Barnakvikmyndahátíðin UngRIFF haldin í fyrsta sinn

Barnakvikmyndahátíðin UngRIFF verður haldin í fyrsta skipti í ár samhliða RIFF – Alþjóðlegri kvikmyndahátið í Reykjavík. Gert er ráð fyrir að hátíðin hefjist með frumsýningu einum degi á undan RIFF þann 27. September.

Þetta verður í fyrsta sinn sem hátíðin er haldin sem sérstakur viðburður að sögn Óla Vals Péturssonar, skipulagsstjóra UngRIFF „Við erum að fara af stað með þetta í fyrsta sinn sem sér hátíð og erum gríðarlega stolt af þeirri dagskrá sem við erum að bjóða upp á,“ segir hann.

Óli Valur verkefnastjóri UngRIFF

„Markmið UngRIFF er að búa til vettvang fyrir börn og ungmenni á aldrinum 2-16 ára færi á að sækja kvikmyndahús og fá vettvang til að tjá sig. En við teljum að öll börn eigi rétt á því að fá tækifæri til að upplifa töfaheim kvikmyndanna óháð uppruna, kyni eða búsetu.“

Viðburðir undir merkjum UngRIFF hafa verið haldnir á RIFF í fjöldamörg ár en ákveðið hefur verið að halda sérstaka hátíð með tilkomu nýrra styrkja sem tilkomnir eru frá Menntamálaráðuneytinu, Reykjavíkurborg og MEDIA, áætlun Creative Europe.

 

Börnin fá að ráða

Sérstakt ungmennaráð verður stofnuð í kringum hátíðina sem taka mun taka beinan þátt í skipulagninu hátíðirnnar.  Til þess mun UngRIFF á næstu dögum auglýsa eftir ungmennum á aldrinum 13-16 ára. Ungmennum sem hafa áhuga á kvikmyndagerð er því bent á að hafa augun opin næstu daga.

„Með því að fá börnin að borðinu í skipulagningu hátíðarinnar geta þau kallað hátíðina sína eigin,“ segir Óli Valur sem segir einnig að hugmyndin að baki ungmennaráðs sé að fá börn til að taka þátt í skipulagningu UngRIFF og geta valið þá viðburði sem þau hafa áhuga á og tekið þátt í að skapa listrænar smiðjur hátíðarinnar.

 

UngRIFF á öllu landinu

Meðal þess að fram fer á hátíðinni verða sérstakar skólasýningar fyrir grunnskóla sem haldnar verða í samvinnu við kvikmyndahús um land allt. Einnig verða haldnar barnasýningar á völdum bókasöfnum í Reykjavík. 

„Við bjóðum öllum skólum á höfuðborgarsvæðinu ásamt skólum á fjórum vel völdum stöðum á landsbyggðinni að koma á sérstakar skólasýningar endurgjaldslaust,“ segir Óli Valur en einnig mun hátíðin senda skólum og félagsmiðstöðvum um allt land stuttmyndir sem hægt verður að nýta sem kennsluefni og til skemmtunar.

Sérstakur partur af hátíðinni verða svo listasmiðjur sem framkvæmdar eru allan ársins hring. Þar verður börnum gefið tækifæri til að fá innsýn inn í kvikmyndagerð en þær eru einnig hannaðar til þess að auka kvikmyndalæsi ungmenna. 

„Við fáum meðal annars til okkar listakonuna Viktoríu Guðnadóttir sem mun kenna börnum að gera mínútulangar stuttmyndir í einni smiðjunni,“ segir Óli Valur sem segir margt annað spennandi í skipulagningu. „ Til dæmis smiðja sem kennir börnum kvikmyndalæsi og gagnrýna hugsun með því að búa til sína eigin kvikmyndagagnrýni,“ segir hann.

 

Fimm hátíðir sameinast

Stækkun UngRIff í ár helst í hendur við samstarfverkefni fimm stórra kvikmyndahátíð á Norðurlöndum sem RIFF er aðili að.

Hátíðirnar fimm hafa allar hlotið styrk úr MEDIA áætlun Creative Europe til að styðja norrænar barna- og unglingakvikmyndir á svæðinu í gegnum NoJSe samstarfsnetið – Nordic Junior Sessions Network.

Markmið samstarfsnetsins er að miðla sterkustu norrænu kvikmyndunum til barna, ungmenna, foreldra og kennara um öll Norðurlönd, en einnig að vera miðstöð þar sem allur norrænur barnafjölmiðlaiðnaður getur hist, skipt á reynslu og sett metnaðarfulla ramma fyrir framtíð norrænna barna- og unglingamynda.

Facebook
Twitter
LinkedIn
Email