Úrval íslenskra kvikmynda frumsýndar á RIFF

RIFF er skurðpunktur íslenskrar og erlendrar kvikmyndalistar. Í flokknum er að finna kvikmyndir sem Íslendingar hafa komið að svo eftir er tekið.
Við upphaf og lok hátíðarinnar verða frumsýndar tvær myndir úr þessum flokki. Myndirnar verða sýndar í Bíó Paradís og á netinu í gegnum www.riff.is en Þriðji Póllinn verður frumsýndur í Háskólabíó.

Viðfangsefni myndanna gæti ekki orðið mikið fjölbreyttara en þar má m.a. finna mynd um sirkuslistina, óhefðbunda heimildarmynd um geðhvörf, húsmæðraskóla og gildi hans í nútíma samfélagi og Eurovision sem pólitískt afl.

Þriðji Póllinn/ The Hero’s Journey to the Third Pole

Opnunarmynd RIFF er áhrifarík heimildarmynd um geðhvörf með söngvum og fílum í leikstjórn Anní Ólafsdóttur og Andra Snæs Magnasonar. Hér segir af ferðalagi fílaprinsessunnar Önnu Töru og rokkstjörnunnar Högna um Nepal en þau hafa bæði glímt við geðhvörf og fær áhorfandinn innsýn í hugsun og veruleika tveggja einstaklinga með þann sjúkdóm. Þetta er ferðasaga, mynd um óvænta vináttu og opin umræða um hvað það þýðir að vera með geðsjúkdóm.

Á móti straumum/Against The Current

Hátíðinni lýkur með frumsýningu á fyrstu heimildarmynd leikstjórans og lagahöfundarins Óskars Páls Sveinssonar í fullri lengd. Hér er á ferð táknræn mynd um transkonuna Veigu Grétarsdóttur sem siglir á kajak í kringum Ísland rangsælis, eða á móti straumnum, í þrjá mánuði. Samhliða tekst hún á við sjálfa sig í kynleiðréttingarferlinu og gefur myndin innsýn í innri baráttu Veigu um líf eða dauða hvort sem er í lífinu sjálfu eða ein úti á kajak.

Against the current

Sirkusstjórinn/The Circus Director

RIFF og Listahátíð í Reykjavík frumsýna í samstarfi nýjustu kvikmynd leikstjórn Helga Felixsonar og Titti Johnson. Áhugaverð mynd um sirkusstjórann Tilde Björfors stjórnanda Circus Cirkör sem kom með nútímasirkúslistina til Svíþjóðar fyrír tveimur áratugum. Rauði þráður myndarinnar er sá hvað gerist ef við hættum að þora að taka áhættu í í lífinu og látum hræðsluna stjórna okkur.

The Circus Director - Sirk­us­stjór­inn RIFF

Humarsúpa/Lobster Soup

Mynd sem kemur beint frá San Sebastian kvikmyndahátíðinni þar sem hún vann til tveggja verðlauna. Myndin er í leikstjórn Pepe Andreu & Rafael Molés
en meðal handritshöfunda eru Ólafur Rögnvaldsson. Sögusviðið er Kaffihúsið
Bryggjan í Grindavík sem þjónar sem skjól fyrir bæjarbúa á síðustu 3000 fermetrunum af byggingarlandi á höfninni á meðan túristarnir og hraunbreiðurnar virðast í sívaxandi mæli vera að þrýsta öllu þorpinu á haf út. Forvitnileg sýn á Ísland með augum hinna spænsku kvikmyndagerðarmanna sem hafa getið sér gott orð fyrir heimildarmyndir sínar sem þeir hafa mikla ástríðu fyrir.

Skilnaður á milli himins og jarðar

Evrópufrumsýning á kvikmyndinni Á milli Himins og Jarðar/Between Heaven and Earth á RIFF sem tilnefnd er til Evrópsku kvikmyndaverðlaunanna 2020 sem íslensk. Myndin er framleidd í samstarfi hins íslenska framleiðslufyrirtækis Oktober production og palestínska framleiðslufyrirtækis Ustura Films. Á milli Himins og Jarðar er ástarsaga um skilnað þar sem áhorfandinn fær tækifæri til að fara í bíltúr um Palestínu og Ísrael. Ferðalag hjónanna veitir okkur innsýn í hinar ýmsu hliðar þessa samfélags sem er rifið og tætt af árþúsundagömlum skærum og stríði.

Systur: Draumar og Fjölbreytileiki/ Sisters: Dreams & Variations

Evrópufrumsýning á litríkri mynd sem er allt í senn heimildarmynd, teiknimynd og gjörningur. Leikstjóri hennar Catherine Legault er margverðlaunaður leikstjóri og klippari en þetta er fyrsta heimildarmyndin í fullri lengd sem hún leikstýrir. Í myndinni segir af hinum skemmtilegu og listrænu systrum Tyr og Jasa sem eru heillaðar af upptökum langömmu sinnar af íslenskum þjóðlögum. Þær ferðast saman til Íslands í fyrsta sinn, og vinna saman að listagjörningi sem leiðir saman listköpun þeirra og menningararfleið.

Húsmæðraskólinn/The School of Housewives

Norðurlandafrumsýning á Húsmæðraskólanum sem er einstök samtímaheimild um Húsmæðraskólann í Reykjavík. Myndin fjallar um hinn horfna heim íslensku húsmóðurinnar og hvernig hlutverk skólans hefur breyst í áranna rás. Gamli tíminn er endurspeglaður samhliða því sem fylgst er með nemendum við skólann í dag og það skoðað hversu mikil breyting hefur orðið á ímynd skólans. Stefanía Thors hefur unnið að mörgum kvikmyndum og heimildarmyndum en þetta er fyrsta heimildarmyndin sem hún leikstýrir.

Hatrið/A Song Called Hate

Hatrið er frumraun Önnu Hildar Hildibrandsdóttur sem leikstjóra en hún söðlaði nýverið um og sneri sér að kvikmyndagerð eftir að hafa starfað í tónlistarbransanum í um tvo áratugi. Myndin fjallar um ferðalag hljómsveitarinnar um króka og kima Eurovision, Ísraelsríkis og Palestínu. Í myndinni er fylgst með togstreitunni og spurningunum sem vöknuðu á leiðinni og rætt við meðlimi sveitarinnar fyrir og eftir að tvö hundruð milljón manns sjá atriði þeirra í sjónvarpi. Myndin gefur raunsæja innsýn í það hvernig Hatari tókst á við þetta gríðarstóra verkefni, sem oft gekk mjög nærri þeim, og sýnir hvernig ferðalagið breytti hugsanagangi þeirra og sýn á lífið.

Skuggahverfið/Shadowtown

Frumsýning á Skuggahverfinu er fyrsta mynd þeirra Jóns Einarsson Gústafssonar og Karolinu Lewicka í fullri lengd sem þau vinna saman. Aðal leikkona myndarinnar er hin vestur-íslenska Brittany Bristow en í myndinni leikur einnig hinn heimsþekkti leikari John Rhys-Davies sem er Íslendingum kunnugur úr í The Lord of the Rings og Indiana Jones myndunum. Meðal íslenskra leikara eru Edda Björgvinsdóttir, Inga María Eyjólfsdóttir og Rúnar Freyr Gíslason. Skuggahverfið er dramatísk mynd með hrollvekjandi ívafi.

Facebook
Twitter
LinkedIn
Email