10 áhugaverðar myndir á RIFF 2021

Það verður flott úrval mynda á RIFF í haust sem koma beint af kvikmyndahátíðum sumarsins og haustsins. Hér er listi yfir 10 sérvaldar myndir af aðstandendum hátíðarinnar sem allar hafa vakið mikla athygli þetta árið eða unnið til verðlauna.

Azor – Gáshaukur

Þessi pólitíski samsæristryllir gerist á níunda áratugnum og fylgir eftir svissneskum bankamanni í sendiför í Argentínu, þá undir einræðisstjórn, til þess að leita að samstarfsmanni sínum sem hefur horfið sporlaust. Persónur eru peð í valdatafli blárra handa – enginn er saklaus í þessari gráu veröld eiginhagsmuna.

 

Brighton 4th

Fyrrum fjölbragðaglímukappinn Kakhi frá Georgíu ferðast frá Tíblísí til Brooklyn þar sem sonur hans er í djúpri fjárhættuspilaskuld. Hetjan grípur til þeirra örþrifaráða að mana lánadrottinn Amir í hringinn með þeim skilyrðum að skuldinni verður gleymt ef Georginn vinnur.

 

The Worst Person

Nýjasta kvikmynd heiðursverðlaunahafans norska Joachims Triers. Frásögnin spannar fjögur ár í lífi Júlíu, ungrar konu sem reynir að greiða úr flækjum í ástarlífi sínu en lendir um leið á hraðahindrunum á framabrautinni. Vegferðin lætur hana sjá sjálfa sig í nýju og raunsærra ljósi.

HEIMILDARMYNDIR

Gabi, frá 8 til 13 ára aldurs

„Sumir segja að ég vilji vera drengur, en svo er ekki, ég vil bara vera Gabi.” Ekki svo flókið, hefði man haldið, en annað kemur úr krafsinu. Yfir fimm ára tímabil er aðalpersónunni fylgt eftir í sjálfsmyndarumleitun í kynjuðu samfélagi.

 

Taming the Garden – Að temja garðinn

Valdsmaður stundar þá einkennilegu iðju að rífa upp aldagömul tré meðfram georgísku sjávarsíðunni og planta þeim í garðinum sínum. Athæfið hefur mikil áhrif á umhverfi trjánna og samfélögin sem þau tilheyra. Myndin fylgir eftir þessu ferli, og dregur um leið upp svipmynd af georgísku samfélagi og gildum þess, en það„að rífa upp á rótum“ á sér þar margræðar merkingar.

 

Zinder

Kvikmyndagerðarkonan Aicha Macky dembir áhorfendum inn í veröld „Palais“ gengjanna sem ráða lögum og lofum í heimabæ hennar, Zinder, í Níger í Vestur-Afríku. Glæpalífið veitir tilgang og virðingu, annars blasir við atvinnuleysi og ömurð.

 

Fallegasti drengur í heimi

Við heimsfrumsýningu kvikmyndarinnar „Dauðinn í Feneyjum“ lýsti ítalski leikstjórinn Lucho Visconti (og einn meistara nýraunsæisins) því yfir að aðalhetja hans Tadzio væri fallegasti drengur í heimi. Fimmtíu árum seinna markar þessi yfirlýsing enn djúp spor á líf Björns Andrésen.

 

Sisters With Transistors – Smárasystur

Mögnuð og áður ósögð saga kvenkyns frumherja á árdögum raftónlistar, þegar þeramín, hljóðgervlar og feedback-vélar þöndu vitin. Tónskáldin, Delia Derbyshire þ. á m. (en Laurie Anderson er sögumaður myndarinnar), umbreyttu hvernig tónlist er gerð og skynjuð í dag. Tímabær og fagur óður til brautryðjenda í sögunni.

 

a-ha The Movie – a-ha bíómyndin

Norsku hljómsveitinni a-ha er fylgt eftir á tónleikaferðalagi. Þessir þrír ungir menn, hafa fjarlægan draum um að verða alþjóðlegar poppstjörnur, og þegar gullni smellurinn „Take on Me“ nær toppsæti Billboard-listans ameríska virðist takmarkinu náð. Hvernig er svo að lifa í draumi? Þetta er frásögn af metnaði, frábærri tónlist, vinslita og jafnvel, fyrirgefningu.

 

Teiknimyndir

Cryptozoo – Duldýragarðurinn

Duldýragarðsverðir fanga fágæta goðnasagnaveru sem nærist á draumum. Þeir velta fyrir sér hvað sé hið rétta í stöðunni: á slík undravera að vera lokuð inni eða er betra að hún lifi áfram í felum?

Facebook
Twitter
LinkedIn
Email