekki að myndin talaði frá myrku og fordómafullu sjónarhorni, heldur frekar frá næmu og hvetjandi sjónarhorni, að láta trans upplifunina standa út sem enn eina leiðina til að tjá mannlegt eðli.
- Myndir rannsakar ekki aðeins upplifanir trans fólks, heldur einnig hugmyndir um kvenleika. Svo virðist sem titillinn 20.000 tegundir býflugna gefi ekki aðeins til kynna að það séu margar leiðir til að lifa, heldur einnig hvernig kvenleiki er mismunandi eftir kynslóðum og einstaklingum. Hvað veitti þér innblástur þegar þú skapaðir þennan fjölbreytta hóp kvenpersóna?
Í upphafi byrjaði ég á því að taka viðtöl við margar fjölskyldur trans barna. Flestir endurtóku sama stefið, að í langan tíma hafi þau reynt að leiðrétta börnin sín, reynt að sannfæra þau um sitt rétta kyn. En þessi samtöl fengu mig til að spyrja, hvað þýðir það „að vera kona“ eða „að vera karl“, sem þetta fullorðna fólk þykist þekkja svo vel? Ég held persónulega að það sé ekkert skýrt svar við þessum spurningum. Kvenleiki er alltaf samofinn kynþætti, þjóðfélagsstétt og mörgum öðrum þáttum, sem þýðir að það getur ekki verið einhver ein staðalmynd af konu.
Mig langaði að safna saman hópi kvenna af ólíkum kynslóðum sem hafa allar ólíkan skilning á kvenleika. Það sem ég held hins vegar að sameini alla þessa ólíku einstaklinga er undirliggjandi skömm og lítillæti varðandi útlit þeirra, líkama eða jafnvel drauma þeirra og þrár. Þetta er eitthvað sem flestar konur erfa ómeðvitað. En Luciu tekst að rjúfa þessa arfleifð með því að koma nýju sjónarhorni inn í umhverfi sitt.
- Að leikstýra þinni fyrstu kvikmynd í fullri lengd og vinna með hinni ungu leikkonu Sofíu Otero hlýtur að hafa verið umtalsvert verkefni. Var eitthvað sem kom á óvart eða einhverjar áskoranir sem komu upp í framleiðslunni sem áttu þátt í því hvernig persóna Luciu þróaðist?
Í fyrsta lagi sá ég fyrir mér að persóna Luciu væri sex ára gömul. En svo fann ég Sofíu og hún var algjört kraftaverk. Fyrst þegar hún kom, valdi ég hana nánast ekki, því hún var svo ólík þeirri persónu sem ég hafði skapað. Hvorki ég né sá sem stýrði leikaravali trúðum því að hún gæti túlkað Luciu og við vorum að íhuga að gefa henni annað hlutverk. Þar sem við vorum að renna út á tíma þurfti ég að hugsa allt upp á nýtt. Það fékk mig til að átta mig á því að ég gaf Sofíu ekki tækifæri til að spreyta sig á aðalpersónunni. Í blálokin, þegar ég bauð henni í síðustu áheyrnarprufuna, steig hún fram sem algjörlega ný manneskja. Það sannaði fyrir mér að við dæmum oft fólk áður en við gefum því tækifæri.
Samstarfið með Sofíu var auðvelt frá upphafi. Eina áskorunin sem ég þurfti að sigrast á var að reyna að draga ekki úr ferskleikanum sem hún kom með inn í myndina. Þannig vildi ég vinna með öllum krökkunum, jafnvel þótt það þýddi að ég þyrfti að koma fram við fullorðna fólkið á sama hátt. Ég kaus líka að gefa krökkunum ekki handrit og finna leið til að þróa söguna með þeim – skömmina, átökin, sambönd bræðra og systra. Ég þurfti næstum því að skrifa forsögu fyrir þau svo þau myndu skilja hlutverkin sín betur. Það var líka gagnlegt fyrir mig til að sjá að hvaða tímapunkti ég gæti farið að leikstýra þeim á setti.
- Umgjörð og tungumál myndarinnar gegna órjúfanlegu hlutverki í frásögn hennar. Sem baskneskur kvikmyndagerðarmaður, hver voru megin markmiðin sem þú stefndir að með því að túlka Baskaland á ósvikinn hátt á kvikmyndatjaldinu fyrir alþjóð?
