HOLLENSKUR FÓKUS Á RIFF 2021

Nú styttist óðum í 18. hátíð RIFF Reykjavík International Film Festival og vinnur teymið hörðum höndum þessa dagana við að velja myndir á hátíðina. Að vanda verður heilmikil og vönduð dagskrá. Þetta árið verður áhersla lögð á tónlist í kvikmyndum til viðbótar við alla okkur föstu liði auk þess sem sjónum okkar verður sérstaklega beint til Hollands.

Í fyrra hófum við þá nýbreyttni að bjóða einnig upp á dagskrá hátíðarinnar heima í stofu og voru móttökurnar svo góðar að við munum endurtaka leikinn í ár.

Það verður því enn auðveldara fyrir kvikmyndaunnendur að komast yfir meira af yfirgripsmikilli dagskrá hátíðarinnar og blanda sama kósí stemmingu heima í stofu og hinni einu sönnu bíó upplifun með popp og kók í bíósal. Að ógleymdu, tækifærinu að hitta og skrafa við annað áhugafólk um kvikmyndir og jafnvel aðstandendur mynda á hátíðinni.

Næstu vikur fram að hátíð munum við kynna dagskrá hátíðarinnar og ríðum við á vaðið nú með Holland í Fókus. Frá Hollandi hafa sprottið heimsfrægir leikstjórar en lesa má meira um hollenska kvikmyndasögu neðar.

 

Holland í Fókus

Valin hefur verið viðamikil dagskrá sem samanstendur af 7 kvikmyndum í fullri lengd, sem gera það gott á hátíðum þetta árið, eftir bæði nýja og efnilega leikstjóra sem og rótgrónar heimsþekktar kanónur eins og Paul Verhoeven (Basic Instinct og RoboCop). Sjá lista fyrir neðan.

Auk þess verður fjölbreytt og glæsileg dagskrá með fjölda hollenskra stuttmynda sem allar hafa vakið athygli nýliðin ár. Alls eru það 12 stuttmyndir sem skipt verður niður á tvö sýningarslott þannig að hægt verður að horfa á 6 myndir í einu.

Og first við erum að tala um Holland og Holland í fókus þá er vert að nefna “The One Minute Show” sem er einmitt frá Hollandi og mun setja svip á borgina í ár.

THE ONE MINUTE SHORTS – EINNAR MÍNÚTU PRÓGRAM.
…er hollenskt konsept framleitt af The One Minutes Foundation. The One Minute Foundation framleiðir og dreyfir einnar mínútu myndböndum frá listrænu sjónarmiði sem framleidd eru af fólki út um allan heim. Ný sería, 60 sekúntna myndbanda, eftir fjölda listamanna kemur út á tveggja mánaða fresti og er hver sería byggð á ákveðnu þema. Þrjú þema verða sýnd í September á RIFF og munum við tilkynna þemu og staðsetningar þegar nær dregur.

 

Um Hollenska kvikmyndasögu

Þrátt fyrir að teljast tiltölulega smár kvikmyndaiðnaður á heimsvísu hafa Hollendingar markað djúp spor á sögu miðilsins. Mikil og rík heimildarmyndahefð er þar í landi sem tók fyrst á sig mynd á sjötta og sjöunda áratugi síðustu aldar, og fóru þar hæst verk Joris Ivens og Berts Haansra.

Alþjóðlega heimildarmyndahátíðin í Amsterdam (IFDA) er með mikilvægustu sinnar tegundar í álfunni og sinnir, ásamt alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Rotterdam, mikilvægu hlutverki fyrir kvikmyndamenningu landsins.

Á áttunda áratugnum stóð hollensk kvikmyndaframleiðsla í hvað mestum blóma en sá tími markaði einnig uppgang þekktasta kvikmyndahöfundar þjóðarinnar, Paul Verhoeven. Verhoeven gerði fimm kvikmyndir í heimalandinu, þeirra þekktust Turkish Delight (1973), áður en hann náði fótfestu sem leikstjóri í Hollywood með myndum eins og RoboCop (1987) og Basic Instinct (1992). Á undanförnum áratugum hefur hann mest megnis starfað innan evrópska kvikmyndageirans, m.a. með einni vinsælustu hollensku mynd síðustu ára Zwartboek (2006) og nú síðast Elle (2016) og Benedetta (2021).

