Það eru mikil gleðitíðindi að Háskólabíó verður aðalbíóhús RIFF, Alþjóðlegrar kvikmyndahátíðar í Reykjavík, í haust. Húsið mun iða af lífi þessa 11 daga en til stendur að sýna fjöldamargar splunkunýjar kvikmyndir frá öllum heimshornum á hátíðinni sem haldin verður í tuttugasta sinn dagana 28. september til 8. október. Von er á fjölda erlendra gesta m.a. leikstjórum mynda og efnt verður til umræðna af ýmsu tagi, ljósmyndasýning sem tengist sögu RIFF verður i anddyri, tónleikar og fleira.
Með þessu mun kvikmyndaáhugafólki bjóðast einstakt tækifæri að sjá kvikmyndir í húsinu á ný en eins og kunnugt var hætt með almennar kvikmyndasýningar í húsinu um síðustu mánaðamót.
RIFF var með sýningar í öllum fjórum sölum Háskólabíós í fyrra og jókst miðasala á milli ára.
Sem fyrr mun RIFF jafnframt standa fyrir viðburðum og kvikmyndasýningum m.a. í Norræna húsinu en jafnframt víða á landsbyggðinni auk þess sem sýndar verða myndir af ýmsu tagi víðsvegar um borgina undir merkinu RIFF um alla borg á skrítnu og skemmtilegum stöðum en líka á bókasöfnum, hjúkrunarheimilum og í öðrum menningarhúsum.
Háskólabíó áfram menningarhús
Að sögn Þorvalds Kolbeins, rekstrarstjóra Háskólabíós er mikill eftirvænting fyrir RIFF og til standi að hafa menningarviðburði af ýmsu tagi áfram í húsinu. „Háskólabíó heldur áfram að vera stór og skemmtilegur skemmtistaður vestan við læk,“ segir hann en húsið á sér vissulega langa og viðburðaríka sögu sem menningarhús í Reykjavík.
Fyrir hátíðina verður húsið skreytt upp á nýtt að innan og allt gert til að gera móttökur sem hlýjastar fyrir gesti RIFF en það verður gert í samstarfi við Góða Hirðirinn í samræmi við umhverfisvæna stefnu hátíðarinnar.
RIFF var einnig með sýningar í Háskólabíó á síðasta ári og gengu sýningar þar afar vel, að sögn Hrannar Marinósdóttur, stjórnanda RIFF og jókst miðasala á milli ára.. „Við erum virkilega spennt að fá að vera áfram í Háskólabíói sem er frábært bíó- og menningarhús og verður það vonandi um ókomna tíð enda er húsið sérstaklega mikilvægt í kvikmynda- og menningarsögu Íslands,“ segir hún.
Almennt um Háskólabíó
Háskólabíó hefur starfað sem kvikmyndahús allt frá 1961 en SENA hafði séð um rekstur þess síðan
2007. Samningur við SENU rann út í júní mánuði á þessu ári hafa því almennar sýningar verið lagðar niður.
Húsið hefur lengi vel verið eitt helsta menningarhús Reykjavíkurborgar en það var aðaltónleikahús Sinfóníuhljómsveitar Íslands um árabil eða þar til Tónlistarhúsið Harpa var tekið í notkun árið 2011. Það eiga því margir góðar minningar um viðburði í þessu sögufræga húsi sem mun ekki hætta að vera miðstöð menningar.