Baskaland skiptist í tvennt með landamærum á milli franska Baskalandi og spænska Baskalandi. Þessi aðgreining, sem er líka til staðar í tungumálinu, minnti mig á tvískiptinguna sem við höfum í samfélaginu, á milli þess sem er talið eðlilegt og þess sem er talið óeðlilegt. Þetta var mjög mikilvægt fyrir mig, því ég er sjálfur baskneskur og þessi sjálfsmynd er mikilvæg fyrir fjölskyldu mína. En eitt af því sem mér finnst fallegast við baskneska tungumálið er að þriðja persónan er ókynjuð, á sama hátt og lýsingarorð geta vísað til einhvers sem er kynsegin. Vegna eiginleika baskneska tungumálsins getur Lucia tjáð sig á táknrænan og frjálsan hátt. Hún talar vanalega þannig við aðra krakka og við frænku sína.
Mér finnst eins og persóna frænku hennar deili líka einhverju með Luciu sem tengist sjálfsmynd hennar. Kannski deila þær erfiðleikum við að tjá sig að fullu, eða elska það fólk sem þær vilja elska. Þær skilja hvor aðra og það endurspeglast í tungumálinu. Þar að auki gegna býflugur mjög mikilvægu hlutverki í baskneskri menningu, þar sem þær eru heilagt dýr. Þar sem Lucia og frænka hennar tengjast í gegnum býflugur gaf það mér tækifæri til að skapa tengsl á milli þeirra sem ná dýpra en félagslega og menningarlega stigið.
- Breytir velgengni fyrstu myndar þinnar því hvernig þú vilt nálgast kvikmyndagerð í framtíðinni?
Ég held að það setji mikla pressu á mig sem kvikmyndagerðarkonu. Það kom mér algjörlega í opna skjöldu þegar ég fékk verðlaun á Berlinale. Allt hefur verið svo stórt og óvænt fyrir mig að mér líður næstum eins og ég hafi fallið í yfirlið. Nú líður mér eins og stóri bróðir sé að fylgjast með hverri hreyfingu minni að ofan. En ég vona svo sannarlega að mér takist að framleiða kvikmyndir á sama hátt og ég hef gert hingað til. Ég tel að við þurfum að endurmóta þessa atvinnugrein inn að kjarna því við verðum að gera hana sjálfbærari. Við verðum að endurhugsa allt ferlið og endurskoða stigveldið og hvaðeina. Ég vona að núna hafi ég tækifæri til að leggja mitt af mörkum og hjálpa þessari þróun að gerast.
- Geturðu gefið okkur innsýn inn í þau viðfangsefni sem þú hefur áhuga á að skoða í væntanlegum kvikmyndum þínum?
Náttúran, vistfræðin, femínisminn, togstreitan á milli samfélags og sjálfræðis einstaklinga – þetta eru efni sem ég dregst alltaf að. Ég reyni alltaf að ávarpa sjálfbærni og gallana í kapítalískum lífsstíl í kvikmyndum mínum. Ég tek eftir því að við nálgumst lífið gjarnan eins og það sé eitthvað sem þarf alltaf að stækka sem fær mig til að halda að kannski ætti önnur myndin mín ekki að vera dýrari eða flóknari í framleiðslu. Kannski ættum við að leyfa okkur að rannsaka meira, búa til rými fyrir okkur sjálf og aðra til að tjá sig. Og þess vegna vil ég nota myndirnar mínar til að hvetja til umburðarlyndis fyrir þeim fjölbreytileika sem er án efa grundvallaratriði okkar samfélags.
20,000 Species of Bees / 20.000 tegundir býflugna / 20.000 especies de abejas
Estibaliz Urresola Solaguren, ES, 2023, 129 min
Berlinale Silver Bear: Besti aðalleikari / Best Leading Performance
7.10. @ Háskólabíó 2 – 11:00 – Hægt er að kaupa miða hér
8.10. @ Háskólabíó 2 – 18:30 – Hægt er að kaupa miða hér
Hrífandi uppvaxtarsaga stúlku sem kannar kynvitund sína í basknesku býflugnabónda-mæðraveldi. Hér sjáum við ótrúlega frammistöðu yngsta Silfurbjarnar verðlaunahafa sögunnar.