Aðrir hollenskir kvikmyndagerðarmenn sem gerðu garðinn fræga utan landsteinanna eru kvikmyndatökumaðurinn einstaki Robby Müller (svarthvítar kvikmyndir Wims Wenders og Jims Jarmusch m.a.), tökumaðurinn og leikstjórinn Jan De Bont (þeysreiðinn Speed) og leikarinn Rutger Hauer (Blade Runner).

 

Hollenskar Myndir á RIFF

 

 

Benedetta

Nýjasta verkið úr smiðju ólíkindatólsins Paul Verhoeven (RoboCop, Basic Instict, Elle) olli miklu fjaðrafoki á Cannes. Þetta erótíska drama á sér stað á seinni hluta sautjándu öld þegar farsóttir herja á og nýliðinn Benedetta Carlini gengur til liðs við klaustur í Pescia í Toscanahéraði. Frá unga aldri virðist mærin mörgum undragáfum gædd og hefur koma hennar umsvifalaus og umbyltandi áhrif á samfélagið. Trailer

 

Do Not Hesitate – Ekki hika

Flutningabíll, sem hollenskt friðargæslulið ferðast með, bilar í miðri eyðimörk. Á meðan hermennirnir bíða óþreyjufullir eftir viðgerðarteymi hitta þeir fyrir barnungan heimamann sem neitar að láta þá í friði. Trailer

 

Fögur feigð – Dead and Beautiful

Í asískri stórborg vaknar hópur ríkra ungmenna við timburmenn af annarlegri sort. Nóttin hefur látið tanngarð þeirra taka stakkaskiptum og spegilmyndin bítur góðan dag. Í kjölfarið ráfa þau um í leit að næturævintýrum í skúmaskotum borgarlandlagsins. Fögur kvikmyndataka Jaspers Wolf ljær frásögninni draumkenndan blæ. Trailer

 

Undrafjöll – Magic Mountains

Lex er farsæll rithöfundur en eirðarlaus. Hann fær fyrrverandi ástkonu sína, Hönnu, til að koma í fjallgöngu í hinsta sinn. Athöfn sem á fyrst og fremst að vera táknræns eðlis reynist full háska. Fjallaleiðsögumanninn Voytek grunar að eitthvað válegt sé á seyði. Undrafjöll er fimmta langmynd virtu pólsk-hollensku kvikmyndagerðarkonunnar Urzula Antoniak. Trailer

 

Dramastelpa – Drama Girl

Leyla, 26 ára kona, er aðalpersóna kvikmyndar sem speglar líf hennar en öll önnur hlutverk eru túlkuð af leikurum. Á þennan máta eru mörk raunveruleika og skáldskapar afmáð í hrífandi blöndu heimildarmyndagerðar og leikinna kvikmynda. Dramastelpan hlaut sérstaka viðurkenningu gagnrýnenda á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Rotterdam (IFFR). Trailer

 

Veisla – Feast

Árið 2007 komst svonefnt Groningen HIV-mál í hámæli í hollenskum fjölmiðlum, en það varðaði þrjá menn sem byrluðu öðrum karlmönnum HIV-jákvæðu blóði sínu. Í Veislu taka sakamennirnir, þolendur þeirra og sjónarvottar þátt í dramatískri sviðsetningu atburðanna. Þessi umdeilda mynd skiptist í sjö sjálfstæða kafla þar sem flakkað er milli greinargerðar og súrrealisma í efnistökum. Trailer

 

Farðu heil paradís – Farewell Paradise

Í sjálfsævisögulegri heimildarmynd gerir kvikmyndagerðarkonan Sonja Wyss upp straumhvörf á æviskeiði sínu er fjölskylda hennar flutti frá æskuparadísinni á Bahamaeyjum til strangs samfélags og kalds loftlags í Sviss. Verkið sýnir mismunandi sjónarhorn systkinanna á atburðina sem bregður upp einkar brotakenndri heildarmynd af því sem liðið er. Trailer

Facebook
Twitter
LinkedIn
Email