LEITA

Umhverfisvernd

RIFF, Alþjóðleg kvikmyndahátíð í Reykjavík vill vera í fararbroddi menningarhátíða með umhverfisvernd og sjálfbærni í nýrri stefnu sinni og breyttum áherslum í störfum í samvinnu við marga samstarfsfélaga hátíðarinnar. Meðal þess sem RIFF hyggst gera í ár er að draga úr umhverfismengandi ferðalögum með samstarfsfélögum sínum, bílaleigunni Hertz, rafskútuleigunni Hopp og Strætó bs og í prentun efnis með prentsmiðjunni Ísafold og með notkun bola fyrir starfsfólk og gesti gerða úr 100% bómullarefni. Þá verður trjám plantað til kolefnisjöfnunar fyrir hvern flugfarþega sem sækir hátíðina heim. Umhverfisvernd er áhersla RIFF í samstarfi við sex aðrar kvikmyndahátíðir í Evrópu og dagskrárliðir hátíðarinnar sem stuðla að umhverfisvitund hafa verið efldir.

„Við hvetjum hátíðargesti og kvikmyndaunnendur til að huga að umhverfinu í ferðaháttum og vinna með okkur að stefnunni. Erlendir gestir gera sér einnig ferð í Heiðmörk og leggja Benedikt Erlingssyni, leikstjóra, lið við gróðursetningu og ræktun sérstaks kvikmyndaskógar sem er einmitt stofnsettur til þess að draga úr umhverfismengandi áhrifum kvikmyndaiðnaðarins, hugmyndin er að hluti hans muni heita RIFF skógurinn,“ segir Hrönn Marinósdóttir, stjórnandi RIFF.