Stærsta sundbíó sögunnar!

Life of Pi á risaskjá í Laugardalslaug

 

Stærsti sundbíóviðburður RIFF hingað til verður haldinn 25. ágúst næstkomandi! Myndin Life of Pi verður sýnd á 100 fermetra skjá sem er sá stærsti sem settur hefur verið upp utandyra á Íslandi.

Í tilefni af 20 ára afmæli RIFF verður sundbíóið stærra en nokkru sinni fyrr þegar stúkan í Laugardalslaug verður opnuð almenningi í fyrsta sinn í áraraðir. Sundlaugarsvæðinu verður breytt í hátíðarsvæði þar sem matur, lifandi tónlist og kvikmyndasýning mynda óviðjafnanlega upplifun. Stúkan hefur nýlega verið tekin í gegn og hefur ekki litið svona vel út síðan fyrir aldamót.

Á skjánum verður verðlaunamyndin Life of Pi frá 2012. Myndin var tilnefnd til 11 óskarsverðlauna á sínum tíma og vann fjögur. Life of Pi er byggð á metsölubók Yann Martel og er töfrandi ævintýrasaga um ótrúlegt lífshlaup drengs á Indlandi. Myndin gerist að miklu leyti á litlum báti úti á hafi sem gerir hana kjörna fyrir sundbíó RIFF.

Allt sundlaugarsvæðið umhverfis stóru laugina verður opið gestum viðburðarins og iðandi af lífi. Þar munu gestir geta rölt um svæðið, verslað sér sælgæti og RIFF varning, keypt mat frá matarvögnum, legið á legubekkjum og slakað á í heitu pottunum á meðan þeir horfa á bíó. 

Villi Netó verður kynnir og í sundlauginni sjálfri verða árabátar, ekki ósvipaðir þeim sem birtast í myndinni, sem fólki er frjálst að sitja í og horfa á myndina. Lifandi tónlist verður leikin og svæðið lýst upp af Luxor á glæsilegan hátt svo úr verður sannkölluð töfraveröld.

Húsið opnar kl. 19:00 og fram koma Dísa Jakobs, Teitur Jakobs og Björgvin Gíslason – Life of Pi hefst kl. 20:00!

Ævintýrið hefst 25. ágúst kl. 19:00. Smellið hér til að kaupa miða! Ekki missa af einstökum bíó- og sundlaugaviðburði, aðeins í þetta eina skipti!

Facebook
Twitter
LinkedIn
Email